Copy
2. tbl. mars 2015.
Skoða fréttabréf á vef

Klippt og skorið um stöðu samningamála

Kjarasamningur KÍ/framhaldsskóla varð laus frá og með 27.febrúar 2015 eftir að samkomulag um vinnumat samkvæmt 6.-13. grein kjarasamnings frá 4. apríl 2014 var fellt.

Samningaviðræður við samninganefnd ríkisins um efni nýs kjarasamnings fara fram undir stjórn ríkissáttasemjara og hafa tveir fundir verið haldnir.
Félag framhaldsskólakennara og Félag stjórnenda í framhaldsskólum starfa nú sem áður saman að samningagerðinni enda starfar félagsfólk í FF og FS eftir sama kjarasamningi.

Samninganefnd FF kom saman 4. mars, ræddi samningastöðu og samningsumhverfi. Niðurstaða fundarins var að freista þess að gera nýjan samning að grundvelli hugmyndafræði vinnumats en með ákveðnum lagfæringum. Áhersla er lögð á að í nýjum samningi verði ekki slakari kjarabætur en í hinum fyrri.
Staðan nú að felldum kjarasamningi er í stuttu máli þannig að öll ákvæði kjarasamnings frá 4. apríl 2014 sem ekki eru komin til framkvæmda falla brott að undanskilinni 5. grein um starfstíma skóla en þó fellur 2. mgr. þeirrar greinar niður.

Ef ekki nást samningar um endurgerð kjarasamnings á grundvelli hugmyndafræði vinnumats þarf í samningagerðinni í öllu falli að semja vegna lengingar starfstíma með nemendum þ.e. fjölgun úr 175 í 180 kennslu- og námsmatsdaga. Þessi breyting kemur til framkvæmda við fulla gildistöku framhaldsskólalaga haustið 2015.

Fulltrúafundur 19. mars 2015


Fulltrúafundur er ársfundur FF og er haldinn þau ár sem aðalfundur er ekki eða oftar ef þurfa þykir eins og lög félagsins kveða á um. Fulltrúafundur var haldinn fimmtudaginn 19. mars á Grand Hótel Reykjavík og sóttu hann 50 fulltrúar frá 29 skólum. Fjallað var um starfsemi félagsins frá aðalfundi vorið 2014, farið yfir fjármál og rætt um stöðu og horfur í samningamálum. Að venju skiptust félagar á skoðunum en var fundurinn lausnarmiðaður og afgerandi stuðningur við áframhaldandi viðræður samninganefndar um endurbætur á vinnumati. Guðjón H. Hauksson MA var kosinn nýr fulltrúi í varastjórn félagsins í stað Elíasar Þorsteinssonar sem baðst lausnar í haust.
 

 

Laun framhaldsskólakennara

Oddur S. Jakobsson, hagfræðingur KÍ hélt erindi um launaþróun með tilvísun til nýútkominnar skýrslu heildarsamtaka vinnumarkaðarins um efnahagsumhverfi og launaþróun. Hann fjallaði einnig sérstaklega um laun í 28 ríkisreknum framhaldsskólum á árinu 2014. Þar kom m.a. fram að munurinn á hæstu og lægstu dagvinnulaunum í skólunum 28 var 12% en munur hæstu og lægstu heildarlauna var 24,3%. Dreifingu meðallauna má sjá á myndinni hér fyrir neðan þar sem lesa má dagvinnulaun af láréttum ás en heildarlaun af þeim lóðrétta.

Fundur á vettvangi NLS, norrænu kennarasamtakanna


Fulltrúar Félags framhaldsskólakennara sóttu fund á vegum norrænu kennarasamtakanna NLS 12.-13. mars síðastliðinn. Þema ársins í ár er: „Traust- leiðin að sterkari kennarastétt“ (Tillit - vägen till en starkare lärarprofession). Aðalerindi fundarins flutti Petter Skarheim frá norska menntamálaráðuneytinu. Í erindi sínu fjallaði hann mikilvægi skólans í samfélaginu. Hann sagði að áhrif skólans á samfélagið yrðu ekki ofmetin og að ef skólakerfið væri ekki gott virkaði samfélagið ekki. Því yrði það að vera algert forgangsmál í hverju velferðarsamfélagi að styðja við kennara og skólastarf. 

Á fundinum var auk þess farið yfir stöðuna í samninga og kjaramálum hjá félögum okkar á Norðurlöndunum. Þar kom í ljós að alls staðar hefur verið unnið að talsverðum breytingum sem tengjast pólitískum stefnumörkunum sem hafa haft áhrif ávinnutíma kennara.

