Copy
2. tbl. maí 2016
Skoða fréttabréf á vef

Af málefnum Vísindasjóðs
Sem kunnugt er boðaði stjórn FF til aukaaðalfundar þann 8. apríl sl. þar sem málefni Vísindasjóðs FF og FS voru til umræðu. Fundurinn var gagnlegur og góður og varpaði ljósi á ýmislegt sem varðar deilur sjóðsstjórnar við KÍ á undanförum árum. Fundargerð fundarins má nú nálgast á heimasíðu félagsins.

Fundurinn var uppbyggilegur og fjölluðu fundargestir m.a. um úthlutunarreglur sjóðsins og kröfur um gagnaskil. Fundargestir ályktuðu um stuðning við erindi stjórnar FF til stjórnar Vísindasjóðs frá 27. október þar sem stjórn félagsins leggur til að þjónusta sjóðsins verði aftur í KÍ húsi með eftirfarandi bókun:

„Aðalfundarfulltrúar FF taka undir erindi stjórnar Félags framhaldsskólakennara til stjórnar Vísindasjóðs dagsett 27. október 2015 þess efnis að þjónusta við sjóðinn færist til FF. Skuli tímasett áætlun liggja fyrir um flutning hans á ársfundi félagsins haustið 2016.“
Tillögur stjórnar FF er varða sjóðinn eru eftirfarandi:
  • Að umsýsla sjóðsins færist frá Bitruhálsi á skrifstofu FF.
  • Að starfsmaður FF verði jafnframt starfsmaður Vísindasjóðs.
  • Stjórnir FF og VÍS komi sér saman um eðlilega þátttöku VÍS í launum viðkomandi starfsmanns miðað við umfang starfsins.
  • Reikningar og bókhald sjóðsins verði áfram fullkomlega aðskilið öðrum rekstri Kennarasambands Íslands.
  • Allur kostnaður við flutning sjóðsins á skrifstofu FF verði greiddur af FF.
Formaður FF hefur óskað eftir því við formann stjórnar Vísindasjóðs að vilji félagsmanna verði virtur og undirbúningur hefjist hið fyrsta við að flytja sjóðinn í KÍ-hús.
0,1% sjóðurinn
Í apríl 2014 var samið í sérstakri bókun um framlag ríkisins til mannauðsmála í félaginu. Þannig var svo samið Ríkið myndi greiða 0,1% af launum félagsmanna til Kennarasambands Íslands í því markmið að styrkja þá sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félag framhaldsskólakennara (KÍ – framhaldsskóli).  
Orðrétt er bókunin:
Aðilar eru sammála um að 0,1% iðgjald til mennta- og fræðslusjóða sem um getur í samkomulagi aðila um breytingar á kjarasamningum vegna ríkisrekinna framhaldsskóla 15. febrúar 2013 verði nýtt til að stuðla að aukinni þekkingu um mannauðsmál og til að styrkja stöðu þeirra sem starfa í umboði Kennarasambands Íslands í framhaldsskólum.
Aðilar eru sammála um að iðgjaldið verði reiknað af heildarlaunum félagsmanna Kennarasambands Íslands í ríkisreknum framhaldsskólum og það lagt á sérstakan biðreikning frá og með 1. mars 2014. Framlagið skal millifært, samkvæmt samkomulagi aðila, til Kennarasambands Íslands frá og með 1. ágúst 2014.


Þannig leggur Ríkið nú félaginu til fjármuni til að styrkja stöðu framvarðarsveitar félagsins. Það mun styrkja  liðsheild félagsins og samhliða styrkja samningsstöðu FF gagnvart  viðsemjendum.

Það sem af er samningatímabilinu hefur sjóðurinn verið nýttur til ýmissa verkefna. Eins dags námskeið í samningatækni var haldið síðastliði haust fyrir fulltrúa félagsins í samstarfsnefndum, samninganefnd félagsins hefur sótt dagsnámskeið í samningatækni á vegum Endurmenntunar HÍ og formaður og ritari stjórnar sóttu nú í apríl vandað og viðamikið námskeið í samningatækni á vegum Harvard-háskóla. Þá var FF aðili að ráðstefnunni Framhaldsskóli á krossgötum sem haldin var síðastliðið haust og var mæting og ánægja með þá ráðstefnu mjög mikil. 

