Copy
1. tbl. febrúar 2016
Skoða fréttabréf á vef

Aukaaðalfundur 8. apríl 2016

Stjórn Félags framhaldsskólakennara hefur ákveðið að boða til aukaaðalfundar föstudaginn 8. apríl næstkomandi. Aðalefni fundarins verða málefni Vísindasjóðs FF og FS en það er mat stjórnar FF að nú þurfi að leggja málefni sjóðsins fyrir æðstu samkomu félagsins, aðalfund og upplýsa um stöðuna og taka ákvörðun um framtíð sjóðsins.

Sem kunnugt er hefur verið í gangi málarekstur milli stjórnar Vísindasjóðs og Kennarasambands Íslands. Deilan hefur snúist um ýmis atriði er varða fjárreiður, gagnaskil og umbúnað sjóðsins á fyrri árum. Tekist hefur verið á um skil frumgagna er varða skilagreinar með greiðslum félagsmanna og iðgjöld í sjóðinn. Hluti af deilunni snýst um skil á rafrænum skilagreinum og skilgreiningar á frumgögnum. Stjórn VÍS hefur rekið einkamál gagnvart stjórn KÍ frá árinu 2011 og sumarið 2015 kærði stjórn Vísindasjóðs stjórn Kennarasambands Íslands til embættis héraðssaksóknara. Málsgögn liggja nú hjá saksóknara sem mun væntanlega taka ákvörðun um framhaldið á næstunni.

Mikill tími og orka hefur farið í málið af hálfu beggja aðila og virðist lausn málsins fyrir dómstólum ekki enn vera í sjónmáli. Staðan er auðvitað sérkennileg meðal annars fyrir þær sakir að FF  og FS eru hluti af KÍ  og þar með Vísindasjóðurinn líka.
Stjórn FF hefur lagt til sættir í málinu, meðal annars að sjóðurinn verði aftur hýstur í KÍ húsi en alfarið á ábyrgð og verksviði starfsmanns félagsins (FF). Kostnaður vegna lögfræðiaðstoðar og annar kostnaður við málareksturinn af hálfu beggja aðila er orðinn verulegur og er það mat stjórnar FF að nú verði að vega og meta framhaldið með tilliti til hagsmuna félagsmanna.

Til að glöggva sig á stöðunni hefur stjórn FF falast eftir gögnum um ýmislegt er varðar rekstur sjóðsins en ekki fengið, má þar nefna fundargerðir sjóðsstjórnar frá árinu 2011. Þá hafa breytingar á úthlutunarreglum/verklagsreglum sjóðsins ekki verið bornar undir stjórn FF eins og lög félagsins gera ráð fyrir frá sama ári. Sjóðurinn hefur sem kunnugt er verið hýstur í húsnæði á Bitruhálsi frá árinu 2011 og geta félagsmenn nálgast sjóðinn í gegnum tölvupóst og símatíma tvisvar í viku, þrjár stundir í senn. Núverandi formaður sjóðsstjórnar og fyrrverandi formaður og stjórnarmaður rá síðasta kjörtímabili þjónusta sjóðinn og sjá um útgreiðslur þegar það á við en að öðru leyti er enginn ráðinn starfsmaður sjóðsins. Það er mat stjórnar FF að svo lítil samskipti á milli aðila séu ekki heppileg. Stjórn lítur svo á að með því að færa sjóðinn aftur á skrifstofu félagsins verði hægt að auka þjónustu sjóðsins við félagsmenn, til dæmis myndi aðgengi að starfsmanni sjóðsins vera á almennum skrifstofutíma og skapast svigrúm til gagnavinnslu, svo sem að taka saman tölulegar upplýsingar um nýtingu sjóðsins, með tilliti til þeirra endurmenntunartilboða sem standa félagsmönnum til boða.

Stjórn FF telur að nú þurfi stærri hópur félagsmanna að fjalla um málið og setja það í fókus á ársfundi félagsins. Með því að nýta heimildir í lögum KÍ um aukaaðalfundi vegna sérstakra mála var það niðurstaða stjórnar að stækka ársfund félagsins og  veita honum stöðu aðalfundar. Þannig er unnt að kalla saman stærri hóp og þær ákvarðanir sem fundurinn tekur eru bindandi fyrir stjórn og aðrar stofnanir félagsins.

