Copy
16. tbl. 2014.
Skoða fréttabréf á vef
Kæru félagar

Við undirritun kjarasamnings okkar þann 4. apríl má segja að það hafi verið sett komma við samningagerðina því áframhaldandi vinna við að þróa nýtt vinnumat er framundan sem verður borið upp til atkvæða í febrúar 2015.

Nýtt vinnumat er spennandi og jafnframt krefjandi verkefni og myndu sumir segja að það væri löngu tímabært að leggja mat á vinnutíma okkar kennara með öðrum hætti en fram til þessa.

Því er ljóst að nú þarf að hafa hraðar hendur ef drög að vinnumati eiga að liggja fyrir tímanlega fyrir atkvæðagreiðsluna í febrúar því það þarf auðvitað að gera ráð fyrir kynningarferli sem tekur sinn tíma sem og að kennarar munu eiga kost á því að meta sína áfanga áður en afstaða er tekin um nýtt vinnumat.

Þegar hefur verið skipað í verkefnisstjórn en þar sitja fyrir hönd KÍ, Reynir Þór Eggertsson úr stjórn FF og kennari í MK, Stefán Andrésson úr stjórn FS og áfangastjóri í FB sem og Elna Katrín Jónsdóttir sérfræðingur FF á kjarasviði.

Verkefnisstjórnin hefur tryggt sér húsnæði og skrifstofu í Skuggasundinu í Reykjavík og mun verða auglýst eftir starfsmanni nefndarinnar á næstu dögum.

Nú þegar hefur nefndin fundað og farið yfir hugmyndir um uppbyggingu og verkaskiptingu vinnumatshópana og má gera ráð fyrir að skipulag verð klárt fyrir sumarleyfi og vinnumatsnefndirnar taki til starfa strax að loknum sumarleyfum.

Af okkar hálfu hefur verið lögð á það mikil áhersla að vægi framhaldsskólakennara sé mikið í þeirri vinnu sem framundan er og munum við leita fanga víða hvað varðar þekkingu og reynslu sem getur nýst okkur með einum eða öðrum hætti.

Við munum þurfa að skipa kennara í nýjar vinnumatsnefndir sem búa yfir reynslu og sérgreinaþekkingu þar sem það á við og er hér með kallað eftir ábendingum frá félagsmönnum um nöfn, sérgrein, kennsluferil og annað sem gæti skipt máli.

Vinna í vinnumatshópunum gæti orðið þó nokkur á komandi haustönn og ekki útilokað að nefndirnar gætu þurft að ferðast eitthvað um landið að afla gagna og mögulega sinna kynningum eftir atvikum.

Eftir því sem vinnu við nýtt vinnumat vindur fram mun ég senda fréttir af gangi mála svo allir séu upplýstir um stöðuna eins og hún er á hverjum tíma.  Ég vil líka benda formönnum félagsdeilda á að ég er áhugasöm um að mæta á fundi hjá ykkur, ef þið hafið t.d. aðalfund á næstunni eða með haustinu og mun ég bregðast vel við verði mér boðið að mæta, hvort heldur sem er til þess að svara fyrirspurnum um starfsemi félagsins eða bara hlusta og kynnast starfi félagsdeildanna betur.  Mestu skiptir að við hittumst reglulega og tryggjum þannig góð tengsl okkar í milli.

Að lokum óska ég ykkur svo gleðilegs sumars og hlakka til spennandi vetrar sem vonandi færir okkur ný tækifæri.

Kveðja

Guðríður Arnardóttir

Formaður FF
 

Um vinnu við námsmat og nýjan kjarasamning

Skilin milli prófatíma og kennslutíma voru afnumin í nýjum kjarasamningi frá 4. apríl sl. en það hins vegar sérstaklega tekið fram í Bókun 2 í samningnum að þess skuli gætt að nægur tími gefist innan dagvinnuársstarfs kennara til þess að sinna námsmati nemenda eins og skylt er samkvæmt lögum. Meginrökin fyrir þessari breyttu skipan mála eru þau að meiri sveigjanleika hafi vantað til þess að haga mætti samspili náms og kennslu við námsmat með fjölbreytilegri hætti en fyrra skipulag var talið bjóða upp á.
Afnám skila milli prófatíma og kennslutíma eiga ekki að fela í sér fækkun prófdaga og fleiri kennsludaga án þess að fagleg rök liggi því til grundvallar.Ábyrgð kennara á námsmati hefur ekkert breyst  og mikilvægi þess þáttar í námi og kennslu ekkert minnkað. 
Framundan er vinna við nýtt vinnumat sem mun samhliða fela í sér mat á þeim tíma sem fer í námsmat í hverri grein.  Það er því afar óheppilegt ef skólastjórnendur taka ákvörðun um það á þessum tímapunkti að breyta skóladagatali næsta árs á þann veg að fækka prófadögum og fjölga kennsludögum án þess að fagleg rök liggi því til grundvallar. Minnt er á að um slíkar áætlanir á að fjalla á kennarafundi eins og aðrar ákvarðanir um tilhögun innra starfs skóla.