Auk þess setti stjórn reglur um sjóðinn í byrjun árs 2015 og ákvað að verja skyldi fjórum milljónum króna til að styrkja mannauðstengd verkefni hjá einstökum félagsdeildum. Almenn ánægja var með þá ákvörðun og brydduðu félagsdeildirnar upp á ýmsu í þeim tilgangi. Hláturjóga, núvitund, liðsheildardagur, námskeið í streitustjórnun, námskeið um hvernig á að vera góður vinnufélagi í góðum starfshóp o.s.frv.

Þessa dagana er unnið að skipulagningu námskeiðs í starfsmanna- og stjórnsýslurétti í samráði við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála hjá Háskóla Íslands. Námskeiðið er hugsað fyrir trúnaðarmenn og verður haldið í ágúst. Meira um það síðar.
 
Áframhaldandi styrkir til félagsdeilda
Stjórn félagsins ákvað á stjórnarfundi þann 4. maí sl. að verja allt að fjórum milljónum til félagsdeildanna á árinu 2016 með því að styrkja mannauðstengd verkefni félagsdeildanna sérstaklega. 

Þannig geta formenn félagsdeilda sótt um styrki vegna námskeiða, fyrirlestra eða sérstakra verkefna sem sannarlega efla og styrkja félagsmenn okkar faglega. 
Skilyrði er að styrkurinn gagnist öllum félagsmönnum á hverjum stað jafnt og auki þekkingu á tilteknu málefni eða fagsviði. 

Þau verkefni sem með réttu ættu að vera á ábyrgð vinnuveitanda /vinnustaðar verða ekki styrkt.

Hver félagsdeild getur sótt um allt að 200.000 krónur og er svigrúm til þess að sækja um viðbótarframlag vegna ferðakostnaðar fyrirlesara/námskeiðshaldara út á land. 

Formenn félagsdeilda geta sótt um styrkinn fyrir 1. september og skal fylgja umsókn nákvæm kostnaðaráætlun, lýsing á verkefninu og hvernig verkefnið muni styrkja mannauð á viðkomandi stað.

Verði styrkhæfar umsóknir fleiri og ósk um framlög hærri en heildarupphæð þess fjár sem ætlað er til verkefnisins mun hver styrkur lækka sem því nemur. Athugið að fyrri styrkveitingar skerða ekki þennan styrk.

Umsóknir skalg senda ásamt fylgigögnum ef einhver eru á Önnu Maríu Gunnarsdóttur, anna@ki.is, sem svarar einnig fyrirspurnum um verkefnið.
Greiðslur til trúnaðarmanna
Samkvæmt fjárhagsáætlun sem samþykkt var á aðalfundi félagsins árið 2014 og endurskoðað á fulltrúarfundi árið 2015 er framlagið til trúnaðarmanna kr. 3.5 milljónir árið 2016. Helmingur þeirrar upphæðar verður greidd til trúnaðarmanna í lok maí. Á fulltrúafundi í haust verður sú upphæð endurskoðuð.
Sú aðferð var notuð við útreikninga að kr. 625.000 er tiltekin lágmarksþóknun vegna grunnstarfa trúnaðarmanna skv. lögum og reglum um hlutverk þeirra á vinnustað og skiptist upphæðin jafnt milli trúnaðarmanna. Kr. 1,125 milljón er skipt milli deilda eftir fjölda félagsmanna FF í hverri deild. Aðeins er gert ráð fyrir umbun til aðaltrúnaðarmanna og koma varatrúnaðarmenn til greina ef þeir leysa aðaltrúnaðarmann af í trúnaðarstarfi. Formaður og gjaldkeri félagsdeildar bera ábyrgð á að greiða umbun til trúnaðarmanna.
Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara
Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara hefur sent frá sér fjárhagsuppgjör fyrir árið 2015. Faggreinafélög hafa nú skipulagt fjölda sumarnámskeiða í samráði við SEF. Nálgast má umsjón um þau námskeið sem Endurmenntun Háskóla Íslands hefur umsjón með hér. 
Varðandi undanþágur frá skatti

