Copy
2. tbl. 2014.
Skoða fréttabréf á vef
Fréttir
Verkfallsmiðstöðin opnuð með stæl
Mikill fjöldi kennara úr skólunum á höfuðborgarsvæðinu kom saman í  verkfallsmiðstöðinni í Framheimilinu fyrir hádegið í dag. Kennarafélag MR bauð upp á glæsilegar veitingar. Kennarar eru hvattir til að koma í miðstöðina og fylgjast með gangi mála. 
Share
Tweet
Forward to Friend

Kæru félagar

Kjarasamningagerð FF og FS við samninganefnd ríkisins nú er um margt sérstök. Til höfuðeinkenna hennar má þó telja að viðfangsefnin eru svo stór og vandleyst sem raun ber vitni af sömu ástæðu nefnilega þeirri að stjórnvöld hafa í mörg ár stungið hausnum í sandinn og hvorki þóst sjá né heyra hættumerkin sem setja nú mark sitt á allt starf í framhaldsskólum. Markmið kjarasamninga um að tryggja jafnstöðu kennara, skólastjórnenda og náms- og starfsráðgjafa við sambærilega sérfræðinga í röðum ríkisstarfsmanna hafa ekki átt sér innistæðu hjá stjórnvöldum á hverjum tíma. Afleiðingar þeirrar vanrækslu og skeytingarleysis eru nú viðfangsefni samningsaðila enda launagjáin orðin 17,5 prósenta munur á dagvinnulaunum KÍ/framhaldsskóla og meðaltals BHM.  En vandinn hefur fleiri birtingarmyndir.
Dreifstýring og upptaka stofnanasamninga hefur reynst nær merkingarlaus vegna þess að framlög til framhaldsskólanna hafa um árabil aðeins verið miðuð við að standa undir hluta raunlauna starfsfólks. Af þessu leiðir að mörg ágæt áform, t.d. um að efna til nauðsynlegra verkefna og efla mikilvæga starfsemi á borð við umsjón með nemendum, fagstjórn og skólaþróunarvinnu, hafa farið fyrir lítið. Stoðþjónusta – en henni tilheyra t.a.m. störf náms- og starfsráðgjafa – hefur beinlínis minnkað á síðustu árum og launaþróun, t.d. á grundvelli starfsreynslu, menntunar og starfsþróunar, hefur rýrnað mjög.
Ekki verður heldur undan því vikist að minnast á framhaldsskólalögin sem flækst hafa fyrir veðri og vindum frá 2008 en eiga – viti menn – að taka gildi að fullu í upphafi skólaárs 2015 með tilheyrandi áhrifum á störf okkar félagsfólks og starfsemi framhaldsskóla.
Í samningaviðræðum hefur þróast sú hugmynd að semja mögulega til tveggja eða tveggja og hálfs árs. Af því leiðir að augljóslega þarf þar, auk samninga um launahækkanir, að semja um breytingar á kjörum vegna breyttra laga. Minnt skal á að framhaldsskólalögin skilja spurninguna um lengd námstíma til stúdentsprófs eftir opna en í einstökum skólum sem hafa fengið heimild til að bjóða þriggja ára nám til stúdentsprófs hafa verið gerð sérstök samkomulög milli viðkomandi skóla og  stéttarfélagsins með vitund og vilja ráðuneyta fjármála og menntamála.
Þegar þessi pistill er skrifaður sitja samningsaðilar á 34. fundi sínum frá byrjun desember sl. Staðan er óljós og ekki hjálpa undarlegar yfirlýsingar menntamálaráðherra fyrr í dag. Mikilvægt er þó að þið vitið að samningsaðilar ræða nú efnislegar hugmyndir um kennarasamning sem bæði taka til launabreytinga og annarra viðfangsefna í samningagerðinni að þessu sinni.

Elna Katrín Jónsdóttir, sérfræðingur FF í samninganefnd FF og FS

Frá verðandi formanni


Guðríður Arnardóttir, verðandi formaður FF, skrifar í dag Vikupóst FFÍ lokaorðunum segir hún:

Það má ræða kerfisbreytingar í framhaldsskólanum svo fremi sem það sé ljóst að slíkar breytingar skili sér í betra og skilvirkara skólakerfi.  Umræða um styttingu námstíma til stúdentsprófs hefur verið óþroskuð og vantar talsvert upp á gögn svo samanburður við nágrannalönd okkar verið raunhæfur þegar rætt er um lengd náms og innihald. Það hlýtur að vera eðlileg krafa um fagleg vinnubrögð að kalla forystu kennara að borðinu þegar unnið er að kerfisbreytingum af þessari stærðargráðu og þá verður líka allt að vera undir. Ræðum skólaárið í heild sinni, hugmyndir um sumarskóla, þriggja anna kerfi, mögulegt framhaldsskólapróf sem er annarrar gerðar en hið hefðbundna stúdentspróf, en ræðum þetta allt í samhengi, af yfirvegun og fagmennsku, tökum okkur tíma og skilum af okkur vönduðu og ígrunduðu dagsverki."

