Copy
Fréttir og upplýsingar frá Álftanesskóla.
22. árgangur 1. tbl - febrúar 2015

Kæru foreldrar

Ágætu foreldrar/forráðamenn nemenda í Álftanesskóla.

Nú er vorönn skólaársins 2014 - 2015 farin vel af stað og skólastarfið gengur sinn vanagang. Nemendur í 7. bekk og umsjónarkennarar þeirra dvelja þessa vikuna í skólabúðunum að Reykjum í Hrútafirði. Í næstu viku mánudaginn 9. febrúar er skipulagsdagur kennara og í framhaldi af því vetrarleyfi nemenda til og með 13. febrúar. Framundan eru svo venjubundin vorverk s.s. öskudagur, nemendaþing, námsviðtöl nemenda með foreldrum eru mánudaginn 16. mars og ferð 9. bekkja í Ungmennabúðir að Laugum í Reykjadal er áætluð 16. - 20. mars. Árshátíðir árganga verða svo síðustu vikuna í mars áður en páskaleyfið hefst.

 

Skipulagsdagur og vetrarleyfi

Mánudaginn 9. febrúar er skipulagsdagur kennara og eru nemendur þá í fríi frá skólasókn. Vetrarleyfi nemenda í grunnskólum Garðabæjar er svo dagana 10. til 13. febrúar. Frístund er opin í vetrarleyfinu og verða foreldrar sem ætla að nýta sér það að skrá börn sín með tölvupósti til Jóhönnu umsjónarmanns (johanna@alftanesskoli.is) í síðasta lagi miðvikudaginn 4. febrúar. Hægt er að nýta sér Frístund eftir því sem hentar fjölskyldum best, þ.e. skrá einn dag eða fleiri.

 

Lestrarátak Ævars vísindamanns

Lestrarátaki Ævars vísindamanns er nú lokið og voru nemendur Álftanesskóla sérlega duglegir að taka þátt. Kassinn var troðfullur þegar hann var sendur til Ævars vísindamanns. Síðar í febrúar verður dregið úr innsendum miðum og fá vinningshafarnir ótrúleg verðlaun. Verðlaunahafarnir verða gerðir að sögupersónum í nýrri ævintýrabók sem kemur út í vor.
En þar sem nemendur úr Álftanesskóla voru svona duglegir var ákveðið að veita þrenn bókaverðlaun. Dregið var úr innsendum miðum úr okkar kassa og þeir heppnu fengu ljóðabókina Fuglaþrugl og naflaskrafl eftir Þórarinn Eldjárn.

Vinningshafar voru:

Ívar Orri Erlingsson   1. R

Kara Margrét Ægisdóttir  3. B

Helga Sigríður Kolbeins   5. SG

Spurningakeppni grunnskólanna

Spurningakeppni grunnskólanna stendur nú yfir og er Álftanesskóli kominn í 16 liða úrslit eftir að lið Hvaleyrarskóla og Lækjarskóla mættu ekki til keppni fimmudaginn 29. janúar.

Nánari upplýsingar um spurningakeppnina verða birtar á heimasíðu skólans.
 



Söngkeppni Elítunnar

 
Bríet Eva og Aldís Ósk sigurvegarar í Söngkeppni Elítunnar keppa fyrir hönd Álftanesskóla í undankeppni Söngkeppni Samfés í Grindavík föstudaginn 6. febrúar. Í hljómsveitinni sem spilar undir hjá þeim eru þau Gabríel, Ella og Tómas Torrini. Þau eru öll nemendur í 9. GE.


 

 

Öskudagur

Miðvikudaginn 18. febrúar er öskudagur og er það skertur dagur samkvæmt skóladagatali Garðabæjar. Skóladagur hefst kl. 9:00 en skólinn opnar kl. 7:45 að venju og geta þeir nemendur sem þurfa að koma fyrir kl. 9:00 mætt á bókasafn skólans. Hádegismatur er á hefðbundnum tíma og lýkur skóla kl. 13:00.
 