Félagsmenn sem sækja um styrki úr Vísindasjóði FF og FS sækja samhliða um skattaívilnun og skila þannig inn kvittunum á móti kostnaði vegna ráðstefnugjalda, gisti- og ferðakostnaðar. Fram hefur komið hjá skattayfirvöldum að þau taka rafrænar kvittanir gildar.
Félagsmaður ber ábyrgð gagnvart skattyfirvöldum og séu ekki til afrit af kvittunum og/eða ekki um rafræn gögn að ræða þarf viðkomandi styrkþegi að halda vandlega utan um öll frumgögn sjálfur.

Aukið álag meðal framhaldsskólakennara

Mikilvægasta stoðin í starfi FF eru félagsdeildirnar úti í skólunum. Hlutverk þeirra er að vera málsvari félagsmanna FF á vinnustaðnum, vinna að kjara-, réttinda- og faglegum málefnum þeirra í samstarfi við FF og KÍ og kjósa fulltrúa á fulltrúafund og aðalfund FF og á þing KÍ.
Samkvæmt samantekt úr skýrslum félagsdeilda haustið 2015 eru helstu verkefni þeirra í vetur vinna vegna innleiðingar vinnumats og eftirlit með innleiðingu og framkvæmd nýrrar aðalnámskrár.
Formenn félagsdeilda nefna flestir aukið álag og streitu, bæði á félagsdeildir og kennara, í kjölfar innleiðingarinnar. Þá virðist sem að í mörgum skólum hafi verið farið í aðrar breytingar samhliða, t.d. nýjar stundatöflur, aðra breytta lengd á kennslustundum, endurskoðun á skólanámskrá og fleira sem aukið hefur vinnuálag á kennara.
Kynjabókhald KÍ
Árið 2015 ákvað jafnréttisnefnd KÍ að hefja gerð kynjabókhalds KÍ. Á síðu 9 má sjá tölur fyrir FF. Þar kemur í ljós að nokkrar breytingar hafa orðið á kynjahlutföllum hjá formönnum félagsdeilda þar sem árið 2016 eru 19 karlar og 12 konur. Árið 2015 voru 12 karlar og 20 konur formenn félagsdeila. 
 
Nám fyrir kennara í byggingagreinum í HR næsta vetur

Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara hefur ákveðið að bjóða kennurum í byggingagreinum, rafiðngreinum og véliðnfræði aftur upp á námskeið í iðnfræði við Háskólann i Reykjavík skólaárið 2015-2016.
Framhaldsskólakennurum í þessu greinum býðst að sækja allt að hálfu námi (9 einingar) í iðnfræði sér að kostnaðarlausu.
Auk þess verður ferðakostnaður greiddur fyrir kennara sem búa í meira en 50 kílómetra fjarlægð við höfuðborgarsvæðið. Ferðakostnaður verður greiddur eftir reglum SEF. Kennt er í fjarnámi og eru staðlotur tvær á hvorri önn.
Þeir kennarar sem eru starfandi framhaldsskólakennarar og taka laun eftir kjarasamningi KÍ við ríki og einkaskóla geta nýtt sér námstilboðið.

Kynningarfundur verðu haldin í HR mánudaginn 23. maí kl 15.00.


Þeir sem hafa áhuga á að nýta sér þetta tækifæri hafi samband við Önnu Maríu Gunnarsdóttur, anna@ki.is, eða Þór Pálsson, thp@tskoli.is.
Share
Tweet
Forward

Félag framhaldsskólakennara

Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Sími 595 1111
Netfang ki@ki.is

Höfundaréttur © Félag framhaldsskólakennara
Allur réttur áskilinn. 2016

afskrá mig af lista    uppfæra skráningu