Copy
3. tbl. 2016
Skoða fréttabréfið á vef
Útgáfa á efni
Félag grunnskólakennara (FG) er að leita að hugmyndum að efni til að gefa út fyrir kennara. Við viljum gjarnan fá ábendingar frá félagsmönnum um efni sem
gæti verið gaman og gagnlegt að gefa út.
Efnið má vera erlent til að þýða eða hugmyndir að efni til að „láta“ semja. Allar ábendingar eru vel þegnar og má senda þær á gudbjorg@ki.is
Ágætu félagar!
Guðbjörg Rut Þórisdóttir, deildarstjóri stoðþjónustu og lestrarfræðingur í Holtaskóla, og Auður Björgvinsdóttir, sérkennari og verkefnastjóri í Álftanesskóla, skrifa um námskeiðið Að læra að lesa: Lestrarþjálfunarnámskeið fyrir foreldra, sem haldið fyrir foreldra í 1. bekk í Holtaskóla og Álftanesskóla. 
„Lestrarfræðingur hittir nemendur einnig að jafnaði tvisvar í viku á meðan einstaklingsáætlun gildir og vinnur með flóknari þætti lestrarvandans. Aðkoma foreldra með þessum hætti hefur í öllum tilvikum skipt sköpum fyrir nemendur en þar sem megináhersla námskeiðsins er fólgin í því að upplýsa foreldra um mikilvægi aðkomu þeirra að  lestrarnámi barna þeirra hefur það reynst mjög auðvelt að fá þá til samstarfs,“ segir meðal annars í grein Guðbjargar Rutar og Auðar. 

Að læra að lesa – samvinnuverkefni heimila og skóla


Í skólastarfi hefur nær alltaf verið gert ráð fyrir aðkomu foreldra vegna þjálfunar í lestri og aðstoðar við aðra heimavinnu nemenda. Það sem hefur hins vegar oft gleymst er að skýra betur væntingarnar sem skólinn hefur til samstarfsins og að gera foreldrum kleift að standa undir þessum væntingum. Þetta er ástæðan fyrir því að haustið 2007 var ákveðið að halda námskeið fyrir foreldra barna í 1. bekk í Holtaskóla, Reykjanesbæ undir yfirskriftinni Að læra að lesa: Lestrarþjálfunarnámskeið fyrir foreldra. Námskeiðið hefur verið haldið að hausti allar götur síðan og hefur það verið lykillinn að farsælu samstarfi skóla og foreldra. Lögð er rík áhersla á að allir foreldra barna í 1. bekk mæti á námskeiðið. Foreldrar skrá sig á samskiptadegi snemma hausts og velja aðra dagsetningu af tveimur en skólastjóri hringir í foreldra rétt fyrir námskeiðsdaginn og leggur ríka áherslu á að fulltrúi allra nemenda í 1. bekk mæti. 

Á námskeiðinu er á einfaldan hátt farið yfir forsendur læsis svo sem málskilning, hljóðkerfisvitund, umskráningu og þátt foreldra í að efla lesskilning barna sinna. Einnig er farið yfir hagnýt atriði varðandi það hvernig best sé að bera sig að við þjálfun og að lokum er farið yfir einkenni lestrarerfiðleika. Skólinn veitir jafnframt upplýsingar um skimanir, íhlutun og fyrirkomulag eftirfylgni við heimalestur. Lögð er rík áhersla á að foreldrar þjálfi börn sín daglega í 10 mínútur 5-6 daga vikunnar og gerð er grein fyrir skráningum á Mentor mæti barnið ólesið í skólann. Þrátt fyrir þessa ósveigjanlegu kröfu fara foreldrar alltaf sáttir heim af námskeiðinu og hafa heilt yfir staðið sig ákaflega vel í þjálfun barna sinna. 

Eins og flest skólafólk veit hafa framfarir í lestri og lesskilningi verið miklar hjá nemendum grunnskólanna í Reykjanesbæ og eigi að telja til eitt atriði sem hefur átt hvað ríkastan þátt í að bæta árangur í lestri er það reglubundin þjálfun í að lágmarki 10 mínútur daglega og þétt eftirfylgni við lestrarþjálfun. Eins og í öðru sannast hér hið fornkveðna að æfingin skapar meistarann. 