Rétt er að ítreka að fundurinn er ekki settur á dagskrá til höfuðs einum né neinum sem að málinu koma. Bæði í stjórn Vísindasjóðs FF og stjórn FF starfar gott fólk sem gerir sitt besta fyrir félagið sitt og félagsmenn. En þegar aðilar málsins ganga ekki í takt er eðlilegt að leitað sé álits æðstu stofnunar félagsins, þ.e. aðalfundar.

Aðalfundarfulltrúar eru kjörnir til fjögurra ára svo á þennan fund eru boðaðir aðal- eða varamenn frá fundinum 2014 nema þar sem hefur þurft að kjósa nýja fulltrúa vegna skipulagbreytinga. Aukaaðalfundur félagsins á fyrst og fremst að upplýsa um stöðu mála og setja stefnu um framhaldið, þar geta fundarmenn lagt fram tillögur til umræðu og afgreiðslu er varðar málefni Vísindasjóðs FF og FS. Stjórn FF, eins og aðrar nefndir félagsins, mun að sjálfsögðu virða niðurstöðu fundarins hver svo sem hún verður.

Gögn fyrir fundinn verða sett inn hér.
Guðríður Arnardóttir, formaður FF
Aðalfundafulltrúar
Kjörtímabil aðalfundarfulltrúa  er skv. 7 grein í lögum Félags framhaldsskólakennara allt tímabilið milli reglulegra aðalfunda. Fulltrúar á aukaaðalfund félagsins í ár eru því þeir sömu og voru kjörnir fulltrúar í félagsdeildum í aðdraganda aðalfundar vorið 2014. 

Þann 29. janúar síðastliðinn var sent bréf frá stjórn og kjörstjórn FF varðandi aðalfundarfulltrúa og jafnframt listi aðal- og varafulltrúa frá árinu 2014 og því beint til þeirra að fara yfir fulltrúana og boða til kjörfunda í sínum deildum hefðu forsendur breyst frá aðalfundi árið 2014 og tilkynna þær fyrir 15. febrúar síðastliðinn.

Fjöldi fulltrúa félagsdeilda á aðalfundi FF er í samræmi við ákvæði 7. greinar laga FF og er byggt á fjölda virkra félagsmanna FF í janúar 2016. Í 7. gr. laga FF segir: „Á aðalfundi eiga sæti og með atkvæðisrétti stjórn, samninganefnd, skólamálanefnd, kjörstjórn FF, einn fulltrúi frá hverri félagsdeild með allt að 50 félagsmenn og einn fulltrúi til viðbótar fyrir hverja byrjaða 50 félagsmenn deildarinnar umfram þá tölu. Kjörtímabil þeirra er á milli reglulegra aðalfunda. Þar sem ekki er starfandi félagsdeild skulu félagsmenn FF á vinnustaðnum kjósa úr sínum hópi fulltrúa skv. nánari ákvörðun kjörstjórnar FF og stjórnar FF, sbr. 9. grein laga félagsins.“
 
Bréfið má nálgast hér.
 
Elna Katrín með stjórnarfólki, Reyni og Guðríði

Elna  Katrín lætur af störfum
 

Starfslok Elnu Katrínar Jónsdóttur fyrrverandi formanns, fyrst HÍK og seinna FF, varaformanns KÍ og nú síðast sérfræðings FF voru 1. febrúar síðastliðinn. Elna Katrín er komin á eftirlaun á grundvelli 95 ára reglunnar. 

Elna var í forystu framhaldsskólakennara í um 20 ár og því tímamót fyrir félagið þegar krafta hennar nýtur ekki við, hvort sem er í stefnumótun fyrir framhaldsskólakennara, samningum eða daglegum rekstri félagsins. Elna Katrín mun vinna að afmörkuðum verkefnum fyrir FF eitthvað áfram. Nú vinnur hún að heildarútgáfu kjarasamningsins með aðilum viðsemjanda. Stjórn og starfsfólk FF er þakklátt fyrir að geta leitað til Elnu ef svo ber undir. Með henni fer gríðarleg þekking og reynsla sem seint verður jöfnuð.

