Copy
Fréttir og upplýsingar frá Álftanesskóla.
24. árgangur 2. tbl - mars 2017

Kæru foreldrar

Ágætu foreldrar/forráðamenn nemenda í Álftanesskóla.

 
Nú eru dagar farnir að lengjast og vorið á næsta leiti. Námsviðtöl vorannar eru nýafstaðin.
Nemendur í 7. bekk og umsjónarkennarar þeirra dvöldu vikuna 6. - 10. mars í skólabúðum Reykjaskóla í Hrútafirði.
Nemendur í 9. bekk fóru svo vikuna á eftir 13. - 17. mars með umsjónarkennurum sínum í Ungmenna- og tómstundabúðirnar að Laugum í Sælingsdal.

Framundan á vorönninni er meðal annars nemendaþing, skíðaferð í 5. - 10.bekk, páskaleyfi nemenda og Unglistaleikar.
 


Stóra upplestrarkeppnin


Stóra upplestrarkeppnin fór fram í síðustu viku við skemmtilega athöfn. Öllum þátttakendum var afhent viðurkenningarskjal ásamt rós að upplestri loknum en fulltrúar skólans árið 2017 eru þær Valgerður Eyja Eyþórsdóttir, Helga Sigríður Kolbeins og varamaður er Lilja Dögg Jóhannsdóttir.

Lokahátíðin fer svo fram í Garðabæ 23. mars n.k. þar sem fulltrúar allra skóla keppna.



Kærleiksverkefni í 4. bekk

Á Jóla- og góðgerðadeginum þann 26. nóvember síðastliðinn var 4. bekkur með sitt árlega Lukkuhjól þar sem safnað er til góðgerðamála og alls söfnuðust 80.000 kr.

Að þessu sinni völdu nemendur að styrkja Krabbameinsfélagið um 40.000 kr. og Barnaspítala Hringsins um 40.000 kr.


Öskudagur

Mikil gleði og gaman var á öskudaginn en nemendur komu skrautlegir til fara í skólann og mátti sjá hinar ýmsu furðuverur. Eins og hefð er hjá okkur hér í skólanum þá var skemmtileg dagskrá í Íþróttamiðstöðinni þar sem kötturinn var sleginn úr tunnunni og nemendur gátu leikið sér í risarólu, hoppköstulum, bandý og fleiru skemmtilegu.

Hér að neðan má sá nokkrar myndir frá litríkum öskudegi en í myndasafni á heimasíðu skólans www.alftanesskoli.is má sjá fleiri myndir.



Brúum bilið - samstarf leik- og grunnskóla


Gott samstarf á sér stað milli leik- og grunnskóla hér á Álftanesi þ.e. Náttúruleikskólans Krakkakots og Heilsuleikskólans Holtakots og Álftanesskóla. Haldnir eru reglulegir fundir með leikskólakennurum beggja leikskóla ásamt tengilið Álftanesskóla. Leikskólabörnin koma í reglulegar heimsóknir yfir veturinn m.a. í myndmennt, íþróttir, tónmennt, heimilisfræði og til 1. bekkjarkennara. Jafnframt fá leikskólabörnin að kynnast matsal og Frístund.
http://www.clipartkid.com/images/10/school-apple-clip-art-clipart-panda-free-clipart-images-mpei0P-clipart.png
 
Tvisvar á vetri heimsækir 1. bekkur leikskólann sinn, leikskólana Krakkakot og Holtakot hér á Álftanesi. Markmiðið þessarar samvinnu er að skapa samfellu í námi og kennslu barna/nemenda á þessum tveimur skólastigum og stuðla að vellíðan og öryggi barna við að fara úr leikskóla í grunnskóla.


Nemendaþing

Nemendaþing Álftanesskóla verður haldið í fjórða sinn þriðjudaginn 28. mars. Nemendur úr 8. - 10. bekk sem eru í félagsmálavali skólans skipuleggja, setja upp og stjórna samræðuhópum undir verkstjórn Siggu Lísu kennara síns.

Þingið verður haldið í Íþróttamiðstöðinni með nemendum í 5. - 10. bekk.


Skíðaferð hjá 5. - 10. bekk

Stefnt er að því að fara í skíðaferð með 5. - 10. bekk þriðjudaginn 4. apríl ef færð og veður leyfir. Nánar auglýst síðar.


Skóladagatal 2017 - 2018

Skóladagatal 2017 - 2018 fyrir grunnskóla Garðabæjar var afgreitt á skólanefndarfundi Garðabæjar 15. febrúar sl. Dagsetningar fyrir samræmd könnunarpróf Menntamálastofnunnar í 4., 7., og 9. bekk verða birtar á skóladagatalinu þegar þær hafa borist skólanum.
Skóladagatalið má finna á heimasíðu skólans www.alftanesskoli.is


Páskaleyfi

Páskaleyfi nemenda er frá mánudeginum 10. apríl til 17. apríl.
Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 18. apríl. 


Á döfinni


Vikuna 13. til 17. mars 9. bekkur dvelur í skólabúðum að Laugum
Þriðjudaginn 28. mars Nemendaþing
Þriðjudaginn 4. apríl Skíðaferð hjá 5. - 10. bekk (ef færð og veður leyfir)
Dagana 10. til 17. apríl Páskaleyfi
Dagana 27. og 29. apríl UngListaleikar
Miðvikudaginn 10. maí Margæsadagurinn
Föstudaginn 26. maí Skipulagsdagur

 
©2017 Álftanesskóli
Álftanesskóli, v/ Breiðumýri, 225 Garðabær

www.alftanesskoli.is
alftanesskoli@alftanesskoli.is






This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Álftanesskóli · Breiðumýri · Gardabaer 225 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp