Copy
7. tbl. 2017

Formannskjör 2018


Formaður KÍ, Þórður Hjaltested, tilkynnti við lok ársfundar KÍ, miðvikudaginn 29. mars, að hann hygðist ekki bjóða sig fram til formanns á næsta kjörtímabili. 
Þórður hefur verið formaður frá 2011 og þar áður varaformaður Félags grunnskólakennara. 
 

Fögur fyrirheit um launajöfnun

Formaður FF kallaði eftir efndum á fyrirheitum um jöfnun launa á milli markaða í grein sem birtist í Fréttablaðinu, fimmtudaginn 30. mars. Þar er eftirfarandi spurningum varpað til forystu menntamála á Íslandi:

Eru ríki og sveitarfélög að vinna aðgerðaráætlun um fyrirhugaðar launahækkanir starfsmanna ríkis- og sveitarfélaga?

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að ríki og sveitarfélög nái sér í nauðsynlega tekjustofna til þess að standa straum af kostnaðarauka ríkis og sveitarfélaga vegna fyrirhugaðra launahækkana opinberra starfsmanna?

Fari svo að ASÍ setji sig upp á móti því að opinberir starfsmenn hækki í launum umfram aðila á almennum markaði á grundvelli SALEK-samkomulagsins, mun ríkisstjórn Íslands og forysta sveitarfélaga í landinu halda sínu striki til að efna þau fyrirheit sem fylgdu lagabreytingunni í desember 2016?

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur ramma um launaþróun á næstu misserum svo efna megi loforðin um launajöfnun?

Svör óskast.

Ársfundur KÍ 2017 - „Þetta er ekki flókið“

Um eitthundrað kjörnir fulltrúar aðildarfélaga KÍ sátu ársfund síðastliðinn miðvikudag. Þar voru í pallborði hæstráðendur í menntamálum, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Mennta- og menningarmálaráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík svöruðu meðal annarra fyrirspurnum um það hvað væri líklegast til að efla nýliðun í kennarastétt og auka virðingu fyrir kennarastarfinu. Guðríður, formaður FF, talaði tæpitungulaust um þetta efni á Bylgjunni í morgun: „Þetta er ekki flókið. Til þess að fá fólk í kennslu þarf að hækka launin.“ Á fundinum voru lífeyrismál einnig rædd og sagði formaður KÍ að þar hefði orðið forsendubrestur og erfitt væri að treysta stjórnvöldum framvegis.

Hagfræðingur og lögfræðingur KÍ fóru yfir þau atriði sem breytast eða haldast varðandi kjör félagsmanna. Þá var rætt um kennaranám og minnkaði aðsókn sem hugsanlega má auka með styrkjum, hugmynd kom fram um sama leyfisbréf á öllum skólastigum, fagráð sem nýr ráðherra vill styðja með ráðum og dáð, húsnæði KÍ sem er komið á viðhaldstíma, starfsþróun og endurmenntun sem sífellt minni tími er til að sinna og um sjóði KÍ en alls bárust um 16500 umsóknir í sjóðina 2016, þar af tæplega 2100 í Vísindasjóð FF og FS.

Að lokum var samþykkt ályktun þar sem Alþingi er gagnrýnt harðlega fyrir að samþykkja frumvarpið gegn vilja bandalaga opinberra starfsmanna og undirstrikað að lögmæti nýrra laga um LSR verði kannað og látið á þau reyna fyrir dómi.

Hér má sjá, ársskýrslu, ársreikninga og fleiri gögn fundarins, 

Menntaskólinn að Laugarvatni
Myndir frá ársfundinum eru á Facebooksíðu FF, einnig var tíst frá fundinum #kennarasamband

Kjaramoli

Ef kennsluvikur eru fleiri en 15 í skóladagatali, skal þess gætt við gerð kennsluáætlana að í hverjum áfanga sé nægilegt rými fyrir námsmat, bæði til að leggja próf fyrir nemendur og tími án nemenda þar sem kennari hefur svigrúm til að fara yfir próf og verkefni.

Nordiske venner 

Sitthvað fróðlegt rak á fjörur fulltrúa FF á sameiginlegum fundi með Norrænu kennarasamtökunum, NLS, sem  settur var á Degi norðursins, 23. mars í Stokkhólmi. Þar kom m.a. fram að norsk sveitarfélög hafa sameinast um vef fyrir námsefni á framhaldsskólastigi. Aðgangur er frír og öllum opinn. Vefurinn https://ndla.no/ er í daglegu tali kallaður NDLA og næsta víst að íslenskir framhaldsskólakennarar finna þar marga matarholuna.
Skiptar skoðanir hafa þó verið um ágæti vefsins og tekist á um hver skuli þróa nýtt námsefni og hvernig eigi að miðla því til nemenda. Einkarekin bókaforlög sem gefa út námsefni eru ósátt við að lenda í samkeppni við hið opinbera; segja efnið einsleitt og ganga að öðru námsefni dauðu.

Meira síðar.

Voðinn vís

Vakin er athygli félagsfólks á nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar um kennaraskort og skilvirkni menntunar nýrra kennara á Íslandi. Þar má finna ábendingar til stjórnvalda þar sem þau eru brýnd til aðgerða ef ekki á illa að fara fyrir samfélagið allt. Skýrsluna má finna hér.

Fyrsta reglugerðin

Nú er komin skorinorð reglugerð um menntamál frá nýjum ráðherra um starfstíma framhaldsskóla. Þar segir að árlegur starfstími nemenda skuli miðast við 180 kennslu- og námsmatsdaga. Skólameistari ákveður, að höfðu samráði við skólaráð og kennarafund, skiptingu milli kennslu og námsmatsdaga ásamt upphafi og lokum skólastarfs ár hvert, á bilinu 18. ágúst til 31. maí.

Sjá á vef Stjórnartíðinda.

Páskablaðið

Næsta Rauða epli kemur út
í dymbilviku, miðvikudaginn 12. apríl



Félag framhaldsskólakennara
Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Netfang: ki@ki.is
Höfundarréttur © 2017 Félag framhaldsskólakennara.
Allur réttur áskilinn.


Uppfæra upplýsingar eða afskrá