Stefna FF í innra starfi og félagsmálum

Stefna FF um innra starf of félagsmál
Á aðalfundi FF í mars síðastliðinn var samþykkt stefna fyrir næsta kjörtímabil í innra starfi og félagsmálum. Hana má lesa í heild hér.
Meðal þess sem leggja skal sérstaka áherslu á er:
1. Starfsemi og starfshættir

  • Að styrkja stöðu og sjálfsákvörðunarrétt FF innan KÍ og auka þekkingu félagsmanna á starfi FF og KÍ.
  • Að gera kannanir á viðhorfum félagsfólks til félags-, kjara-, skóla- og starfsumhverfismála á eigin vegum og í samstarfi við Kennarasambandið.
  • Að efla umfjöllun og umræðu um kennarastarfið og skólamál á eigin vegum og í samstarfi við Kennarasambandið.
  • Að efla umfjöllun og umræðu um kennarastarfið og skólamál í samfélaginu.
  • Að hafa með höndum fræðslu- og upplýsingamiðlun fyrir félagsfólk á eigin vegum og í samstarfi við Kennarasambandið.
  • Að gefa út kynningarefni fyrir nýja kennara um félagsmál og kjaramál á eigin vegum og í samstarfi við Kennarasambandið.

2. Erindrekstur við félagsdeildir

  • Að erindrekar heimsæki félagsdeildir a.m.k. einu sinni á ári og haldi fundi með forystufólki deilda eða almenna félagsfundi eftir tilefnum og aðstæðum.

3. Félagsdeildir og forystufólk félagsdeilda

  • Að styrkja félagsdeildir fjárhagslega og nýta fjármuni sem best.
  • Að hafa með höndum fræðslu fyrir trúnaðarmenn og forystufólk á eigin vegum og í samstarfi við Kennarasambandið, sérstök fræðsla verði skipulögð fyrir nýja trúnaðarmenn.
  • Að hvetja til aukinnar faglegrar umræðu um kennarastarfið innan félagsdeilda.

4. Starfsumhverfi framhaldsskóla

  • Að unnið sé eftir jafnréttis- og eineltisáætlunum í framhaldsskólum og að félagsfólk verði meðvitað um þær og notkun þeirra.
  • Að fjalla um siðareglur kennara og notkun þeirra í ræðu og riti.
     

Ábendingar um fulltrúa í vinnumatsnefndir

Félagið auglýsir eftir ábendingum um kennara í nýjar vinnumatsnefndir. Ábendingarnar innihaldi nöfn, sérgrein, kennsluferil og annað sem gæti skipt máli eða nýst í vinnumatsgerðinni. Ábendingum skal skilað skriflega á netfangið: gudridur@ki.is.

Framhaldsaðal-fundur

FF heldur framhaldsaðalfund þann 19. september næstkomandi í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og hefst kl. 13.00. Sömu fulltrúar og sóttu aðalfund félagsins verða boðaðir á framhaldsaðalfundinn og varamenn eftir því sem við á. 

Eitt mál verður á dagskrá en það eru breytingar á lögum FF sem gera þarf í kjölfar breytingar sem voru samþykktar á lögum KÍ á  6. þingi þess í apríl sl. Stjórn FF mun leggja fram þær tillögur.

Í 25. gr.laga FF segir að tillögur um lagabreytingar þurfa að hafa borist stjórn 6 vikum fyrir aðalfund og skulu þær kynntar aðalfundarfulltrúum eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund. Til þess að breyting nái fram að ganga verður hún að hljóta samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða.  



 

Myndir frá aðalfundi FF í mars

Fundur FF með formönnum faggreinafélaga og skipun skólamálanefndar

Samkvæmt  lögum FF er skólamálanefnd félagsins skipuð formanni sem kosinn er á aðalfundi og fjórum fulltrúum skriflega  tilnefndum af faggreinafélögum. Í nefndina er svo endanlega kosið á fundi formanna faggreinafélaga á framhaldsskólastigi. Við valið í nefndina skal leitast við að gæta jafnvægis milli faggreina og fagsviða.

Þann 4. júní   næstkomandi verður haldinn sameiginlegur fundur FF með formönnum faggreinafélaga þar sem endanlegir fulltrúar verða kosnir í nefndina og önnur hagsmunamál faggreinafélaga og FF rædd.

Félag framhaldsskólakennara er ánægt með þetta fyrirkomulag og finnst það tryggja breiða aðkomu fulltrúa hinna ýmsu greina að faglegum málefnum framhaldsskólans.



 

Frá undirritun kjarasamninga  FF og FS þann 4. apríl

Félag framhaldsskóla-kennara  óskar félagsmönnum sínum gleðilegs sumars og þakkar þeim frábært samstarf í vetur.

 
Vikupóstar  FF og fasbókarsíðan

Félagið minnir á fasbókarsíðu félagsins og Vikupóstana á heimasíðunni og hvetur félagsmenn til að láta raddir sínar heyrast. Ábenidingar um Vikupóstsritara og Vikupóstar sendist til Önnu Maríu á netfangið anna@ki.is.
Share
Tweet
Forward to Friend

Félag framhaldsskólakennara

Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Sími 595 1111
Netfang ki@ki.is



 
Höfundaréttur © 
Allur réttur áskilinn.

afskrá mig af lista    uppfæra skráningu