Copy
   5. tbl. 2015
Heilir og sælir ágætu félagar

Skólabyrjun þetta árið fer af stað með hvelli og mikilli umræðu um vinnumat og læsi. 

Kjarasamningaviðræður eru hafnar og ganga ágætlega og skriður er á viðræðum. Næstu fundir eru á miðvikudag og fimmtudag í þessari viku. Grunnur að viðræðum eru kröfur SÍ og  gerðardómur BHM og FÍH. Samninganefnd SNS telur sig ekki getað samið umfram niðurstöður gerðardómsins. 

Formaður og varaformaður SÍ áttu fund með Halldóri Halldórssyni, formanni Sambandsins, og Ingu Rún Ólafsdóttur, formanni samninganefndar Sambandsins, mánudaginn 31. ágúst. Farið var yfir stöðu kjaramála og starfsumhverfi skólastjórnenda. Við lögðum áherslu á að samið yrði sem fyrst við skólastjórnendur og laun þeirra leiðrétt til samræmis við laun kennara, annað væri vanvirða við störf skólastjórnenda. Engin loforð voru gefin en samræður voru hreinskiptar og upplýsandi.  

Með kveðju
Svanhildur

Vinnumat


Í mörgum skólum hefur náðst samstaða á milli stjórnenda og kennara um tilhögun og framkvæmd vinnumats. Þó hefur verið deilt um tilhögun gæslu í nokkrum skólum, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Vinnumatssamtölin eru misjafnlega á veg komin og skólastjórnendur vinna þau á margvíslega vegu enda á vinnumatið að spegla menningu hvers skóla. Mikilvægt er  að skólastjórnendur og trúnaðarmenn vinni saman að því að finna farveg fyrir breytt starfsumhverfi kennara og komist sameiginlega að ásættanlegri lausn í hverjum skóla, til styttri eða lengri tíma. Friður þarf að ríkja um skólastarfið og þá skólamenningu sem ríkir á hverjum stað. 

Stjórnir, samninganefndir og skólamálanefndir SÍ og FG héldu sameiginlegan fund þann 14. ágúst þar sem rætt var um vinnumatið og hvernig hægt væri að vinna í sameiningu að því að innleiða það og móta í hverjum skóla fyrir sig. Rætt var um kosti og ókosti vinnumatsins, hvert væri hlutverk FG og SÍ í innleiðingunni og hvernig félögin tvö gætu sameiginlega stutt við framkvæmd vinnumatsins; hvernig ákjósanlegast væri að vinna áfram að þessum málaflokki og þróa hann til framtíðar? Ákveðið var að vinna áfram með niðurstöður þessa fundar og funda aftur í nóvember.
Skólastjórafélag Íslands gagnrýndi Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra í nýlegri ályktun. Í kjölfarið voru forsvarsmenn félagsins kallaðir á fund ráðherra. 
Ljósmynd Aðalbjörn Sigurðsson

Umræða um lestur og fundur með ráðherra


Miklar umræður hafa verið um byrjendalæsi síðustu vikur eftir að Menntamálastofnun birti niðurstöður sínar. Stjórn SÍ sendi frá sér ályktun um málið þar sem menntamálaráðherra og Menntamálastofnun voru gagnrýnd fyrir vinnubrögð og fyrir að vega að fagmennsku skólastjórnenda og kennara. 

Í kjölfarið óskaði menntamálaráðherra eftir fundi. Undirrituð og Guðlaug Sturlaugsdóttir, 
skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness, fóru til fundar við ráðherra þar sem skipst var á skoðunum. Við fórum yfir okkar sjónarmið þegar kemur að fagmennsku stjórnenda og kennara, kennsluaðferðum í læsi og mikilvægi rannsókna í skólastarfi. Fram kom í máli ráðherra að hann virðir og ber traust til fagmennsku stjórnenda og kennara. Hann telur jafnframt mikilvægt að efla rannsóknir á kennsluaðferðum og meta árangur þeirra.

Ég held við getum öll verið sammála um það og væri vel að Menntamálastofnun myndi beita sér fyrir því að byggja upp og efla rannsóknir á kennsluaðferðum og að ytra mat á skólum yrði sett í fulla framkvæmd þannig að hver skóli fengi slíkt mat á fjögurra til fimm ára fresti.

Námstefna, vinnustofa og ársfundur

  – á Reykjanesi 9. og 10. október 2015  



Meginþema námstefnu SÍ þetta árið er kennslufræðileg forysta skólastjórnenda og hvernig hún hefur áhrif á námsárangur nemenda. Til að fjalla um þetta efni höfum við fengið Viviane Robinson, prófessor við Auckland-háskóla á Nýja Sjálandi, til að halda erindi og stýra vinnustofu á námstefnunni. Hér má sjá frekari upplýsingar um Viviane Robinsson og verk hennar.

Námstefnan, vinnustofan og ársfundur SÍ verða haldin á Icelandair hótelinu í Reykjanesbæ. Dagskrá námstefnunnar má sjá hér og skráning fer fram hér.
 
Ekki missa af þessu frábæra tækifæri til að hlusta á og nema af þessum virta fræðimanni sem hefur rannsakað og birt niðurstöður um að skólastjórnendur geta með stjórnun sinni og kennslufræðilegri forystu haft áhrif á námsárangur nemenda. Er það ekki það sem við öll viljum? Mætum öll.


Námstefna Skólastjórafélags Íslands 2014 var haldin á Selfossi 10. október. Hún þótti takast afar vel.

Fleiri konur skólastjórar í grunnskólum


Hagstofan sendi okkur áhugaverða frétt um að haustið 2014 voru 108 konur starfandi skólastjórar í grunnskólum á Íslandi en voru 68 haustið 1998. Á sama tíma fækkaði körlum í skólastjórastétt um 62 og voru 63 haustið 2014. Þarna eru að verða breytingar sem við þurfum að skoða vel innan okkar félags og ræða. 

Skólastjórafélag Íslands


Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Sími 595 1111
Netfang ki@ki.is

© |2015| Kennarasamband Íslands. Allur réttur áskilinn.
Ábyrgðarmaður: Svanhildur María Ólafsdóttir, svanhildur@ki.is

Þú ert skráð/ur á póstlista KÍ
Uppfræða skráningu   Afskrá mig af póstlista