Copy
8. tbl. 2014.
Skoða fréttabréf á vef
Klappað var fyrir samninganefnd FF og FS í verkfallsmiðstöðinni í Framheimilinu í dag. 

Segja tilboð ríkisins nánast móðgun


Staðan í samningaviðræðum FF og FS við ríkið er í hnút og ekki hefur verið efnt til formlegs fundar í dag. Þetta kom fram í máli þeirra Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur og Stefáns Andréssonar, sem eiga sæti í samninganefnd FF, í Verkfallsmiðstöðinni í Framheimilinu klukkan tvö í dag. 

Hanna Björg sagði tilboð ríkisins sem var lagt fram í gær verra en tilboð frá 12. mars síðastliðnum. „Þannig að við sögðumst ekki reiðubúin í frekari viðræður um vinnutímamat eða nokkurn annan hlut fyrr en við fengjum skárri tíðindi af launaliðnum,“ sagði Hanna Björg  og bætti við að samninganefndin gæfi engan afslátt í viðræðunum. 

Í máli Stefáns Andréssonar mátti heyra að framlag ríkisins frá í gær hafi verið mikil vonbrigði. „Tilboðið í gær var nánast móðgun og í raun lækkun frá tilboðinu 12. mars og eftir allt sem við vorum búin að gera þá áttum við von á einhverju meiru en það var þveröfugt,“ sagði Stefán. Hann sagði mikið þurfa að koma til eigi verkfallið að leysast á næstunni. 

Á fjórða hundrað fundarmanna stóðu upp að loknum ræðum Hönnu Bjargar og Stefáns og sýndu samninganefndinni stuðning með standandi lófaklappi í eina mínútu. 

Stöndum saman, styðjum okkar fólk

Þorsteinn Þórhallsson (MH) tók að sér að leiðsegja um þrjátíu kennurum um stríðsminjar í Öskjuhlíðinni í gærmorgun í björtu og fallegu veðri. Í dag er stormur og rigning en öll él styttir upp um síðir og kennarar eru vongóðir þrátt fyrir allt um að samningar náist sem fyrst.
Samstaða kennara er sterk og ótvíræð fullyrða þeir fjölmörgu sem sækja verkfallsmiðstöðvar um allt land en þangað sækja hundruð kennara á hverjum degi. Framhaldsskólakennarar standa þétt að baki samninganefnd sinni og styðja hana til góðra verka.


Kennarar í Kvennó sáu um kaffiveitingar á mánudaginn.

Vísnahornið


Bjarni Stefán Konráðsson (MH) sendi Verkfallspóstinum þessar vísur:

Ég heyri bara brumm og humm
og bið um þína náð herra,
svo mér verði ekki um
og ó, menningarráðherra.

Ég vildi að ekki væri frí
en valdi þennan rétt.
Þó vildi ég, ég væri í
viðmiðunarstétt.

Hann staglast æ á styttingum
en stundum ætti að þegja.
Hann hefur ekki hugmynd um
hvað hann er að segja.

Úr fjölmiðlunum

Fréttir af verkfalli framhaldsskólakennara á Íslandi birtar í fréttabréfi NLS (Nordiska Lärarorganisationers Samråd). Sjá nánar hér.

„Ljóst er að fyrirhuguð stytting framhaldsskóla er ekki til þess fallin að bæta menntun í landinu. Þvert á móti myndi hún leiða til skerðingar námsefnis og þar með minni menntunar. Með því yrði gengisfelling stúdentsprófs enn meiri en hún er þegar orðin,“ segir Jón Axel Harðarson, prófessor á hugvísindasviði HÍ, í grein á Hugrás vefriti Hugvísindasviðs HÍ. Sjá greinina í heild hér.

„Það er þungt í okkur hljóðið“ er fyrirsögn í samhljóða frétt á mbl.is. Sjá hér.

Molar

Kennarar í FB þétta raðirnar

Helgi Gíslason, listamaður og kennari í FB, bauð samkennurum sínum upp á verkfallslummur á vinnustofu sinni í gærmorgun.

Raddir kennara

Ég hvet ykkur öll til að bjóða ykkur fram sem verkfallsverði á næstu dögum. Þið sendið póst á netfangið verkfall@ki.is og segið hvaða dag þið eruð til í að fara - upplagt að 2-3 taki sig saman. Ég er að fara í þrjá skóla á morgun, það tekur ekki langan tíma og verkefnið snýst aðallega um að ganga um skólana og skoða aðstæður.

Í þessu eins og öllu öðru; margar hendur vinna létt verk - við sönnuðum það í dag - og við skulum ekki vera eftirbátar annarra í að leggja okkar að mörkum í þeim verkefnum sem fylgja verkfalli stéttarinnar.

Halldóra Sigríður Sigurðardóttir (MH)

Verkfallsmiðstöð í Framheimilinu


Fimmtudag 27. mars

Kl. 13
Vísnagátur - keppni milli borða.

Kl. 14
Fréttir af samningaviðræðum

Ýmislegt fleira verður á dagskrá í vikunni – fylgist með tímasetningum á Fasbókarsíðu Verkfallsmiðstöðvar.

Veitingar í boði kennara við Flensborgarskólann
Baráttukveðjur til framhaldsskólakennara í verkfalli

 Kæru félagar

Félag leikskólakennara sendir ykkur baráttukveðjur.

Samstaða kennarastéttarinnar er mikilvæg á tímum sem þessum. Leikskólakennarar tengja vel við ykkar málstað og það er í raun ótrúlegt að til þess að kennarastéttin nái fram sanngjörnum launaleiðréttingum til samræmis við aðra sérfræðinga þurfi að koma til verkfalls.

Áfram þið!
Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara

Netfang Verkfallspóstsins

kynningarnefnd@ki.is

Við hvetjum fólk til að senda okkur myndir og fréttir af samstöðuviðburðum af öllu tagi.

Kynningarnefnd


Guðlaug Guðmundsdóttir
Reynir Þór Eggertsson
Sigríður A Ólafsdóttir

KENNARASAMBAND ÍSLANDS

Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Sími 595 1111
Netfang ki@ki.is

 
Höfundaréttur © 
Allur réttur áskilinn.

afskrá mig af lista    uppfæra skráningu