Copy
4. tbl. 2015.
Skoða fréttabréf á vef

Vanefndum í kjarasamningi vísað til félagsdóms


Félag framhaldsskólakennara hefur ákveðið að vísa vanefndum mennta- og menningarráðuneytis á 7. grein kjarasamnings frá 4. apríl 2014 til félagsdóms.
Í 7. grein kjarasamnings er fjallað um viðmið um vinnumat kennara. Segir í síðasta undirkafla þeirrar greinar: Verði meginbreytingar gerðar á útfærslu skóla á leiðum til námsloka svo sem tímalengd náms eða öðru ytra skipulagi sem hefur áhrif á kennslufyrirkomulag innan skólans skal endurmeta vinnumat áfanga sem tilheyra slíkri breytingu. Við slíkt endurmat skal meðal annars taka tillit til þess hvort aukið álag fylgi nýju fyrirkomulagi svo sem vegna hraðari yfirferðar námsefnis en í venjulegu skólahaldi eða annars sem áhrif kann að hafa á vinnu kennara. Slíkt vinnumat verður unnið á sama hátt og almennt vinnumat og ræðst af þeim breytingum sem gera á.

Á liðnu hausti var flestum framhaldsskólum landsins gert að stytta námstíma til stúdentsprófs úr 4 árum í 3 ár. Þeirri meginbreytingu fylgdi eðlilega aukið álag á kennara vegna námskrárbreytinga, breytinga á áföngum, hraðari yfirferðar námsefnis í einhverjum tilfellum og jafnvel vegna námskrárþróunar í aðdraganda þessara breytinga. Eðlilega og samkvæmt kjarasamningi átti að taka tillit til þess álags sem breytingunum fylgir.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur vísað öllum efndum á þessum hluta 7. greinarinnar frá með þeim rökum að kennurum hafi þegar verið bætt þetta álag með umfram launahækkunum borið saman við aðrar stéttir. Ráðuneytið hafnar auk þess þeim möguleika að álag á starf kennarans geti aukist með þéttingu náms úr 4 árum í 3 og fullyrðir að þegar hafi verið greitt fyrir kerfisbreytinguna. Þannig hefur ráðuneytið beinlínis beint þeim tilmælum til skólameistara að efna ekki samningsbundið ákvæði 7. greinarinnar.

Kennarasamband Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við þá túlkun ráðuneytisins að þegar hafi verið „greitt“ fyrir styttingu námstíma til stúdentsprófs með launahækkunum kennara umfram aðra á sama tíma. Það var öllum ljóst sem við samningaborðið sátu um hvað var samið. Samið var um aðlögun kjarasamningsins að nýjum framhaldsskólalögum og bætta umgjörð um kennarastarfið. Samið var um fimm daga lengingu skólaársins, rýmri starfstíma skóla og afnám skila milli prófa og kennslutíma. 

Kennarasamband Íslands hefur eðlilega gert þá kröfu að staðið verði við umrætt samningsákvæði af hálfu okkar viðsemjenda en ekki borið árangur sem erfiði á tveimur fundum með fulltrúum samninganefndar ríkisins.  

Starf verkefnisstjórnar um vinnumat
frá vorinu 2014 til nóvember 2015

Verkefnisstjórn um vinnumat hóf störf í maí 2014 og hefur nú  haldið rúmlega 90 fundi. Fulltrúar í verkefnisstjórn eru: Ársæll Guðmundsson (mmrn.), Elna Katrín Jónsdóttir (KÍ), Guðmundur H. Guðmundsson (fjmrn.), Ólafur Sigurðsson (mmrn.), Reynir Þór Eggertsson (KÍ) og Stefán Andrésson (KÍ). Sérstakur starfsmaður verkefnisstjórnar var ráðinn til eins árs frá 1. ágúst 2014. Guðmundur Freyr Sveinsson gegndi því starfi til júlíloka 2015.
 
Verkefnisstjórn vann vorið 2015 að því að aðstoða vinnumatsnefndir við að hefja nýjan kafla í sínu starfi meðal annars með framsetningu staðlaðra eyðublaða til notkunar við erindi til nefndanna um úrskurð varðandi ágreiningsmál um vinnumat námsáfanga, með fundarhöldum og samráði.

