Copy
6. tbl. 2017

Fékk svar úr ráðuneytinu

Líffræðikennarar í framhaldsskólum landsins eiga sér fagfélag sem ber nafnið Samlíf, samtök líffræðkennara og í því eru 255 skráðir félagar. Rauða eplið hitti Hólmfríði Sigþórsdóttur, formann Samlífs og fulltrúa í skólamálanefnd FF, og lagði fyrir hana nokkrar spurningar.
 
Hvað er félagið gamalt?
Það var stofnað árið 1983, heimasíðan okkar er http://www.lifkennari.is/. Skráðir félagar í Samlíf eru á öllum skólastigum en virkastir eru kennarar í frahmhaldsskólum. 
 
Hver eru helstu baráttumál félagsins og hvað er framundan?
Baráttumál Samlífs hafa miðað að því að viðhalda líffræðikennslu í skólum landsins. Félagið hefur sent fjölmargar ályktanir þess efnis til ráðuneytisins, síðast í ágúst 2016 um stöðu raungreina eftir styttinguna(sjá hér) og ber þess að geta að svar barst frá ráðuneytinu um að erindi væri móttekið! Einnig hefur félagið mótmælt niðurfellingu ráðuneytisins á rekstrarstyrkjum til faggreinafélaga og telur þá ákvörðun draga úr virkni félaganna og m.a. útiloka þátttöku félagsfólks af landsbyggðinni til stjórnarsetu (sjá hér). Samlíf styður höfunda námsefnis sem til félagsins leita og hefur ítrekað tekið þátt í umræðum sem tengjast námsbókaútgáfu og námsefnisgerð á framhaldsskólastigi. Mikil vöntun er á nýju námsefni og hvetur félagið til útgáfu á íslensku efni til að viðhalda sértækum orðaforða í faginu; eitt að markmiðum áfanga sem nemendur í íslenskum framhaldsskólum taka er að þjálfa þá í að lesa sér til gagns og skilja almenna umfjöllun í fjölmiðlum sem tengjast líffræði. 
 
Hvað leggur þú áherslu á í þinni formennsku?
Ég reyni eftir fremsta megni að halda áfram því góða starfi sem forverar mínir sinntu og tryggja áframhaldandi virkni félagsins, til dæmis með því að fá áhugaverð fræðsluerindi og skipuleggja fjölbreytt sumarnámskeið. Áherslan er á símenntun félagsfólks. Ég reyni að virkja félagsfólk og nú sitja t.d. fulltrúar félagsins í undirbúningshópi fyrir málþing um náttúrufræðimenntun sem fyrirhugað er í lok mars og innan stjórnar Samlífs er vinnuhópur sem skipuleggur landskeppni í líffræði og þátttöku Íslendinga á Ólympíuleikunum í líffræði. Ég og gjaldkeri félagsins, Rúna Björk Smáradóttir, höfum sótt árlegar ráðstefnur breskra raungreinakennarasamtaka (The Association for Science Education) í janúar tvö síðastliðin ár. Í framhaldi af því munum við að miðla upplýsingum áfram til félagsfólks um nýjar rannsóknarniðurstöður, nýja tækni til kennslu og annað sem okkur finnst áhugavert. Félagsfólk skiptist einnig á áhugaverðu efni í gegnum facebook-síðu félagsins.
 
Í fullkomnum heimi myndi Samlíf tryggja tengslanet félagsfólks og fagvitund með því að standa áfram fyrir áhugaverðum fræðsluerindum og sumarnámskeiðum.

Breytingar á 0,1% framlaginu
Á stjórnarfundi FF þann 30. janúar voru samþykktar breytingar fyrir árið 2017 á úthlutun framlags ríkisins til að styrkja stöðu þeirra sem starfa í umboði KÍ í framhaldsskólum. Samþykkt var að styrkja fyrirhuguð námskeið á vegum kjara- og mannauðssýslu ríkisins fyrir félagsmenn opinberra stéttarfélaga sem sitja í samstarfsnefndum. Áætlaður kostnaður er um 5 milljónir.
Eftir námskeiðin þarf að endurskoða alla stofnanasamninga sem félagsmenn eiga aðild að. Endurskoðun kostar bæði tíma og fyrirhöfn var samþykkt þóknun til þeirra sem sitja í samstarfsnefnd, kr. 100.000, sem er greidd þegar undirritaðir stofnanasamningar liggja fyrir og hafa borist félaginu. Ákveði félagsdeild að fleiri en tveir félagsmenn taki þátt í þessari vinnu skipta þeir hlutfallslega með sér 200.000 kr. Má gera ráð fyrir að þessar greiðslur verði 6,2 milljónir á árinu miðað við 31 félagsdeild.
Á sama fundi var samþykkt að halda í haust aftur námskeið fyrir trúnaðarfólk félagsins. Kostnaður við það er um 2,5 milljónir. Áfram er gert ráð fyrir að á grundvelli bókunarinnar muni félagið kosta námskeið í samningatækni, stjórnsýslu og mannauðsfræðum fyrir samninganefnd félagsins og mun kostnaður miðast við framboð og þátttöku líkt og fyrri misseri. Þá var samþykkt að kosta námskeið fyrir þá sem sitja í skólamálanefnd FF. Að lokum var samþykkt að útbúa fræðsluefni og halda upplýsingarfundi fyrir kennara sem eru nýir í starfi. Kostnaður við þetta er u.þ.b. ein milljón. Samtals má gera ráð fyrir útgjöldum á bilinu 15-16 milljónir á árinu 2017.

