Copy
Fréttir og upplýsingar frá Álftanesskóla.
22. árgangur 2. tbl - apríl 2015

Kæru foreldrar

Ágætu foreldrar/forráðamenn nemenda í Álftanesskóla.

 
Skólaárið er nú komið langt á leið og aðeins um tveir mánuðir í sumarleyfi nemenda. Framundan er hefðbundið skólastarf ásamt hinum árlegu umbrotsdögum eins og Unglistaleikunum, Margæsardeginum og Vorleikunum. Stefnt er að því að fara í dagsferð á skíði með 5. - 10. bekk á næstu vikum og verður sú ferð auglýst síðar. Skipulagsdagur kennara er 15. maí næstkomandi og eru nemendur í fríi frá skólasókn þann dag.

 

Heimsókn Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Sinfóníuhljómsveitin kom í heimsókn til okkar 6. mars síðastliðinn og var með skemmtilega tónleika í Íþróttamiðstöðinni fyrir nemendur skólans.

Hún flutti lög úr öllum áttum bæði íslensk og erlend og fengu nemendur að taka virkan þátt í tónleikunum. Ekki var hægt að sjá annað en allir hafi skemmt sér vel og haft gaman af. 

 

Ferð 9. bekkja að Laugum í Sælingsdal

Um miðjan mars lögðu nemendur í 9. bekk land undir fót og fóru í vikuferð í skólabúðir UMFÍ að Laugum í Sælingsdal. Ferðin gekk vel og voru nemendur sjálfum sér og skólanum til sóma. 
 


 

Spurningakeppni grunnskólanna

Spurningakeppni grunnskólanna stendur enn yfir og er lið Álftanesskóla nú komið í 8 liða úrslit eftir að hafa unnið Langholtsskóla með 18 stigum gegn 5.

Álftanesskóli keppir næst við Laugalækjarskóla og verður tímasetning auglýst nánar á heimasíðu skólans.
 

4. bekkur styrkir Fjölskylduhjálp og Ljónshjarta

Nemendur í 4. bekk stóðu fyrir tombólu á Jóla- og góðgerðadegi Álftaness í desember sl. og ákváðu að gefa ágóðann til Fjölskylduhjálpar Íslands og Ljónshjarta sem eru samtök fyrir ungt fólk sem misst hefur maka og börn þeirra. Fulltrúar félaganna  heimsóttu bekkina og fengu krakkarnir að fræðast um hlutverk félaganna og hvaða þýðingu styrkurinn hefur fyrir þau. Samtals söfnuðu krakkarnar 25.000 kr. fyrir hvort félag. 

Grænfáninn í Álftanesskóla

 
Grænfánavinnan tengist áherslum skólans þar sem mikið er lagt upp úr tengingu skólastarfs við sjálfbærni, umhverfi og náttúru. Bæði kennarar og starfsmenn skólans gera sitt besta til að kynna og fræða nemendur um endurvinnslu og kosti þess að spara og endurnýta. Ýmis grænfánaverkefni eru fastir liðir í skólastarfinu, til dæmis grænfánalöggur (stofueftirlitið), samgöngukönnun, 1. des tískusýningin, útikennsla, gróðursetning og ýmis verkefnavinna og sköpun úr verðlausum efnum.

Flokkunarkönnun er jafnframt liður í vinnu Grænfánans en þar er spurt hvað heimili flokka til endurvinnslu. Í ár var könnunin í fyrsta skipti lögð fyrir á netinu og tókst vel til. Niðurstöður hennar má finna í fréttasafni á heimasíðu skólans en þær verða svo einnig birtar á síðu Grænfánans sem er í vinnslu.
 

Sólmyrkvinn 20. mars

Nemendur, kennarar og starfsmenn skólans fylgdust með sólmyrkvanum föstudaginn 20. mars í blíðaskaparveðri. Flestir voru sammála um að þetta hafi verið einstök og skemmtileg upplifun.

 

Stóra upplestrarkeppnin

Á degi íslenskrar tungu í nóvember ár hvert byrjar markviss þjálfun nemenda í 7. bekk vegna Stóru upplestrarkeppninnar. Fulltrúar Álftanesskóla í ár voru þau Gunnar Orri Aðalsteinsson, Kolbeinn Högni Gunnarsson og Katla Sigríður Gísladóttir (varamaður). Keppnin fór fram 18. mars síðastliðinn í félagsheimilinu á Seltjarnarnesi og stóðu krakkarnir sig með prýði.


 

Söfnunin Börn hjálpa börnum 2015

Nemendur í 5. bekk hafa undanfarin ár tekið þátt í söfnuninni Börn hjálpa börnum en það er árlegt söfnunarátak ABC barnahjálpar í samstarfi við grunnskóla landsins.

Söfnunin stendur yfir frá 20. mars til 19. apríl og munu börn ganga í hús í sínu hverfi og safna framlögum í sérmerkta söfnunarbauka. Þessi söfnun er mjög mikilvæg fyrir ABC barnahjálp og hefur afrakstur hennar í gegnum árin farið í að fjármagna byggingar fjölmargra skóla og heimila fyrir fátæk börn í þróunarlöndum.

 

Unglistaleikar 29. - 30. apríl

Unglistaleikarnir verða haldnir dagana 29. og 30. apríl og er þema leikanna í ár Barnasáttmálinn. Nemendum verður skipt í hópa og munu list- og verkgreinakennarar ásamt öðrum kennurum setja upp vinnustöðvar um allan skólann fyrir nemendur. Þessa daga eiga nemendur að mæta í skólann kl. 9 og lýkur skóladegi eftir hádegismat eða um kl. 13.
Skólinn opnar kl. 7:45 að venju og get þeir nemendur sem þurfa að koma fyrir kl. 9 mætt á bókasafn skólans. Frístund er opin eins og venjulega.
 

Umhverfisnefnd Garðabæjar og fuglalíf á Álftanesi

Á síðasta ári fór fram rannsókn á fuglalífi í fjörum, á grunnsævi og tjörnum á Álftanesi á vegum umhverfisnefndar Garðabæjar. Nú er komin út skýrsla um rannsóknina eftir þá Jóhann Óla Hilmarsson og Ólaf Einarsson og verður hún kynnt á íbúafundi á Bjarnastöðum 15. apríl næstkomandi.
Í tengslum við þessa rannsókn býður umhverfisnefnd Garðabæjar nemendum í 5. bekk í Álftanesskóla upp á útikennslu fimmtudaginn 7. maí með Jóhanni Óla og Ólafi í samstarfi við skólann.

 

Á döfinni

Dagana 29. - 30. apríl Unglistaleikarnir (skertur skóladagur)
Sunnudaginn 10. maí alþjóðlegi fuglaverndardagurinn
Mánudaginn 11. maí margæsardagurinn
Föstudaginn 15. maí skipulagsdagur
©2015 Álftanesskóli
Álftanesskóli, v/ Breiðumýri, 225 Garðabær

www.alftanesskoli.is
alftanesskoli@alftanesskoli.is