Copy
2. tbl. 2014.
Skoða fréttabréf á vef
Fréttir

Launabilið eykst frá 2002

Í töflunni hér að ofan (sem má sjá stærri hér) má sjá samanburð á meðallaunum kennara, náms- og starfsráðgjafa og stjórnenda í ríkisreknum framhaldsskólum (KÍ-ríki) árin 2002, 2007 og 2012 við meðallaun félagsmanna BHM sem starfa hjá ríkinu (BHM-ríki) annars vegar og við meðallaun sérfræðinga á almennum vinnumarkaði hins vegar. Í neðri hluta töflunnar eru vísitölur sem sýna hlutfallslegt frávik launa samanburðarhópanna frá launum KÍ-ríks.

Meðallaun  2002 voru tæpu prósenti hærri hjá KÍ-ríki en hjá BHM-ríki. Regluleg laun sérfræðinga á almennum markaði voru 48% hærri en dagvinnulaunin hjá KÍ-ríki og munurinn á heildarlaununum var tæp 24%. Á árinu 2007 hafði framangreind staða frá 2002 breyst verulega KÍ-ríki í óhag. Meðal dagvinnulaun BHM-ríks voru 13% hærri en meðal dagvinnulaun hjá KÍ-ríki en munurinn á heildarlaununum var 1%. Sérfræðingar á almennum markaði höfðu aukið launaforskot sitt frá 2002 og voru með 71% hærri regluleg laun en dagvinnulaun hjá KÍ-ríki 2007 og 56% hærri meðalheildarlaun. Launamunurin 2012 var tæp 16% miðað við BHM-ríki en rúmlega 72% miðað við sérfræðinga á almennum vinnumarkaði en á heildarlaununum munaði þá um 8% miðað við við BHM-ríki og tæplega 51% miðað við sérfræðinga á almennum vinnumarkaði.

Umhugsunarvert  er að framangreind launaþróun frá 2002 til 2012 átti sér stað þrátt fyrir að ákvæði kjarasamninga hjá KÍ-ríki um launahækkanir væru síst lakari en sambærileg ákvæði í kjarasamningum samanburðarhópanna.

Kennarar í MH funda á mánudaginn

Félögum í FF og FS nóg boðið

Framhaldsskólakennarar vítt og breitt um landið söfnuðust saman á fundum síðastliðinn mánudag til þess að ræða slök launakjör og að yfirstandandi kjaraviðræðum hefur ekki komið fram nokkur vilji til að fara í nauðsynlegar leiðréttingar á kjörum stéttarinnar. Eftir fundina sendu kennarafélög í 30framhaldsskólum frá sér ályktanir þar sem fram kom fullur stuðningur við samninganefnd FF í deilunni og þungar áhyggjur af ástandinu. Framhaldsskólarnir eru alls 33. Sjá má ályktanirnar hér á heimasíðu KÍ. Kennarasambandið fékk ennfremur sendar myndir af mörgum fundanna. Þær myndir má sjá á síðum Kennarasambandsins og Félags framhaldsskólakennara á Facebook.

Hlutfallsbreytingar á vísitölu neysluverðs, vísitölu launa, dagvinnulaunum KÍ/framhaldsskóla og kaupmætti 2001-2013

Myndin sýnir hversu mjög launaþróun dagvinnulauna í framhaldsskólum  er frábrugðin launaþróun á vinnumarkaði á Íslandi eins og línan um vístölu launa borin saman við línuna um dagvinnulaun KÍ/framhaldsskóla sýnir. Kaupmáttarlínurnar tvær segja svo sína sögu. Athygli vekur hér sem fyrr sú staðreynd að jafnt á góðæristímum og í kreppu versna kjör okkar meira en annarra.
Tilkynningar

 
Aðalheiður Steingrímsdóttir fráfarandi formaður FF hefur boðið sig fram til varaformanns KÍ ásamt Björgu Bjarnadóttur sem er sitjandi varaformaður KÍ. Skriflegar kosningar hófust 5. febrúar og standa til föstudagsins 14. febrúar. Félagar í fæðingarorlofi, launalausu leyfi og með beina félagsaðild fá gögnin send heim.  

Nánari kynningu á Aðalheiði má nálagast hér og kynningu á Björgu má finna hér.

 

Framboðsfrestur framlengdur

Uppstillingarnefnd Félags framhaldsskólakennara hefur framlengt frest sem félagsmenn hafa til að bjóða sig fram í embætti á vegum félagsins. Hægt er að skila framboðum til 17. febrúar. Lista yfir trúnaðarstörfin sem hægt er að bjóða sig fram í má sjá hér
 

Úrslit um næstu helgi

Kosningum til formanns og stjórnar FF lauk föstudaginn 31. janúar síðastliðinn. Gert er ráð fyrir að kjörstjórn félagsins komi saman um helgina og telji atkvæði. Úrslit kosninganna verða tilkynnt um leið og þau liggja fyrir. 
Þrír voru í framboði til formanns; Guðríður Arnardóttir, Gylfi Þorkelsson og Hrafnkell Tumi Kolbeinsson. 
 

Kjarasamninga strax

Í nýjum vikupósti Félags framhaldsskólakennara fjallar Elna Katrín Jónsdóttir, framhaldsskólakennari við Kvennaskólann í Reykjavík, um kjarasamningsviðræður framhaldsskólakennara sem núna standa yfir og bendir m.a. á skyndifundi kennara í framhaldsskólum um allt land sem haldnir voru mánudaginn 3. febrúar: "Í samþykktum sem sendar voru frá nær öllum framhaldsskólum mátti lesa sömu skilaboðin sem í hnotskurn eru: Okkur er nóg boðið.“

FF hvetur félaga í framhaldsskólunum að fylgjast með fasbókarsíðu félagsins, t.d. hér.

Launamunur milli KÍ/framhaldsskóla og BHM 2004-2013 á verðlagi ársins 2013


Ekki er úr vegi fyrir félagsfólk KÍ í framhaldsskólum að velta því fyrir sér hvert er uppsafnað tap af þeim launamun sem er á milli KÍ og BHM á árabilinu milli 2004 og 2013. Uppsafnað tap á hvert stöðugildi í framhaldsskóla er um fimm milljónir króna.

Allan þennan tíma stóð skýrt skrifað í kjarasamninga KÍ og fjármálaráðherra að laun í framhaldsskólum skyldu vera sambærileg og hjá samanburðarhópum. Hvers vegna víkur þá launaþróun félagsfólks KÍ í framhaldsskólum svo gróflega frá launaþróun samanburðarhópa án þess fjármálaráðherra, fagráðherra skólastigsins eða aðrir ráðamenn fáist til þess að gera neitt í málinu? Á þessu tímabili voru gerðir fjórir kjarasamningar milli aðila og í samningaviðræðum um hvern einasta þeirra var rík áhersla lögð á það af hálfu KÍ að leiðrétta launin í framhaldsskólum í samræmi við markmið um sambærileika kjara.  Vandinn er óleystur enn og fátt um svör í samningaviðræðum við ríkið – eða semsagt business as usual!

KENNARASAMBAND ÍSLANDS

Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Sími 595 1111
Netfang ki@ki.is

 
Höfundaréttur © 2014 Kennarasamband Íslands, Allur réttur áskilinn.
Þú ert skráð/ur á póstlista Kennarasambands Íslands