Félag framhaldsskólakennara þakkar Elnu Katrínu fyrir vel unnin störf. Í fylkingarbrjósti okkar félags hefur hún staðið af sér storma og blásið byr í seglin þegar þannig hefur viðrað. Samninganefnd félagsins færði henni þakkir sínar á síðasta vinnufundi nefndarinnar og nokkuð sérstaka kveðjugjöf. Þannig var að gamla HÍK var á sínum tíma færður forláta blómavasi úr dönsku konunglegu postulíni. Þótti við hæfi að vasinn fylgdi Elnu Katrínu og var henni færður hann að gjöf með innilegu þakklæti til minningar um góða tíma og ómetanleg verk í þágu félagsins.
Fundað með norrænum kollegum

Kennararasamband Íslands ákvað síðastliði haust að standa utan við svokallaða SALEK rammasamkomulag sem er samkomulag aðila vinnumarkaðarins um vinnubrögð tengd kjarasamningagerð. Rammi er settur á launahækkanir þeirra sem að samkomulaginu standa og taka mið af svigrúmi efnahagslífsins til launabóta á hverjum tíma. Ástæður þess að KÍ kaus að standa utan við samkomulagið voru helstar þær að með því að samþykkja aðild að samkomulaginu er núverandi launasetning kennarastéttarinnar fest í sessi. Stjórn KÍ þótti ekki verjandi að að kvitta upp á slíkt og telur launasetningu kennara ekki komna í ásættanlegt horf miðað við sambærilegar stéttir háskólamenntaðs fólks.

Hin ástæðan var að samhliða samkomulaginu á að eiga sér stað endurskoðun á lífeyriskerfi landsmanna með það markmið að samræma lífeyrisréttindi á almennum og opinberum markaði. Þær tillögur sem nú liggja fyrir um breytingar á lífeyrisréttindum okkar félagsmanna þykir stjórn KÍ  óásættanlegar eins og þær liggja fyrir og treystir sér ekki til þess að skuldbinda sig til frekari vinnu á sama grunni.

Þetta er gríðarlega stórt mál og hefur stjórn KÍ  lagt áherslu á að boða til sín samningafólk frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð til upplýsingaröflunnar. Fundirnir hafa verið mjög lærdómsríkir fyrir stjórn og meðal annars styrkt sannfæringu margra stjórnarmanna um að nú um stundir  sé hagsmunum félagsmanna betur borgið án þess að taka þátt i samkomulagi af þessu tagi.

Frekari grein verður gerð fyrir niðurstöðum þessara funda síðar.
 
Umsóknir í Þróunarsjóð námsgagna

FF minnir á að opið eru fyrir umsóknir í Þróunarsjóð námsgagna til 10. mars næstkomandi kl. 16.
Hlutverk sjóðsins er að stuðla að nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu námsgagna fyrir leik-grunn- og framhaldsskóla með það að markmiði að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda og skóla.

Forgangsatriði þróunarsjóðs námsgagna fyrir árið 2016 er nýting stafrænnar tækni til að efla lestur og lesskilning, sem og nýsköpun í list- og tæknigreinum.

Nánari upplýsingar má sjá hér.
Málstofur um rannsóknir á framhaldsskólastarfi
Á Námsbraut um kennslu í framhaldsskólum og Rannsóknarstofu um þróun skólastarfs við Menntavísindasvið HÍ standa nú yfir málstofur um rannsóknir á framhaldsskólastarfi.
Málstofurnar eru haldnar á miðvikudögum í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð í stofu K206 kl. 16:20–17:05 frá febrúar til apríl 2016. Erindin eru að jafnaði um 20 mínútur og jafnlangur tími ætlaður til umræðna. Erindin eru flutt á íslensku nema annað sé tekið fram.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Menntavísindasviðs  HÍ eða hér.
Share
Tweet
Forward to Friend

Félag framhaldsskólakennara

Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Sími 595 1111
Netfang ki@ki.is

Höfundaréttur © Félag framhaldsskólakennara
Allur réttur áskilinn. 2016

afskrá mig af lista    uppfæra skráningu