Frá því í sumar hefur verkefnistjórn haft yfirumsjón með innleiðingu vinnumats með meiri áherslu á að hefja söfnun gagna og að skipuleggja úrvinnslu efnis um vinnumatið til þess að nota við mat á afrakstri og árangri þessarar róttæku breytingar aðferða við að meta vinnu við kennslu og kennslutengd störf í framhaldsskólum.

Verkefnisstjórn hefur ennfremur samið við Advania um að sinna nauðsynlegri vinnu til þess að koma megi vinnumati í framhaldsskólum fyrir í Innu. Sérstakur vinnuhópur vinnur nú með fyrirtækinu að því verkefni og í honum sitja meðal annarra tveir fulltrúar í verkefnisstjórn.

Nokkuð mörg erindi með ágreiningi um vinnumat einstakra áfanga hafa borist verkefnisstjórninni í haust og einnig hefur hún unnið að ýmsum álitaefnum sem rekja má til vinnu verkefnisstjórnar sjálfrar, s.s. vegna framsetningar sýnidæma og atriða sem sýnidæmi ná ekki til en einnig vegna álitaefna sem snerta skilgreiningar í reiknilíkani um rekstur framhaldsskóla.

Málefni Vísindasjóðs FF

Málefni Vísindasjóðs FF og FS hafa verið í brennidepli stjórnar á liðnu hausti. Nú er svo komið að stjórn Vísindasjóðs neitar stjórn FF um ýmis gögn eins og fundargerðir, staðfesta ársreikninga og veitir ekki umbeðnar upplýsingar eins og um  sundurliðuð laun stjórnar og starfsmanns sjóðsins.

Félagsmönnum er væntanlega kunnugt um málarekstur sjóðsins gegn Kennarasambandi Íslands sem hefur staðið yfir frá árinu 2011. Sú saga er löng og verður ekki rakin í einu Rauðu epli. En nú hefur stjórn Vísindasjóðs vísað þessu ágreiningsmáli til embættis sérstaks saksóknara sem nú skoðar málið.

Mat stjórnar FF er að samkvæmt lögum félagsins sé það hafið yfir allan vafa að stjórn FF beri ábyrgð á allri starfsemi félagsins og því sé ekki hægt að breyta  verklags- og úthlutunarreglum Vísindasjóðs nema að fenginni staðfestingu stjórnar FF samanber lög félagsins. Að auki er óásættanlegt í ljósi þeirrar ábyrgðar sem stjórn FF ber á allri starfsemi félagsins að fá ekki fullan aðgang að öllum gögnum sjóðsins.

Því var samþykkt samhljóða á stjórnarfundi FF þann 18. nóvember sl. að hefja undirbúning þess að boða til aukaaðalfundar sem fyrst á nýju ári eins og segir í bókun stjórnar:
  • Í ljósi þess að nú hefur sjóðsstjórn Vísindasjóðs kært Kennarasamband Íslands til lögreglu, telur stjórn FF rétt að hefja undirbúning að boðun aukaaðalfundar um málefni sjóðsins. Stjórn FF telur eðlilegt að félagsfólk fái allar upplýsingar um málið, frá öllum hlutaðeigandi, á þessum æðsta vettvangi félagsins.

Þó er afstaða stjórnar FF að engar ákvarðanir verði hægt að taka varðandi framtíð sjóðsins fyrr en að niðurstaða lögreglu liggur fyrir sem er líklegt að verði fyrir áramót.  Rétt er að geta þess að engar vísbendingar eru um að einhver aðili að málinu hafi dregið að sér fé eða brotið gegn hegningarlögum með einum eða öðrum hætti og ekkert nýtt virðist vera komið fram í málinu.
Breytingar í stjórn
Mannabreytingar hafa orðið á  stjórn FF frá því í sumar. Sigríður Ragna Birgisdóttir úr Flensborg var varamaður í stjórn FF en nú komin yfir í FS (félag stjórnenda) og sagði því af sér. Kjartan Þór Ragnarsson hefur einnig beðist lausnar úr stjórn FF þar sem hann hyggur á frekara nám og hættir sökum tímaskorts. Helga Helena Sturlaugsdóttir úr Tækniskólanum tók sæti Kjartans sem aðalmaður.

