Copy
3. tbl. 2015
View this email in your browser

Heilir og sælir ágætu félagar!

Nú eru kjarasamningaviðræður okkar því miður í „gíslingu“ þar til búið er að leggja línurnar hjá stóru stéttarfélögunum bæði á almenna og opinbera markaðnum. Vonandi verður einhver niðurstaða komin í byrjun júní svo við getum farið að ganga frá okkar málum. Næsti samningafundur er 27. maí.
 Á sameiginlegum fundi stjórnar, samninganefndar  og formanna svæðafélaga 29. apríl síðastliðinn var ákveðið að einbeita sér að því á næstu vikum að í fyrsta lagi: senda áskoranir á sveitarstjórnir, samninganefnd, stjórn og skólamálanefnd sambandsins og í öðru lagi: ræða við stjórn Sambandsins, sveitarstjóra og fleiri hvað varðar kjarasamninga skólastjórnenda og benda á ákveðin atriði, svo sem: 

•    Að laun umsjónarkennara og verkefnisstjóra eru hærri en laun ákveðinna hópa skólastjórnenda
•    Launakostnaður vegna skólastjórnenda í grunnskólum er lítill hluti af heildarlaunakostnaði við rekstur skólanna. Heildarlaunakostnaður grunnskóla mun því ekki hækka umtalsvert þó að launahækkanir skólastjórnenda verði að lágmarki þær sömu og launahækkanir kennara í þeirra samningi.
•    Hvernig verður framkvæmd vinnumats í haust ef ekki liggur fyrir nýr samningur hjá skólastjórnendum?
•    Umræður eru um uppsagnir meðal aðstoðarsskólastjóra og deildarstjóra ef ekki nást viðunandi kjarasamningar í júní.

Þessar vikurnar standa yfir félagsfundir svæðafélaga til að fara yfir stöðuna í kjaraviðræðum og ræða hvað sé til ráða. Búið er að halda félagsfundi í Reykjavík og nágrenni, á Austurlandi og Suðurlandi. Fundirnir hafa verið vel sóttir og þar hafa komið fram skýrar kröfur til samninganefndar um að halda sínu striki hvað varðar kröfur okkar. Framundan eru fundir á Norðurlandi, Vestfjörðum og Vesturlandi. Það er mjög mikilvægt fyrir stjórn og samninganefnd SÍ að heyra raddir og álit félagsmanna á stöðunni.

Með kveðju,
Svanhildur

Vinnumatsnámskeiðum er lokið

Námskeiðum um innleiðingu vinnumats, sem haldin voru í mars og apríl, er nú lokið. Alls tóku 340 skólastjórnendur um allt land þátt. 
Þátttakendur voru beðnir um að meta námskeiðin og jafnframt koma með hugmyndir um eftirfylgni og stuðning við skólastjórnendur við innleiðingu vinnumatsins. 
Fram kom að þátttakendur töldu námskeiðin vel heppnuð að flestu leyti og til gagns fyrir áframhaldandi starf. Þátttakendur töldu mikilvægt að skólastjórnendur fengju áframhaldandi stuðning og handleiðslu við innleiðingu vinnumatsins næsta vetur. 
Hugmyndir komu fram um að svæðafélög SÍ myndu beita sér fyrir auknum stuðningi við skólastjórnendur á svæðum; með fundahaldi, samvinnu, umræðum, jafningjafræðslu, handleiðslu og námskeiðum – allt út frá því sem skólastjórnendur telja sig þurfa á hverju svæði. 
Share
Tweet
Forward

Kennslufræðileg forysta rædd á námstefnu SÍ í haust

Námstefna og ársfundur Skólastjórafélags Íslands fer fram dagana 9. og 10. október næstkomandi á Reykjanesi. Meginþema námstefnunnar að þessu sinni er kennslufræðileg forysta skólastjórnenda. Til að fjalla um þetta efni höfum við fengið Viviane Robinson, prófessor við Auckland-háskóla á Nýja-Sjálandi, til að halda erindi og stýra vinnustofu á námstefnunni. Hægt er að kynna sér feril og verk Viviane Robinson hér
Dagskrá námstefnunnar er enn í mótun. Í tengslum við námstefnuna mun Viviane Robinson halda þriggja klukkustunda vinnustofu fimmtudaginn 8. október (frá klukkan 13 til 16). Um 20 til 25 manns geta setið vinnustofuna. Gert er ráð fyrir að þátttakendur hafi lesið bók Robinson, Student Centered Leadership fyrir vinnustofuna.
Námstefna, vinnustofa og ársfundur fara fram á Icelandair-hóteli í Reykjanesbæ. Dagskrá og upplýsingar um skráningu verða send út um miðjan júní. 
Takið dagana frá, ekki missa af þessu tækifæri. 
Bloggað um daglegt starf skólastjórnenda
Á blogginu Connected Principals  er að finna færslur sem mennta- og skólastjórnendur hafa sett saman um hin ýmsu málefni sem snerta störf þeirra. Rúmlega sjötíu manns eru skráð fyrir skrifunum og því hægt að ganga að því sem vísu að á síðunni sé að finna margvíslegt efni, séð frá ólíkum sjónarhornum. Nýjar færslur koma inn nær daglega. 
Því til viðbótar þá er áhugavert að þarna birtast skrif um daglegt starf í skólastjórnun og markmið hópsins er að deila því sem virkar í störfum þeirra til samstarfsmanna hvar sem er í heiminum. Enda eru einkunnarorð síðunnar sharing, learning, leading og að sögn stjórnenda síðunnar  hafa bloggararnir allir sama markmið í menntamálum; að vinna að því sem er best fyrir nemendur. 
Hægt er að gerast áskrifandi að uppfærslum á síðunni og fá greinarnar sendar í tölvupósti um leið og þær eru birtar eða fylgjast með síðunni á samskiptamiðlinum Twitter undir nafninu @conprin.  
Skólavarðan komin út
Skólavarðan er á rafrænu formi og hægt að lesa hana á netinu eða með því að sækja smáforrit fyrir spjaldtölvur og snjallsíma sem er að finna vefsíðum  Apple eða Google Play. 
Skólastjórafélag Íslands
Kennarahúsinu, Laufásvegi 81
101 Reykjavík
Sími 595 1111. 

© 2015 Kennarasamband Íslands. Allur réttur áskilinn. 
Þú ert skráð/ur á póstlista Kennarasambands Íslands. 

Afskrá mig af þessum lista    Uppfæra upplýsingar