Copy
Birtast myndirnar ekki? Skoða í vafra
9. desember 2016

Fréttabréf Samáls

Staðreyndir álsins

Áliðnaður er ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs. Hjá þeim þremur álverum sem risið hafa hérlendis nam innlendur kostnaður um 92 milljörðum árið 2015. Aðrar atvinnugreinar tiltaka ekki sérstaklega þann kostnað sem fellur til hér á landi, en til að setja þessa tölu í eitthvað samhengi má geta þess að heildarkostnaður við rekstur Landspítalans nemur um 50 milljörðum samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2016.

Í nýlegri skoðanakönnun Gallup kemur fram að um 22% þjóðarinnar telja sig þekkja vel til áliðnaðarins en tæpur þriðjungur þjóðarinnar telur sig þekkja lítið til iðnaðarins. Þetta er áhyggjuefni. Mikilvægt er að almenningur sé vel upplýstur og geti á þeim grunni myndað sér ígrundaðar skoðanir til íslensks áliðnaðar.

Til þess að koma á samtali við almenning hefur verið hleypt af stokkunum vettvangi á heimasíðu Samáls með spurningum og svörum um áliðnaðinn. Þar má finna svör við algengum spurningum um áliðnaðinn, en jafnframt gefst fólki kostur á að bera fram spurningar sem svarað verður á sama vettvangi. Sýnishorn af þeim spurningum má finna hér að neðan, en fleiri spurningum er svarað með ítarlegum hætti á heimasíðu Samáls. 

Tilgangurinn með útgáfu fréttabréfs Samáls er að stuðla að upplýstri umræðu um áliðnað á Íslandi. Umsjón hefur Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls. 

Í hvað fer ál sem framleitt er á Íslandi?

Ál sem er framleitt á Íslandi er flutt til fjölmargra landa, aðallega í Evrópu. Þar er það notað í margs konar framleiðslu; íslenskt ál er til að mynda notað í Audi og Mercedes Benz bifreiðar, felgur, álpappír, lyfjaumbúðir og húsaklæðningar – svo fátt eitt sé nefnt. Hér á landi eru fullunnir álvírar fyrir háspennustrengi og álið sem Málmsteypan á Hellu notar er framleitt á Grundartanga, en einnig endurunnið.

Sjá nánar á vefsíðu Samáls... 

Hversu mikið er endurunnið af áli?

Það er staðreynd að ál er meðal þeirra málma sem mest er endurunnið. Það er ein ástæða þess að stundum er talað um ál sem „grænan málm.“ Yfir 75% af öllu áli sem hefur verið framleitt í heiminum er enn í notkun. Í Evrópu er endurvinnsluhlutfall drykkjardósa yfir 70% og fer hækkandi – á Íslandi er það um 94%. Fjárhagslegur hvati til endurvinnslu áls er mikill, þar sem til þess þarf einungis um 5% af orkunni sem fór í að framleiða það. 

Sjá nánar á vefsíðu Samáls... 

Hverju skila álfyrirtæki inn í íslenskt þjóðarbú?

 

Af heildarútflutningi álvera á Íslandi árið 2015 urðu um 92 milljarðar eftir í gjaldeyristekjum. Þessum fjármunum er meðal annars varið til kaupa á raforku, innlendum vörum og þjónustu og til greiðslu launa og opinberra gjalda á Íslandi. Árið 2015 greiddu álverin um 6 milljarða í skatta og opinber gjöld. 2014 greiddu álfyrirtækin um 7,2 milljarðar króna í skatta og nam skattspor þeirra samtals 11,7 milljörðum króna.

Sjá nánar á vefsíðu Samáls...

Hvernig geta álver spornað við losun gróðurhúsalofttegunda?


Í framleiðslu áls verður almennt mest losun við orkuvinnsluna. Á Íslandi er eingöngu notuð endurnýjanleg orka við álframleiðslu, sem þýðir að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna álframleiðslu hérlendis er margfalt minni en víðast hvar annars staðar í heiminum. Umhverfisvöktun með álverum á Íslandi er með umfangsmestu umhverfisrannsóknum á Íslandi og leggja öll álverin ríka áherslu á að starfsemin sé í sátt við umhverfið, með lágmörkun umhverfisáhrifa og ábyrgri nýtingu orku og hráefna.

Sjá nánar á vefsíðu Samáls... 

Er vinna í álverum fyrir konur?

Öll störf í álverum henta bæði körlum og konum. Hlutfall kvenna í álverum á Íslandi er með því hæsta sem þekkist í heiminum og þau hafa öll skýra jafnréttisstefnu. Bæði kynin eiga jafna möguleika til starfsframa og er stuðlað að launajafnrétti, enda varðar jafnrétti veginn að aukinni hagsæld. Árið 2014 fékk Rio Tinto Alcan á Íslandi Hvatningarverðlaun jafnréttismála þegar þau voru veitt í fyrsta skipti.

Sjá nánar á vefsíðu Samáls... 

 

Share
Tweet
Forward
Copyright © 2016 Samál - Samtök álframleiðenda á Íslandi, All rights reserved.


unsubscribe from this list    update subscription preferences 

Email Marketing Powered by Mailchimp