Kolbrún Elva Sigurðardóttir (MR) sagði sig úr samninganefnd félagsins síðastliðið vor. Í hennar stað tók sæti Ingvar Arnarsson (FG). Þeim sem láta nú af störfum eru þökkuð góð störf í þágu félagsins og hinum nýju þakkað að taka að sér trúnaðarstöf hjá FF.

Greiðsla styrkja til félagsdeilda

Verið er að greiða fjárframlög til félagsdeilda fyrir árið 2015. Sem fyrr greiðir FF þóknanir til formanna félagsdeilda, trúnaðarmanna og styrks til félagsstarfs í deildum. Þá mun verða kallað eftir yfirliti vegna fundasetu í samstarfsnefndum í. Formenn félagsdeilda eru beðnir að bregðast skjótt við svo hægt verði að ganga frá greiðslum fyrir jól.

Styrkir til mannauðstengdra verkefna

Stjórn FF hefur ákveðið að framlengja umsóknarfrest vegna mannauðstengdra verkefna til 6. desember næstkomandi. Formenn hafa fengið allar upplýsingar um styrkina. Umsóknir skulu sendar til Önnu Maríu Gunnarsdóttur á netfangið: anna@ki.is.

Sumarnámskeið faggreinafélaga 

Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara minnir á að faggreinafélög geta sótt um styrki í samstarfi við bókhaldsskyldar fræðslustofnanir í til 31. janúar næstkomandi. Nánari upplýsingar má nálgast hér.
Ólafur Guðmundsson, Guðríður Arnardóttir, Guðlaug Guðmundsdóttir og Björn Ólafsson. 

Formaður á ferð og flugi


Guðríður Arnardóttir, formaður FF, hefur undanfarnar vikur heimsótt fjölmarga framhaldsskóla.Þannig hefur Guðríður heimsótt félagsdeildir í MS, MH, Flensborg, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, MÍ, VMA, MA, Framhaldsskólann á Laugum, Framhaldsskólann á Húsavík, ME, Verkmenntaskóla Austurlands og Fjölmennt.

Í skólunum hefur verið fjallað um þá þætti kjarasamningsins sem ekki snerta vinnumatið sjálft, t.d.  lengd skólaárs, umsjónarkennslu, fagstjórn og fleiri atriði tengd B-hluta kjarasamningsins. Eins hafa þau atriði sem ekki varið samið um komið til umræðu eins og aukin binding vinnu í skólunum. Eitthvað hefur borið á að skólameistarar hafi skilið síðustu kjarasamninga á þann hátt. 

Þá var víða rætt um SALEK rammasamkomulagið og forsendur þess að KÍ ákvað að standa utan við það samkomulag.  

Heimsóknir formanns er mikilvægur þáttur í að styrkja félagið innan frá og efla starf félagsdeildanna og eru þær félagsdeildir sem ekki hafa fengið heimsókn hvattar til að hafa samband við formann og fá hann í heimsókn til að eiga samtal um kjara og réttindamál sín.
Hátt í þrjátíu manns komu til fundar formanns í MH. 
Jólahristingur hjá FNF
Félag kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt efnir til samkomu undir yfirskriftinni Jólahristingur á morgun, miðvikudaginn 2. desember. Komið verður saman í Setri skapandi greina við Hlemm.
Bókin Toppstöðin verður kynnt og boðið verður upp á léttar veitingar og notalega jólastemningu. Nánari upplýsingar eru hér og á vefsíðu FNF
 
Share
Tweet
Forward to Friend

Félag framhaldsskólakennara

Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Sími 595 1111
Netfang ki@ki.is

Höfundaréttur © 2015 Félag framhaldsskólakennara
Allur réttur áskilinn.

afskrá mig af lista    uppfæra skráningu