Copy
4. tbl. 2016
Skoða fréttabréfið á vef

Mæli með meistaranámi fyrir starfandi kennara 


Ég hóf meistaranám við Menntavísindasvið HÍ síðasta haust. Þetta meistaranám er tilraunanám hjá Menntavísindasviði og er sérsniðið fyrir starfandi grunnskólakennara. Ég fékk góða kynningu á náminu áður en ég ákvað að skrá mig. Umsjónarmaður námskeiðsins, Meyvant Þórólfsson, sendi bréf þar sem námið var vel kynnt ásamt góðri kynningu þegar námið hófst. 
Ég tók því ákvörðun að skrá mig í og sé ekki eftir því. Fyrsta staðlotan var 7. ágúst þar sem farið var aftur yfir skipulag námsins, kennarar kynntir og hvernig vinnuálagi í náminu yrði háttað. Ólafur Loftsson, formaður FG, kom einnig og kynnti fyrir okkur þá styrki sem við gætum sótt um til félagsins. 

Fyrsta námskeiðið sem við tókum var undirbúningur fyrir það sem koma skyldi. Við vorum aðeins í því námskeiði frá ágúst til miðs október en þar lærðum þau handbrögð sem nýta þarf í meistaranámi, svo sem  heimildaöflun, skráningu heimilda og fleira. Að þessu námskeiði loknu hófust næstu tvö námskeið sem stóðu fram að jólum. Þau námskeið voru vel tengd saman og nýttust mér vel í starfi. Eftir áramótin var svo einn skylduáfangi og 10 einingar í val. Valáfanginn byrjaði strax í janúar en skylduáfanginn ekki fyrr en í lok mars. Þetta fyrirkomulag hentar mjög vel með vinnu þar sem gott er að geta einbeitt sér að einu námskeiði í einu. 

Skipulag á náminu hefur verið mjög gott og hentað vel með vinnu. Staðlotur í skyldufögum eru tvær og hafa þær verið á föstudögum og laugardögum. Staðlotur í vali eru svo eftir skipulagi á staðlotum innan Menntavísindasviðs. Námið er vel skipulagt og mjög áhugvert og tengist vel mínu starfi sem grunnskólakennari. Ég hvet alla til að sækja um og efla sig þannig sem fagmann og sérfræðing.

Anna Lena Halldórsdóttir
grunnskólakennari í Flataskóla og meistaranemi 

Fjölbreytt framhaldsnám

Kennaradeild Háskóla Íslands býður upp á fjölbreytt framhaldsnám fyrir starfandi grunn- og framhaldsskólakennara sem lokið hafa B.Ed.-gráðu eða annarri viðurkenndri bakkalárgráðu og hafa leyfisbréf. Sérstök athygli er vakin á nýjum námsleiðum sem í boði eru skólaárið 2016–2017 en þær eru skipulagðar sem sveigjanlegt nám með starfi.

Framhaldsnám grunnskólakennara

Ný 120 eininga (ECTS) námsleið fyrir starfandi grunnskólakennara sem lýkur með meistaraprófi að loknu 3–4 ára námi. Námið er að mestu leyti sérsniðið í þeim skilningi að gert er ráð fyrir að nemendur haldi hópinn og áhersla er lögð á tengsl við starfsvettvang þátttakenda, þ.e. að viðfangsefni í námskeiðum tengist viðfangsefnum þátttakenda í eigin starfi. Námið er að hluta til í boði í júní og ágúst, utan starfstíma grunnskóla og er að mestum hluta skipulagt sem fjarnám.

Meðal námskeiða eru: Störf og ábyrgð umsjónarkennara, hæfniviðmið, námsmat og prófagerð og kennsla í margbreytilegum nemendahópi.

Umsjónarmaður námsins er Meyvant Þórólfsson (meyvant@hi.is).


Bækling um framhaldsnám grunnskólakennara má finna hér: 

Réttur til styrkja í þetta nám sem og annað meistarnám


Úr reglum Vonarsjóðs sem taka gildi í maí:

Starfsmenntunarstyrkur
Styrkur til félagsmanna til að sækja námskeið innanlands eða utan og til ákveðinna verkefna sem teljast til starfsþróunar þeirra s.s. framhaldsnáms á háskólastigi vegna lokinna ECTS eininga og skráningar-/skólagjalda, námskeiða, ráðstefna, málþinga og skipulagðra skólaheimsókna eða kynnisferða. Með skipulagðri skólaheimsókn eða kynnisferð er átt við að staðfest dagskrá frá skipuleggjanda og/eða móttökuaðila liggi fyrir og standi yfir í a.m.k. einn dag. Ferða- og gistikostnaður er jafnframt styrktur. Styrkfjárhæðin verður hækkuð úr 160.000 í 220.000 kr. á tveggja ára fresti.
 
Styrkur vegna ECTS háskólaeininga
Styrkur vegna lokinna ECTS eininga að hámarki 120 ECTS einingar einu sinni á starfsferlinum. Sem fyrr eru greiddar 5000. kr.pr. loknum einingum. Sama upphæð er greidd vegna eininga á Íslandi og erlendis

Fræðslu- og kynningarsjóð FG
Einnig er hægt að sækja í Fræðslu- og kynningarsjóð FG. Fyrst um sinn er gert ráð fyrir að styrkurinn verði 2-300.000 kr. pr. styrkþega fyrir að ljúka mastersprófi. 
FÉLAG GRUNNSKÓLAKENNARA
Kennarahúsinu, Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Sími 595-1111

Höfundaréttur © 2016 Kennarasamband Íslands. Allur réttur áskilinn
Þú ert skráður á póstlista Kennarasambands Íslands

Afskrá    Uppfæra upplýsingar