Copy
4. tbl. 2015
Skoða fréttabréfið á vef
Ný rafræn Skólavarða er komin út. Sæktu appið í dag: Einnig má lesa Skólavörðuna á netinu. 

Starfsmanna-samtöl vegna vinnumats

Innleiðing vinnumats er hafin í grunnskólum landsins og félagar í FG munu í samstarfi við skólastjórnendur vinna að því næstu mánuði að leysa þetta verkefni eins vel og kostur er. Hver og einn kennari fær sitt eigið vinnumat; hann þarf að átta sig á hvaða verkþætti starfið felur í sér og ræða við skólastjórnendur í starfsmannasamtali. 
Gefinn hefur verið út bæklingur þar sem er að finna upplýsingar um hvernig best er að undirbúa sig fyrir starfsmannasamtalið, bæði almennt séð og út frá eigin starfi. Bæklinginn er að finna hér og einnig er mikið af upplýsingum að finna á vefnum vinnumat.is






 



 

Upplýsingaveita fyrir kennara 

Upplýsingaveita þar sem er að finna fræðslutilboð ætluð kennurum, skólastjórnendum, náms- og starfsráðgjöfum á öllum skólastigum var nýverið sett í loftið. Markmið veitunnar er tvíþætt; að miðla upplýsingum og veita yfirsýn. Vonir standa til að fræðslutilboð, svo sem námskeið, fyrirlestrar, ráðstefnur og málþing verði birt á upplýsingaveitunni. Það er um að gera að fylgjast með þessum vef. 





 
 

Skólahús og kennsluhættir

Tengsl skólabygginga og kennsluhátta verða til umræðu á ráðstefnu sem haldin verður í Mosfellsbæ 21. maí næstkomandi. Fjallað verður um hönnun skólabygginga frá ýmsum hliðum. Nánari upplýsingar hér. 
 
Að þessu sinni fengum við Fjólu Þorvaldsdóttur, sérfræðing í upplýsingatækni og varaformann FL, til að upplýsa okkur um SAMspil2015, en við höfum fregnir frá kennurum að þetta sé mjög gott námskeið. 
Þá er greint frá falinni perlu sem nýta má í náttúrufræðikennslu á vormánuðum.


Samspil 2015 er verkefni sem Menntamiðja hefur hrundið af stað. Samspil 2015 er heildstætt verkefni þar sem nýttar eru fjölbreyttar leiðir til að stuðla að og styðja við notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Verkefnið er styrkt af Rannís og er byggt á sérþekkingu sem til hefur orðið á Menntamiðju í samstarfi við ýmsa aðila um símenntun og starfsþróun. Inntak og skipulag tekur mið af reynslu í fjölda þróunarverkefna og rannsókna.
Boðið var upp á staðbundin námskeið víða um land, fræðslu og eftirfylgni sem fram fer á netinu í tengslum við starfsemi Menntamiðju og starfssamfélaga skólafólks.
Markmið verkefnisins er að stuðla að aukinni þekkingu, umræðu og notkun á upplýsingatækni í námi og kennslu. Þetta er annars vegar gert með námskeiðahaldi og hins vegar með því að efla samfélög sem snúast um starf kennara á netinu sem vettvang fyrir áframhaldandi samskipti, samstarf og starfsþróun skólafólks. Auk þess að kynnast tækninýjungum og kennsluaðferðum á staðbundnum námskeiðum munu þátttakendur læra að nota vefmiðla, t.d. vefsvæði torga, Facebook-hópa, #menntaspjall og #samspil2015 á Twitter, YouTube og fleira. Á þessum miðlum munu þátttakendur geta leitað ráða, miðlað af eigin reynslu og þekkingu og skipulagt samstarfsverkefni til að efla sig í starfi. Samlegðaráhrifin og áframhaldandi starfsþróun felast í því að efla skólafólk til sjálfsnáms og auka þátttöku í starfssamfélögum torga og Menntamiðju.
Allir þátttakendur halda leiðarbók/dagbók í formi vefsíðu eða bloggs þar sem þeir segja frá því hvernig þeir nýta upplýsingatækni í skólastarfinu. Hvað þeim finnst áhugavert hvað varðar upplýsingatækni í skólastarfi og fleira. Þátttakendur hafa hingað til verið mjög duglegir að deila mjög áhugaverðum upplýsingum og skiptast á kennslumyndböndum og fleira. 
Samspil 2015 mun standa yfir allt þetta ár og er þátttökugjaldið 5.000 krónur en ef þátttakendur vilja fá námskeiðið metið til eininga í háskólanámi þá er gjaldið 60 þúsund krónur (sama og skráningargjald HÍ). 
Nú þegar eru þátttakendur 320 kennarar á öllum skólastigum. Hægt er að kynna sér málið frekar á heimasíðu verkefninsins hér.
 

Leynd perla

Í anddyri Háskólabíós er leynd perla. Þar er starfrækt Vísindasmiðja Háskóla Íslands. Markmið smiðjunnar er að efla áhuga ungmenna á vísindum,  kynna nemendum raun- og náttúruvísindi með gagnvirkum og lifandi hætti og styðja við framþróun í kennslu náttúru- og raunvísinda.
Grunnskólahópar geta komið í Vísindasmiðjuna og fengið fræðslu sér að kostnaðarlausu.
Fræðslan og búnaður nýtist vel fyrir nemendur í 5. – 10. bekk.
Umsagnir nokkurra nemenda úr 7. bekk Rimaskóla:
  • Mér fannst gaman í Vísindasmiðjunni því það var gaman og fræðandi. Það var áhugavert þegar við töluðum um hvað vísindi væru. Það var mjög gaman að sjá hvernig öll tækin virkuðu. En skemmtilegast var þegar við fengum frjálsan tíma og máttum prófa tækin
  • Mér fannst mjög skemmtilegt í Vísindasmiðjunni af því að ég sá margt sem ég hef aldrei séð. Það var gaman að sjá vökvahvirfilbyl og rólu teikna mynd.
  • Mér fannst áhugavert að læra á svona skrítinn hátt.
  • Mér fannst áhugavert með speglana, ef við förum nógu langt í burtu þá erum við á hvolfi.
  • Mér fannst allt mjög skemmtilegt og áhugavert í Vísindasmiðjunni því það er hægt að læra mikið af því. Það er t.d. hægt að spila á skál með blautum höndum.
Ef þig langar að gera eitthvað öðruvísi, áhugavert og skemmtilegt með þínum nemendum. Skoðaðu þá hér.
 
FÉLAG GRUNNSKÓLAKENNARA
Kennarahúsinu, Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Sími 595-1111

Höfundaréttur © 2015 Kennarasamband Íslands. Allur réttur áskilinn
Þú ert skráður á póstlista Kennarasambands Íslands

unsubscribe from this list    update subscription preferences