Í Danmörku náðu kennarar ekki að semja um breytingarnar heldur fengu skólastjórnendur fullt umboð til að ráðstafa vinnutíma sinna kennara í kennslu, undirbúning og önnur störf á verkssviði kennara. Samningarviðræður þar í ár gengu ú út á að ná í gegn bindandi viðmiðum um skiptingu vinnutímans, en fulltrúar danska ríkisins lögðust gegn því af fullum þunga. Í stórri könnun sem sem gerð var kom í ljós að ástandið í skólunum nú er ekki gott og kennarar gefa eftirfarandi mynd af ástandinu í skólunum:

- aukið vinnuálag
- minni samskipti við stjórnendur
- skortur á forgangsröðun
- slæmt skipulag á verkum
- of lítill tími í undirbúning kennslu
- slæmt starfsumhverfi
- merki um atgervisflótta og þreytu

FF boðar félagsfund


Stjórn Félags framhaldsskólakennara boðar til almenns félagsfundar miðvikudaginn 25. mars næstkomandi. Fundurinn hefst klukkan 17 og stendur til 19. 

Fundarefnið er: Staðan í samningamálum. 

Félagar sem hafa ekki tök á að sækja fundinn en hyggjast fylgjast með honum í vefútsendingu geta sent athugasemdir og spurningar í gegnum Twitter.com. Til þess að spurningar og athugasemdir komist til skila þarf að hefja þær á #FelFrahskkennara. Heildarlengd hvers tísts er 140 slög og framsetning þarf að vera hnitmiðuð.
Hægt verður að fylgjast með fundinum á vefnum netsamfelag.is. 

Fyrst verða haldnar nokkrar stuttar framsögur (hámark 3 til 5 mínútur hver) frummælenda fulltrúa talsmanna og stjórnar um fundarefnið. Því næst fara fram almennar umræður og skoðanaskipti. Félagsmenn sem hafa hug á að halda stuttar framsögur (hámark 3 til 5 mínútur) hafi samband við Önnu Maríu Gunnarsdóttur (anna@ki.is) fyrir klukkan 16 þriðjudaginn 24. mars. 

Vakin er athygli á að félagið greiðir ekki ferðakostnað vegna fundarins.

Fundurinn er opinn öllum félagsmönnum.

Könnun

Tölvupóstur frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands barst félögum í FF og FS  sl. föstudag. Hann var sendur að ósk samninganefndar félagsins.

Þar er þess farið á leit við félagsmenn að þeir gefi samninganefndinni vísbendingu um hvort þeir vilji að kjarasamningar séu áfram reyndir á grundvelli vinnumats. 

Athugið að   ekki er verið að kjósa um vinnumat heldur einungis afstöðu til þess að samninganefnd ræði við viðsemjendur á þessum nótum.
Fulls trúnaðar er gætt við meðferð þeirra upplýsinga sem aflað er og þátttöku svarenda í könnuninni verður hvergi getið.

Það er mjög mikilvægt að sem flestir svari spurningunni til að samninganefnd hafi skýra mynd af afstöðu félagsmanna og eru félagsmenn því góðfúslega beðnir að taka þátt.

Frá SEF

Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara (SEF) undanfarið skoðað möguleg námskeið sem gætu hentað verknámskennurum. Í framhaldi af því vill SEF í samstarfi við HR bjóða framhaldskólakennurum í bygginga-, raf- og véliðnfræðigreina til kynningar í  HR, 26. mars nk. kl. 16.30.

Þeir sem hafa hug á að mæta á þennan kynningarfund í HR vinsamlegast sendið póst á anna@ki.is

Upplýsinga-veita


Upplýsingaveita fyrir fræðslutilboð sem ætluð eru kennurum, skólastjórn-endum, kennslu-, náms- og starfsráðgjöfum í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum hefur verið opnuð.

Markmið upplýsinga-veitunnar er tvíþætt: að miðla og að veita yfirsýn. Vonast er til að sem flest fræðslutilboð sem ætlað er að styrkja umræddar starfsstéttir faglega og stuðla þannig að starfsþróun þeirra verði birt á upplýsinga-veitunni s.s. námskeið, fyrirlestrar, ráðstefnur, málþing og samstarfsverkefni. Með því móti verða þau aðgengileg fyrir væntanlega þátttakendur en færir einnig fræðsluaðilum og öðrum mikilvægar upplýsingar um hvað er í boði og á hvaða sviðum skortir framboð.

Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara stendur að upplýsingaveitunni.

Upplýsingaveitan er staðsett á vef fagráðs um símenntun og starfsþróun kennara; www.starfsthrounkennara.is.

Share
Tweet
Forward to Friend

Félag framhaldsskólakennara

Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Sími 595 1111
Netfang ki@ki.is

Höfundaréttur © Félag framhaldsskólakennara
Allur réttur áskilinn.

afskrá mig af lista    uppfæra skráningu