Copy
1. tbl. 2015
Skoða fréttabréf á vef

Gleði á Degi leikskólans

Dagur leikskólans var haldinn hátíðlegur um land allt eins og vera ber. Hér að ofan má sjá svipmyndir frá afhendginu Orðsporsins sem fram fór í leikskólanum Rauðhóli í Norðlingaholti. Sveitarfélögin Kópavogur og Ölfus fengu viðurkenninguna en að þessu sinni var Orðsporið veitt þeim sem hefur stuðlað að fjölgun leikskólakennara með því að styðja starfsfólk til náms í leikskólakennarafræðum. Þá eru hér myndir af börnunum í leikskólanum Árbæ á Selfossi en þau héldu tónleika fyrir utan bókasafnið og svo eru fjölmennur og fríður hópur leikskólans Hálsaskógar á myndinni neðst til hægri. 

Endurmenntun, námstefna og ársfundur

Vonandi muna FSL félagar eftir sjálfum sér við gerð símenntunaráætlunar og skipuleggja tima sinn þannig að það sé möguleiki að afla sér þekkingar innan skóla eða utan. FSL er með samning við Endurmenntun HÍ og hér er tengill á áhugaverð námskeið sem ættu að höfða til okkar. Stjórnendafélögin innan KÍ hafa fengið starfsþróunartilboð frá endurmenntunarstofnunum og er hnappur á heimasíðu KÍ hér.

Hingað og lengra!
Ekki má gleyma stórviðburði okkar í Gullhömrum þann 27. mars næstkomandi. Verið er að leggja lokahönd á dagskrá og fyrirkomulag námstefnu sem ber yfirskriftina Hingað og lengra! og hér tengill á frétt á heimasíðu KÍ. Nánari fréttir verða sendar út um leið og allt er klárt varðandi kostnað og fleira.

Ársfundur FSLverður haldinn fimmtudaginn 26. mars næstkomandi. Stefnt er að því að halda ársfundinn síðdegis og tengja hann þannig við námstefnuna Hingað og lengra! sem fram fer daginn eftir.

Í lögum FSL er fjallað í 7. grein um ársfundi. Þar segir: Þau ár sem ekki er aðalfundur skal stjórn félagsins boða til ársfundar, þar sem m.a. er fjallað um starfsemi félagsins og starfsáætlun auk þess sem reikningar þess eru lagðir fram. Ársfund skal boða með a.m.k. 4 vikna fyrirvara.
Rétt til setu á ársfundi hafa stjórn og varastjórn, samninganefnd, samráðsnefnd og skólamálanefnd. Stjórn félagsins hefur umboð til að kalla til fleiri aðila ef þurfa þykir. 


Þá skal geta þess að ársfundur Kennarasambands Íslands verður haldinn 17. apríl næstkomandi. 

Vísindasjóður FL og FSL vill vekja athygli á nokkrum hagnýtum atriðum. 
Umsóknir leikskóla vegna ferða til útlanda

Umsóknir leikskóla vegna skólaheimsókna til útlanda eru alltaf lagðar fyrir fundi sjóðsstjórnar. Stjórn sjóðsins afgreiðir umsóknir á fundum sínum sem að jafnaði eru haldnir fyrsta miðvikudag í febrúar, apríl, júní, september, október og desember. Umsóknir þurfa að berast  fyrir 25. dag mánaðar á undan fundi.  


Leiðbeiningar vegna skólaheimsókna til útlanda
  1. Skólastjóri/forstöðumaður- sendir inn umsókn um hópstyrk með staðfestingum frá móttökuskóla/um, dagskrá ferðarinnar og nafnalista þátttakenda. Stjórn sjóðsins afgreiðir umsóknir á fundum sínum að jafnaði fyrsta miðvikudag í febrúar, apríl, júní, september, október og desember. Umsóknir þurfa að berast  fyrir 25. dag mánaðar á undan fundi.  
  2. Umsókn er ekki lögð fyrir fund fyrr en staðfestingar móttökuskóla/aðila erlendis frá liggja fyrir. 
  3. Stjórn fjallar um umsóknina og samþykkir eða hafnar.
  4. Skólastjóri fær bréf um afgreiðslu stjórnar.
  5. Ef umsókn er samþykkt þá sækja þátttakendur um rafrænt á heimasíður KÍ hver fyrir sig og senda kvittun fyrir greiðslu farseðils. Þátttakendur sækja ekki um fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt og staðfest bréflega til umsjónarmanna ferðarinnar. Athugið að senda kvittun fyrir ferðakostnaði, ekki bókunarseðil fyrir flug.
  6. Þátttakendur geta kynnt sér úthlutunarrétt sinn á ,,Mínar síður“. 
  7. Eingöngu sjóðfélagar geta fengið styrk.
  8. Styrkur innan Evrópu er 120.000 kr. og utan Evrópu 140.000 kr. á hvern og einn þátttakenda. 
Næsti fundur verður haldinn 1. apríl næstkomandi og þurfa umsóknir fyrir þann fund að hafa borist eigi síðar en 25. mars 2015.
Fjölga þarf leikskólakennurum
Sú staðreynd að fjölga þarf leikskólakennurum verulega hefur verið í deiglunni undanfarið. Ýmislegt hefur verið gert til að ná árangri í þeim efnum og má nefna átakið í eflingu leikskólastigsins til dæmis. Þá var fjölgun leikskólakennara leiðarstef á Degi leikskólans og hvatningarverðlaunin Orðsporið veitt sveitarfélögum sem hafa sýnt metnað á þessu sviði. 

