Copy
Fréttir og upplýsingar frá Álftanesskóla.
23. árgangur 6. tbl - maí 2016

Kæru foreldrar

Ágætu foreldrar/forráðamenn nemenda í Álftanesskóla.

 
Skólaárið er nú komið langt á leið og aðeins um 7 vikur í sumarleyfi nemenda. Framundan er hefðbundið skólastarf ásamt hinum árlegum vorferðum árganga sem verða auglýstar nánar þegar nær dregur. Eins og flestir hafa tekið eftir er margæsin komin á Nesið okkar og verður Margæsadagurinn haldinn þann 10. maí næstkomandi. Síðasti skipulagsdagur þessa skólaárs er þriðjudaginn 17. maí og eru nemendur í fríi frá skólasókn þann dag.
 

1000 bóka-partý í 4. bekk

Í byrjun mars var 1000 bóka-partý í 4. bekk en undanfarnar vikur höfðu nemendur keppst við að lesa yfir 1000 bækur í lestrarátaki Ævars vísindamanns. 

Hátíðin fólst meðal annars í gæðastund í Elítunni sem þau völdu sér sjálf sem verðlaun fyrir vel unnin verk. Að henni lokinni kom Ævar vísindamaður í eigin persónu sem leynigestur í heimsókn ásamt fréttamanni og myndatökumanni Kastljóss. Hann ræddi við krakkana um dugnað þeirra í lestri, svaraði hinum ýmsu spurningum og las svo upp úr nýju bókinni sinni.

Krakkarnir voru að vonum yfir sig spennt og ánægð með heimsóknina og að henni lokinni var pizzuveisla í tilefni dagsins. 

Bókaverðlaun á yngsta stigi

Nemendur á yngsta og mið stigi voru ótrúlega dugleg að lesa og skila inn lestrarmiðum í lestrarátaki Ævars vísindamanns. Áður en Ævar fékk miðana afhenda voru dregin úr kassanum nöfn þriggja nemenda sem fengu bókaverðlaun frá Álftanesskóla. Verðlaunin fengu þau Magnús Freyr úr 2. R, Vera Vigdís úr 1. G og Emilía úr 1. B.


Álftanesskóli á Facebook


Nú hefur verið stofnuð fréttasíða á Facebook fyrir Álftanesskóla og stefnum við á að birta þar helstu fréttir daglegs skólastarfs.
 
Helstu fréttir og ítarlegri upplýsingar um skólann og skólastarfið munu áfram birtast á heimasíðu skólans. Þar má einnig finna hlekk á Facebook síðu skólans.


Nemendur í 1. bekk fengu hlífðarhjálma að gjöf

Allir nemendur í 1. bekk fengu á dögunum hlífðarhjálma að gjöf frá Eimskipafélag Íslands og Kiwanishreyfingunni. Með hjálmunum fylgdu höfuðklútar og endurskinsborðar. Nemendur voru mjög ánægðir með gjöfina og vonumst við til að börn jafnt sem foreldrar verði duglegir að minna hvert annað á að nota hjálm þegar farið er út að hjóla.


Boðsundskeppni grunnskólanna

 
Nemendur í 8.-10. bekk tóku þátt í fyrsta sinn í boðsundskeppni grunnskólanna á þessu skólaári. Keppnin er haldin af Sundsambandinu og keppt var í 8 x 25m boðsundi. Alls tóku 512 nemendur þátt frá 34 skólum og lentu okkar nemendur þau Ari Bergur, Hilmir Ingi, Hugrún Ósk, Jökull Ýmir, Katarína, Salka, Sædís og Valdimar í 12. sæti.

6. bekkur í Ljósafossvirkjun

Nemendur í 6. bekk fóru í heimsókn í Ljósafossvirkjun í apríl og fengu þar nánari kynningu á ýmsum hlutum sem þau eru að læra um í bókinni Auðvitað - á ferð og flugi
í náttúrufræði.

Nýtt merki Elítunnar


Á dögunum var keppni um nýtt merki (logo) fyrir Elítuna, félagsmiðstöð Álftanesskóla. Margir tóku þátt og erfitt var að velja úr öllum þeim flottu hugmyndum sem bárust. Á endanum voru tvö merki valin. Þau eiga Ari Bergur Gunnarsson fyrir leturgerð og Davíð Þór Ásgeirsson fyrir það myndræna. Bergþóra Huld Birgisdóttir hjá auglýsingastofunni Hvíta húsið fór í lið með okkur og útkoman er þetta flotta merki.
Við ákváðum að leika okkur aðeins með litina og er það svarta aðal merkið, bláa fyrir 8.-10. bekk, rauða fyrir 7. bekk og að lokum það gula fyrir 5.-6. bekk.

 



Söngkeppni Samfés

 
Agla Bríet Einarsdóttir og Tómas Torrini Davíðsson lentu í 3. sæti fyrir hönd Elítunnar í söngkeppni Samfés. Agla Bríet söng lagið „Addicted to you“ eftir Avicii og Tómas lék undir á gítar.

Frábær frammistaða og við óskum þeim hjartanlega til hamingju.


Litla upplestrarkeppnin í 4. bekk


Litla upplestrarkeppnin var haldin í lok apríl en undanfarnar vikur hafa nemendur í 4. bekk verið að æfa sig og tekið miklum framförum í lestri og upplestri.

Hægt er að skoða fleiri myndir frá Litlu upplestrarkeppninni á heimasíðu skólans.


Unglistaleikarnir

 
Unglistaleikarnir voru haldnir dagana 28. og 29. apríl og var þema leikanna í ár Vorvindar glaðir. Nemendur unnu fjölbreytt verkefni á vinnustöðvum um allan skólann, t.d. voru veggir og stigar skólans skreyttir með tölum og stærðfræðitáknum, smíðaðir voru útibekkir úr vörubrettum og málaðir ýmiss konar útileikir víðsvegar um skólalóðina. Nemendur á elsta stigi voru dugleg við baksturinn og opnuðu kaffihús með öllu tilheyrandi í sal skólans.

Hægt er að skoða fleiri myndir frá Unglistaleikunum á heimasíðu skólans.


Á döfinni

Þriðjudaginn 10. maí Margæsadagurinn
Fimmtudaginn 12. maí Aðalfundur foreldrafélagsins
Þriðjudaginn 17. maí Skipulagsdagur kennara
Dagana 30. maí - 3. júní Vorferðir árganga (nánar síðar)
Miðvikudaginn 8. júní Vorleikar
Miðvikudaginn 8. júní Skólaslit hjá 10. bekk kl. 17
Fimmtudaginn 9. júní Skólaslit hjá 1.- 9. bekk
 
©2016 Álftanesskóli
Álftanesskóli, v/ Breiðumýri, 225 Garðabær

www.alftanesskoli.is
alftanesskoli@alftanesskoli.is






This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Álftanesskóli · Breiðumýri · Gardabaer 225 · Iceland

Email Marketing Powered by MailChimp