Raddir kennara


Styttingaráform Illuga í útvarpinu í morgun hleyptu illu blóði í mig. Mér finnst styttingaráformin ekki eiga heima í viðræðum um launaleiðréttingu. 

Með þessu er Illugi að segja að ekki sé hægt að hækka laun okkar nema við bætum á okkur meiri vinnu, væntanlega með lengra skólaári. Við höfum nú þegar bætt við okkur ólaunaðri aukavinnu, t.d. með stærri bekkjum.

Kennarar eru eina stéttin sem alltaf þarf að bæta við sig vinnu til þess að fá launahækkun en samt drögumst við aftur úr öðrum viðmiðunarstéttum hjá ríkinu. Þetta er ekkert annað en misrétti milli starfsmanna hjá ríkinu. Á því verður að taka sem fyrst. Ef Illugi hefur ekkert annað til málanna að leggja tel ég rétt að slíta samningaviðræðum. 


Hróbjartur Örn Guðmundsson
Share
Tweet
Forward to Friend
Tilkynningar

Verkfallsmiðstöð í Framheimilinu


Verkfallsmiðstöðin er í Framheimilinu Safamýri 26.

Skólarnir skiptast á að sjá um veitingar frá degi til dags.

Miðstöðin verður opin nokkra daga í viku, frá kl. 11–15, nánar auglýst í Verkfallspóstinum.

Opnunartímar á næstunni:

19/3 – Veitingar MS.
20/3 – Lokað. Göngutúr í umsjón Sigrúnar Lilju Guðmundsdóttur (MS) kl. 10. Gengið frá Framheimilinu.
24/3 - Veitingar MH. 

Strætisvagnaleiðir að Verkfallsmiðstöðinni
Frá Mjódd, 3 og 11
Frá Hamraborg, 1 og 2
Frá Hlemmi, 2, 3, 11, 19
Frá Ártúnshöfða, 6, 19 skiptivagn 3
Frá Reykjavíkurvegi (Hfj.), 1
Frá Álftanesi, 23, skiptivagn 1
Frá HÍ, 1, 3 og 6

Netfang Verkfallspóstsins


kynningarnefnd@ki.is


Við hvetjum fólk til að senda okkur myndir og fréttir af samstöðuviðburðum af öllu tagi.
Frá opnun verkfallsmiðstöðvar KFSu í Hliðskjálf, félagsheimili hestamanna, á Selfossi. Góðmennt var í morgunsárið og stöðugt rennerí fram að hádegi.

Verkfallspósturinn


er líka á netinu, fasbók (Facebook) og tístmiðli (Twitter).
Frá verkfallsstjórn
Verkfallsstjórn leggur ríka áherslu á að notkun náms- og kennsluvefja til kennslu og kennslutengdra starfa á verkfallstíma telst verkfallsbrot. Verkfallsstjórn hefur talið eðlilegt að gögn fram að verkfalli séu aðgengileg nemendum en komi í ljós að kennarar séu virkir á vefjunum verður brugðist við. 

Enn er minnt á 2. mgr. í 18. grein laga nr. 94/1986 þar sem segir: 
„Þegar verkfall er löglega hafið er þeim sem það beinist gegn óheimilt að stuðla að því að afstýra því með aðstoð einstakra félagsmanna þess félags sem að verkfallinu stendur.“

Verkfallsstjórn mun þá fara þess á leit við skólameistara að vefjunum verði lokað. 

Kv. verkfallsstjórn 

Stjórn kennarafélags FB og trúnaðarmenn hittust í Mosfellsbakaríi í dag og skipulögðu samstöðuviðburði fyrir starfsmenn skólans.

Félag íslenskra sérkennara sendir FF og FS baráttukveðjur í kjarabaráttuinni!

Um skatt af verkfallsbótum


Stjórn Vinnudeilusjóðs hefur farið yfir skattaskil vegna verkfallsbóta. Bersýnilega verður búið að nýta persónuafslátt fyrir mars, annars vegar að fullu fyrir þá sem eru á fyrirfram launum og svo verði a.m.k. nýttur afslátturinn til og með 16. mars hjá eftirágreiddum kannski mánuðurinn að fullu. Þetta þýðir að upplýsingar sem sendar voru trúnaðarmönnum í tölvubréfi standast ekki fyrir fyrstu tvær vikurnar í verkfalli. Skattur án persónuafsláttar verður því tekinn af verkfallsbótum fyrir marsmánuð. Bætur fyrstu tvær vikurnar verða því kr. 52.668 . Standi verkfall lengur, verður persónuafsláttur nýttur nema því verði hafnað bréflega.

Beðist er velvirðingar á villandi upplýsingum í fyrrnefndu bréfi.

F.h. stjórnar Vinnudeilusjóðs
Ingibergur Elíasson

Kynningarnefnd

Guðlaug Guðmundsdóttir
Reynir Þór Eggertsson
Sigríður A Ólafsdóttir

KENNARASAMBAND ÍSLANDS

Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Sími 595 1111
Netfang ki@ki.is

 
Höfundaréttur © 
Allur réttur áskilinn.

afskrá mig af lista    uppfæra skráningu