Félag leikskólakennara stofnaði á dögunum Starfsþróunarsjóð leiðbeinenda í FL. Markmið sjóðsins er að styrkja leiðbeinendur til þess að afla sér menntunar sem veitir þeim leyfisbréf til kennslu í leikskólum eða með öðrum orðum að fjölga leikskólakennurum. 

Stjórnendur leikskóla gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að gera starfsfólki kleift að stunda nám samhliða vinnu (að því gefnu að fjárveiting og tími sé skilgreindur til þess). Hér til hliðar má sjá reglur hins nýstofnaða Starfsþróunarsjóðs. 
Skólavarðan komin út 

Fyrstu Skólavarða ársins 2015 leit dagsins ljós á dögunum. Skólavarðan, sem er rafræn að þessu sinni, er stútfull af áhugaverðum greinum, viðtölum og pistlum eftir félagsmenn KÍ. 
Það er hægt að lesa Skólavörðuna með auðveldum hætti á netinu; annað hvort á pdf-formi eða í flettiforritinu Issuu
Þeir sem eiga snjallsíma eða spjaldtölvur eru hvattir til að hlaða niður Skólavörðu-appinu
 
Share
Tweet
Forward
REGLUR um Starfsþróunarsjóð leiðbeinenda í Félagi leikskólakennara

1. grein 
Sjóðurinn heitir Starfsþróunarsjóður leiðbeinenda í Félagi leikskólakennara og starfar með því skipulagi og markmiði, sem segir í reglum þessum. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík. 

2. grein 
Markmið sjóðsins er að styrkja leiðbeinendur sem starfa samkvæmt kjarasamningi Félags leikskólakennara til að sækja sér menntun á Íslandi sem veitir þeim leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi. 

3. grein 
Stjórn sjóðsins er skipuð af stjórn Félags leikskólakennara. 

4. grein 
Tekjur sjóðsins eru framlög launagreiðenda og vaxtatekjur. 

5. grein 
Rétt til að sækja um styrk hafa leiðbeinendur sem eru í 25% starfi að lágmarki, hafa starfað samkvæmt kjarasamningi Félags leikskólakennara í a.m.k þrjá síðastliðna mánuði, hafa lokið að lágmarki 180 ECTS einingum frá viðurkenndum háskóla, með BA, BS eða B.Ed. prófi og hafa ekki leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi. 

6. grein 
Afgreiðsla umsókna fer fram í nóvember ár hvert. Umsóknir þurfa að berast fyrir 1. október. 

7. grein 
Upphæð og fjöldi styrkja eru ákveðin af stjórn ár hvert, miðað við það fjármagn sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar hverju sinni. 

8. grein 
Ef umsóknir eru fleiri en fjármagn sjóðsins leyfir er dregið úr gildum umsóknum af sjóðsstjórn. 

9. grein 
Sótt er um á Mínum síðum á vef KÍ. Með umsókn þarf að fylgja viðurkennd staðfesting á skólavist, staðfesting á starfsreynslu, starfshlutfalli og menntun samkvæmt 5. grein. Félagsmaður sem hlotið hefur styrk getur ekki sótt um aftur. 

Félag stjórnenda leikskóla
Kennarahúsinu, Laufásvegi 81
101 Reykjavík
Sími 595 1111.

© |2015 |Kennarasamband Íslands. Allur réttur áskilinn.
Þú ert skráður á póstlista Kennarasambands Íslands.

Ábyrgðarmaður. Ingibjörg Kristleifsdóttir, inga@ki.is

Afskrá mig af þessu lista    Uppfæra upplýsingar