Copy
Fréttir og upplýsingar frá Álftanesskóla.
22. árgangur 3. tbl - júní 2015

Kæru foreldrar

Ágætu foreldrar/forráðamenn nemenda í Álftanesskóla.

 
Nú fer skólaárinu senn að ljúka og styttist í sumarleyfi nemenda. Í vetur voru 442 nemendur í Álftanesskóla í 1. - 10. bekk og áætlað er að á næsti skólaári 2015 - 2016 verði nemendur um 450.
Nemendur og kennarar leggja nú lokahönd á verkefni og vinnu þessa skólaárs og framundan eru vorferðir árganga ásamt Vorleikunum. En þeir verða haldnir þriðjudaginn 9. júní.
Skólaslit Álftanesskóla verða þriðjudaginn 9. júní hjá 10. bekk og miðvikudaginn 9. júní hjá 1. - 9. bekk (sjá nánari tímasetningar hér að neðan).
 

 

Skólaslit Álftanesskóla 2015

Nemendur skólans mæta til skólaslita eftir árgöngum.

10. bekkur þriðjudaginn 9. júní kl. 17:00 í hátíðarsal skólans.

Miðvikudaginn 10. júní í íþróttasal íþróttamiðstöðvar:
4., 5. og 6. bekkur kl. 9:00 - 10:00
7., 8. og 9. bekkur kl. 10:00 - 11:00
1., 2. og 3. bekkur kl. 11:00 - 12:00

Að loknum skólaslitum í 1. - 9. bekk fara nemendur og foreldrar með umsjónarkennara í heimastofu og fá afhentan vitnisburð skólaársins og kveðju.
 

 

Húsnæðismál Álftanesskóla

Í janúar fól bæjarráð fræðslu- og menningarsviði að skoða aðstöðu húsnæðismála fyrir Álftanesskóla og íþróttaaðstöðu ungmennafélagsins. Arkitektinn Einar Ingimarsson var fenginn til að skoða starfsemina með það í huga að nýta sem best það húsnæði sem fyrir er og koma með tillögur að breytingum. Niðurstaða arkitekts var sú að ekki er mögulegt að koma núverandi starfsemi fyrir á viðunandi hátt og það sé fyrirséð að byggja þurfi við skólann. Brýn nauðsyn er einnig á að bæta úr aðstöðu Frístundar tómstundaheimils sem fyrst.

Á bæjarráðsfundi þann 12. maí
síðastliðinn var samþykkt að unnið
verði að framkvæmdum við gervigrasvöll
á Álftanesi eins og gert er ráð fyrir í
fjárhagsáætlun ásamt því að vinna að
viðhaldi Álftanesskóla samkvæmt
áætlun ársins 2015.
 
Bæjarráð samþykkti að áfram verði
unnið að greiningu og skoðun á
húsnæðismálum skólans sem komi til nánari skoðunar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016. Mjög mikilvægt er að allri vinnu við viðbyggingu Álftanesskóla verði hraðað sem mest hvort heldur er aðstaða skólastarfs eða tómstundaheimilis.
 

Vorleikar

Vorleikarnir verða haldnir þriðjudaginn 9. júní en þá er nemendum skipt í hópa og eru í stöðvavinnu tengdri hreyfingu um alla skólalóðina. Skóli er samkvæmt stundaskrá þennan dag en þar sem um útidag er að ræða er mikilvægt að nemendur klæði sig eftir veðri.
 

Meistarakokkar (MasterChef) í heimilisfræðivali

Nemendur í heimilisfræðivali tóku þátt í meistarakokki eða MasterChef Álftanesskóla á dögunum. Nemendur fengu ákveðin hráefni frá kennara sem var uppistaðan en annars fengu þeir frjálsar hendur til þess að skapa réttina sína. Heimilisfræðivalhóparnir þessa önnina eru þrír og voru meistarakokkar hvers hóps krýndir.
Sigurvegarar í mánudagshópnum voru Anna Bríet og Aþena Lind en þær gerðu pastarétt með hvítlauksbrauði og súkkulaðihúðuðum jarðaberjum í eftirrétt.

Sigurvegarar þriðjudagshópsins voru Bríet Eva, Katrín Birta og Ragnheiður Elsa en þær gerðu kjúklingarétt með pepperóníbrauði og vanillugraut í eftirrétt.

Meistarakokkar miðvikudagsins voru Aron Björn og Kristján Ingi sem gerðu pasta í sósu og súkkulaðihúðaða banana í eftirrétt.

Sérstaka viðurkenningu fengu Aníta Björt og Íris Eik fyrir frumlega samsetningu og framsetningu.

Það er greinilegt að meðal nemenda skólans leynast sælkerakokkar framtíðarinnar!


Margæsardagurinn

Margæsardagurinn var 11. maí síðastliðinn, en eins og flestir vita á margæsin viðkomu á túnunum hér á Álftanesi á leið sinni yfir hafið frá Írlandi til varpstöðva í Kanada. Á þessum degi er hefðbundin kennsla gjarnan brotin upp og nemendur vinna ýmis verkefni tengd margæsinni. Ýmist fræðast þeir um hana í skólanum og vinna eða föndra verkefni tengd henni eða fara í gönguferðir um Álftanesið í von um að koma auga á margæsir.


Unglistaleikarnir

Unglistaleikarnir voru haldnir í lok apríl og var þema leikanna í ár Barnasáttmálinn. Nemendum var skipt upp í hópa sem innihéldu vinabekki. 12 vinnustöðvar voru víðs vegar um skólann og voru verkefni stöðvanna tengdar ákvæðum úr sáttmálanum. Unnið var með hópefli, tjáningu, hreyfingu, heilsuvernd, slökun og margt fleira. Meðal annars smíðuðu nemendur sjálfsmyndir, bjuggu til vegabréf, saumuðu laufblöð á tré, byggðu hús og sungu og dönsuðu.

Unglistaleikarnir heppnuðust einstaklega vel í ár og voru allir sáttir bæði kennarar og nemendur.
Fleiri myndir má finna í myndasafninu á heimasíðu skólans.


Skóladagatal 2015 - 2016

Skólasetning skólaársins 2015 - 2016 verður þriðjudaginn 25. ágúst og kennsla hefst samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 26. ágúst. Skóladagatalið er komið á heimasíðu skólans, bæði á forsíðu og undir flipanum Skólinn - Skóladagatal.

Skólastjórnendur þakka nemendum, foreldrum, starfsfólki skólans og öðru samstarfsfólki gjöfult starf á liðnu skólaári.

Gleðilegt sumar.

 

Á döfinni

Þriðjudaginn 9. júní Vorleikarnir
Þriðjudaginn 9. júní skólaslit í 10. bekk í hátíðarsalnum kl. 17:00
Miðvikudaginn 10. júní skólaslit í 1.-9. bekk í íþróttasalnum.
Þriðjudaginn 25. ágúst skólasetning
©2015 Álftanesskóli
Álftanesskóli, v/ Breiðumýri, 225 Garðabær

www.alftanesskoli.is
alftanesskoli@alftanesskoli.is