Með námskeiðinu hefur skapast samráðsvettvangur til frambúðar sem er ákaflega mikilvægur ef barn glímir við erfiðleika í lestri. Þar sem foreldrar þekkja dálítið til þróunar lestrar og fá reglulega endurgjöf á framvindu lestrarnáms barns síns er mjög auðvelt að fá þá til samstarfs ef barn þeirra þarf meiri þjálfun, eða annars konar þjálfun, en meðalnemandinn. Þannig vinna foreldrar heima eftir einstaklingsáætlun sem unnin er af lestrarfræðingi en áætlunin inniheldur skýrt afmörkuð viðfangsefni sem foreldrar ráða mjög vel við. Þessi viðbótarþjálfun er alltaf tímabundin og aldrei meira en 10-15 mínútur umfram reglubundna heimavinnu sem er að jafnaði lítil hjá ungum nemendum. Lestrarfræðingur hittir nemendur einnig að jafnaði tvisvar í viku á meðan einstaklingsáætlun gildir og vinnur með flóknari þætti lestrarvandans. Aðkoma foreldra með þessum hætti hefur í öllum tilvikum skipt sköpum fyrir nemendur en þar sem megináhersla námskeiðsins er fólgin í því að upplýsa foreldra um mikilvægi aðkomu þeirra að  lestrarnámi barna þeirra hefur það reynst mjög auðvelt að fá þá til samstarfs. 

Nokkrir skólar hafa farið að dæmi Holtaskóla og verið með sambærileg námskeið fyrir foreldra barna í 1. bekk. Lögð hefur verið áhersla á að skólar lagi námskeiðið að kennslufyrirkomulagi sínu og finni leið í samstarfinu sem treystir eignarhald bæði kennara og foreldra í því verkefni að gera nemendur skólans læsa.

Einn þessara skóla er Álftanesskóli en þar hefur námskeið fyrir foreldra barna í 1. bekk verið haldið í fjögur ár og er það afar svipað námskeiðinu í Holtaskóla. Í Álftanesskóla var fyrir tveimur árum ákveðið að bæta við námskeiði fyrir foreldra barna í 3. bekk þar sem áherslum frá því í 1. bekk er fylgt eftir auk þess sem foreldrar fá fræðslu um lesskilning og næstu skref í lestrarþjálfuninni. Í Álftanesskóla hefur rétt eins og í Holtaskóla verið lögð mikil áhersla á að fulltrúi frá hverju einasta barni mæti og er gengið eftir því eins og hægt er að foreldrar skrái sig. Til að koma til móts við ólíkar þarfir getur fólk valið um kvöld- eða morgunnámskeið.

Kennarar á yngsta stigi Álftanesskóla finna mikinn mun á heimalestri eftir að þessi fræðsla og skráning í Mentor var tekin upp og virðist ríkja almenn ánægja meðal kennara og foreldra með þetta fyrirkomulag. Nú þegar komin er nokkur reynsla á fræðsluna Í Álftanesskóla þótti ástæða til að skoða hvað við getum gert betur og var í þeim tilgangi ráðist í þróunarverkefni með Flataskóla sem er að innleiða foreldrafræðslu hjá sér. Það verður spennandi að nýta upplýsingar og gögn úr þeirri vinnu til að gera foreldrafræðsluna enn betri fyrir næsta haust, enda erum við sannfærð um að lykillinn að góðum árangri felist m.a. í góðu samstarfi við heimilin.

Guðbjörg Rut Þórisdóttir, deildarstjóri stoðþjónustu
og lestrarfræðingur í Holtaskóla,
og Auður Björgvinsdóttir, sérkennari
og verkefnastjóri í Álftanesskóla
Héru eru ágætar ábendingar um hvað er gott að hafa í huga til þess að ná árangri. 
FÉLAG GRUNNSKÓLAKENNARA
Kennarahúsinu, Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Sími 595-1111

Höfundaréttur © 2016 Kennarasamband Íslands. Allur réttur áskilinn
Þú ert skráður á póstlista Kennarasambands Íslands

Afskrá    Uppfæra upplýsingar