Copy
2. tbl. 2015
Skoða fréttabréfið á vef

Ágætu félagsmenn FG


Spennandi vetur er nú fram undan við innleiðingu á vinnumati sem félagsmenn samþykktu í maí síðastliðnum. Nú hafa flestir skólar hafið störf og í flestum þeirra virðist innleiðingin ganga vel. Eins og gengur hafa komið upp hnökrar og sums staðar hafa vaknað spurningar um hvort nægjanlegt samráð hafi verið til staðar. Í flestum skólum hefur verið tekin sameiginleg ákvörðun um heildarviðveru kennarahópsins en mismunandi leiðir eru farnar að því marki.

Gæsla

Enn er nokkuð rætt um gæslu, hvort og hvernig eigi að sinna henni. Í kjarasamningum segir þetta:

2.3.10 Gæsla nemenda
Skólastjóri getur, í samráði við kennara, falið honum gæslu nemenda s.s í frímínútum og hádegishléi og telst sá tími til annarra starfa innan B þáttar. Ef ekki er svigrúm hjá kennara til að sinna gæslu þá er heimilt að greiða yfirvinnu fyrir þann tíma enda lengist dagleg viðvera sem því nemur. Ef gæslu er sinnt á tíma sem ætlaður er til kaffi- eða matartíma kennara er greidd yfirvinna sbr. grein 3.1.5.


Ef kennarar sinna gæslu í sínum matartíma er alltaf greidd fyrir það yfirvinna eins og verið hefur. Eins og oft hefur komið fram, m.a. í fjölmiðlum nýlega, geta kennarar tekið að sér gæslu í B-hluta án greiðslu ef þeir hafa tíma og samþykkja það. Enginn verður skipaður í gæslu og verður að vera um það samkomulag milli kennara og skólastjóra.

Gæslumálin voru til umfjöllunar á 45. fundi samstarfsnefndar FG og SNS þar sem komist var að eftirfarandi niðurstöðu; kennarar geta hafnað því að taka að sér gæslu með málefnalegum rökum. Málefnaleg rök geta verið mismunandi eftir einstaklingum og skólum. Samstarfsnefnd áréttar að mikilvægt er að hafa raunverulegt samráð um þau verkefni sem kennarar taka að sér samkvæmt kjarasamningi. Samstarfsnefnd mælir með því við stjórnendur og kennara að í umræðu innan skólanna sé í hvívetna stuðst við svör verkefnisstjórnar um vinnumat.

Á næstu mánuðum munu kostir og gallar vinnumatsins koma í ljós og mun samninganefnd og svæðaformenn félagsins í samráði við trúnaðarmenn og kennara afla upplýsinga um það sem betur má fara. Agnúana verður svo að semja um fyrir maílok 2016 þegar kjarasamningurinn losnar.
 

Launabreytingar

Hagfræðingur Kennarasambandsins hefur áætlað hvernig dagvinnulaun félagsmanna FG hafa breyst á síðustu mánuðum í kjölfar samningsins. Um er að ræða dagvinnulaun úr launakerfum í Reykjavík og á Akureyri þar sem við höfum bestan aðgang að upplýsingum. Samkvæmt þessari skoðun voru meðaldagvinnulaun félagsmanna FG um 366.000 krónur fyrir gildistöku nýs samnings en höfðu tekið breytingum sem nema 29% í maí 2015 (ári eftir að samningurinn tók gildi) og eru nú í maí um 472.000.

Meðaldagvinnulaun félagsmanna hafa því breyst um 29% á einu ári. Algengasta starfsheitið okkar er umsjónarkennari og algengasti „kennarinn okkar“ er umsjónarkennari sem hefur afsalað sér kennsluaflsætti, er með meira en 15 ára starfsreynslu og fær 1 til 3 flokka vegna menntunar. Þessi kennari er í dag með í dagvinnulaun á bilinu 494.217  – 521.453 krónur.
 

Reiknivél

Á vef Kennarasambandsins má finna launareiknivél og þar má setja inn forsendur og kanna hver launin eru og hvort viðkomandi hafi verið raðað rétt til launa. Slóðin á reiknivélina er:
http://ki.is/adildarfelog/felag-grunnskolakennara/calculator

Skráning á vinnutíma

Hagfræðingur Kennarasambandsins hefur að ósk félagsins búið til excel-skjal þar sem félagsmenn geta sett inn vinnu sína ef þeir kjósa. Í skjalinu er hægt að setja inn þá vinnu sem er í einstökum hólfum, A, B og C og átta sig þannig betur á vinnuframlaginu. Síðar er hægt að velja um tímabil til að skoða, dag, viku mánuði, misseri eða allt skólaárið. Í skjalinu er nokkrir flipar. Einn flipinn er innsláttarflipi, en hinir eru leiðbeiningar. Hafa ber í huga að það er algerlega undir hverjum og einum komið hvort hann kýs að nota þetta eða ekki. Skjalið berst félagsmönnum í tölvupósti.
 

Sameiginlegur fundur FG og SÍ

Stjórnir, samninganefndir og skólamálanefndir Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands héldu samstarfsfund 14. ágúst síðastliðinn þar sem farið var yfir stöðuna varðandi innleiðingu vinnumats í skólum. Hulda Dóra Styrmisdóttir kom og fjallaði um innleiðingu á breytingum í vinnu fólks almennt auk þess að fjalla um vinnumatið. Í kjölfarið unnu fundarmenn svo verkefni og ræddu m.a. um stöðu innleiðingar vinnumatsins í skólunum.

Það er ljóst að breytingar taka á og það er alltaf erfitt að tileinka sér nýjungar. Menn vita hvað þeir hafa haft en ekki ljóst að öllu leyti hvað kemur í staðinn. Einnig takast á hagsmunir einstaklinga og hópa sem geta valdið togstreitu á vinnustöðum. Andstaða og mótþrói eru þekkt fyrirbæri þegar nýjungar eru innleiddar en geta um leið veitt mikilvægar upplýsingar um það sem betur má fara. Það er mikilvægt að vera meðvitaður um alla þessa hluti en alls ekki gleyma því sem er jákvætt og tekst vel. Þannig safnast upp reynsla og þekking á því sem vel hefur tekist og því sem þarf að laga.

Félag grunnskólakennara
Kennarahúsinu, Laufásvegi 81
101 Reykjavík
Sími 595 1111.

© |2015 |Kennarasamband Íslands. Allur réttur áskilinn.
Þú ert skráður á póstlista Kennarasambands Íslands.

Ábyrgðarmaður. Ólafur Loftsson, olafur@ki.is