Öskudagsskemmtun á vegum foreldrafélagsins, nemenda í 10. bekk og starfsmanna Elítunnar verður í Íþróttamiðstöðinni milli kl. 16:00 og 18:00.
 

Nemendaþing í mars

Nemendaþing Álftanesskóla verður haldið í annað sinn í byrjun mars. Nemendur úr 8. - 10. bekk sem eru í félagsmálavali skólans skipuleggja, setja upp og stjórna samræðuhópum undir verkstjórn Hjördísar J. Gísladóttur kennara síns. Þingið verður haldið í Íþróttamiðstöðinni með nemendum í 5. - 10. bekk.
 

Námsviðtöl 16. mars

Mánudaginn 16. mars verða námsviðtöl en þá mæta nemendur með foreldrum/ forráðamönnum og ræða framvindu náms við umsjónarkennara.
 
Foreldrar/forráðamenn bóka sjálfir tíma í gegnum Mentor og mikilvægt er að þeir sem eiga fleiri en eitt barn í skólanum bóki viðtöl strax til að þeir fái samliggjandi tíma í viðtölin. Mikilvægt er hins vegar að bóka viðtölin ekki of þétt (15 mín á milli) svo tími sé til að fara á milli stofa. Leiðbeiningar og kennslumyndband um skráningu viðtala í Mentor má finna á heimasíðu skólans undir Foreldrar - Námsviðtöl.

Opnun skráninga verður auglýst síðar.
 

Eigur og verðmæti nemenda

Í skólareglum kemur fram að nemendur beri ábyrgð á eigum sínum og skólagögnum. Nauðsynlegt er að merkja allar yfirhafnir og skófatnað. Skólinn tekur ekki ábyrgð á því ef skór, fatnaður eða aðrar eigur nemenda hverfa úr skólanum. Það sama gildir ef önnur verðmæti t.d. tölvur, snjalltæki, heyrnartól o.þ.h. hverfa eða verða fyrir tjóni. Nemendur bera ábyrgð á eigum sínum og fjármunum í skólanum og er þeim því bent á að vera ekki með peninga eða önnur verðmæti í skólanum að þarflausu.
 

Félagsmiðstöðin Elítan

Félagsmiðstöðin Elítan er staðsett í Íþróttamiðstöðinni og hlutverk hennar er að styðja við börn og unglinga í gegnum fjölbreytt tómstundarstarf, hópefli og hópastarf. Meginmarkmið starfsins er að veita þeim tækifæri til samveru og stunda heilbrigðar tómstundir undir leiðsögn reyndra tómstundaleiðbeinenda. Leiðarljós starfsins er að efla félagsfærni og sjálfsmynd barna og unglinga. Hér að neðan má sjá dagskrá Elítunnar fyrir 5. og 6. bekk, 7. bekk og 8.-10. bekk. Upplýsingar um og frá félagsmiðstöðinni má einnig finna á fésbókinni Elítan Félagsmiðstöð.

Dagskrá 5.- 6. bekkja - mánudagar kl. 17:00 - 19:00.

Dagskrá 7. bekkja - miðvikudagar kl. 17:00 - 19:00.









Í maí og júní er 7.bekkur velkominn í kvöldstarf unglingadeildar. Félagsmiðstöðin er opin á mánudögum og miðvikudögum kl.19.30-22.00.

Dagskrá 8.-10. bekkja - mánudaga og miðvikudaga kl. 19:30 - 22:00.

 

Á döfinni

Mánudaginn 9. febrúar er skipulagsdagur kennara. Frístund er opin þann dag.
Dagana 10. - 13. ferúar er vetrarleyfi nemenda. Frístund er opin í vetrarleyfinu.
Miðvikudaginn 18. febrúar öskudagur.
Mánudaginn 16. mars námsviðtöl.
Dagana 16. - 20. mars ferð 9. bekkja í Ungmennabúðir að Laugum í Reykjadal.
Mánudaginn 30. mars páskaleyfi hefst.
©2015 Álftanesskóli
Álftanesskóli, v/ Breiðumýri, 225 Garðabær

www.alftanesskoli.is
alftanesskoli@alftanesskoli.is