Hér er bókun 1 í kjarasamningi Félags framhaldsskólakennara og samninganefndar ríkisins:

Aðilar eru sammála um að 0,1% iðgjald til mennta- og fræðslusjóða sem um getur í
samkomulagi aðila um breytingar á kjarasamningum vegna ríkisrekinna framhaldsskóla 15. febrúar 2013 verði nýtt til að stuðla að aukinni þekkingu um mannauðsmál og til að styrkja stöðu þeirra sem starfa í umboði Kennarasambands Íslands í framhaldsskólum. Aðilar eru sammála um að iðgjaldið verði reiknað af heildarlaunum félagsmanna Kennarasambands Íslands í ríkisreknum framhaldsskólum og það lagt á sérstakan biðreikning frá og með 1. mars 2014. Framlagið skal millifært, samkvæmt samkomulagi aðila, til Kennarasambands Íslands frá og með 1. ágúst 2014.

Trúnaðarmannafundur FF

Trúnaðarmannafundur FF var ágætlega sóttur og þótti gagnlegur. Á dagskrá voru stutt erindi um hagnýt mál en síðan var tími til umræðna um það helsta sem trúnaðarmönnum lá á hjarta. Hafdís Dögg Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá KÍ, fór yfir hlutverk trúnaðarmanna í eineltismálum en samkvæmt rannsóknum má ætla að um 10% kennara upplifi einhvers konar einelti á vinnustað. Oddur S. Jakobsson, hagfræðingur KÍ, fór yfir samningsumhverfi og launaþróun eins og hún birtist í sérkeyrslu Hagstofunnar frá febrúar 2017. Fram kom m.a. að yfirvinna sem hlutfall af dagvinnu virðist lítið hafa breyst eftir tilkomu vinnumats miðað við gögn sem ná fram til vors 2016.

Guðríður formaður sagði frá því helsta sem er á borði FF þessa dagana, s.s. tímabundnar ráðningar, forfallakennslu og mismunandi útfærslur á skóladagatali. Spurt var hvort einhverjir fjármunir fylgdu því að endurskoða stofnanasamninga en það er ekki svo gott, hins vegar er ekki hægt að skorast undan því að taka þátt í fyrirhuguðu fræðsluátaki kjara- og mannauðssýslu ríkisins og ljóst að sitthvað þarf að uppfæra í samningunum síðan vinnumatið kom.

Trúnaðarmenn sögðu síðan frá því helsta sem er í gangi á þeirra vinnustað og lögðu spurningar fyrir formann, stjórn og samninganefnd. Ritari stjórnar FF tók niður helstu punkta frá fundinum og verða þeir birtir fljótlega. Spurt var m.a. um stöðuna í lífeyrismálum en verið að skoða hana í samstarfi nokkurra stéttarfélaga. Allmikill ágreiningur hefur risið varðandi skóladagatal í sumum skólum vegna skila milli námsmats og kennslu. Bókun 2 stendur óhögguð, kennarar eiga að hafa svigrúm til að sinna námsmati innan dagvinnutíma. Nefnt var að skilgreiningar á verk- og bóklegum áföngum séu ekki í lagi og þurfi að taka þær upp í viðræðunum við ríkið. Rætt var um viðhorfskönnunina sem var lokað að kröfu skólameistara á föstudaginn var og hefur formaður sent bréf þar sem farið er fram á að kennslukannanir sem lagðar eru fyrir í flestum framhaldsskólum verði settar í salt. Fleira var reifað enda margt sem mæðir á trúnaðarmönnum.

Menntaskólinn að Laugarvatni
Gerður var góður rómur að fundinum á Hótel Sögu

Kjaramoli

Ef forfallakennsla nær yfir lengri tíma en eina viku, eiga félagsmenn rétt á að kennslan verði reiknuð út í vinnumati, samkvæmt grein 1.5.5. í gildandi kjarasamningi.

Þá er ekki einungis greitt fyrir kenndar stundir heldur umfang áfangans í heild, þar með talið heimavinnu, undirbúning og prófagerð. Er kjarabót að þessu ákvæði því áfangi sem kenndur er í forföllum bætist væntanlega við yfirvinnu.  

Ársfundur NLS

Tveir fulltrúar fara á vegum Félags framhaldsskólakennara á ársfund Nordiska Lärerorganisationers Samråd, NLS, dagana 22.-25. mars. Anna María Gunnarsdóttir og Steinunn Inga Óttarsdóttir sækja fund Norrænu kennarasamtakanna að þessu sinni en hann er haldinn í Stokkhólmi. Þema fundarins í ár er upplýsingatækni og nýbúakennsla. Í fyrra birtist gott viðtal í Skólavörðunni við framkvæmdastjóra NLS, Anders Rusk, sjá hér.

Krákan, félag kennara við Kvennaskólann í Reykjavík


Félag kennara við Kvennaskólann í Reykjavík heitir Krákan. Í lok febrúar hittu stjórn Krákunnar og trúnaðarmaður skólans félagsmenn í almennu spjalli um hvaðeina sem snertir kjaramál og vinnuaðstæður í Kvennaskólanum. Fundirnir voru deildaskiptir og stóðu frá klukkan 9:00 til klukkan 12:45. FF fékk senda samantekt með helstu punktum sem Krákan vill koma á framfæri og verður hún tekin fyrir á næsta fundi samninganefndar, 22. mars.

Mynd af heimasíðu Kvennaskólans




Félag framhaldsskólakennara
Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Netfang: ki@ki.is
Höfundarréttur © 2017 Félag framhaldsskólakennara.
Allur réttur áskilinn.


Uppfæra upplýsingar eða afskrá