Copy
5. tbl. 2016
Skoða fréttabréfið á vef

Félagar!

Samráðshópur FSL átti saman ánægjulega daga á Bifröst þar sem við fengum „generalprufu“ af Hausti í sveitinni. Það er námskeið sem Bifröst í samvinnu við FSL býður upp á nú í lok september. Námskeiðinu er ætlað að höfða sérstaklega til stjórnendateyma leikskóla en er öllum félagsmönnum opið. Fjallað var um streitustjórnun og núvitund fyrri daginn og þjónandi forystu þann seinni. Fundarmenn voru afar ánægðir með námskeiðið og óhætt að mæla með því.

En við vorum ekki bara að læra. Við vorum líka að funda. Launuð námsleyfi voru ofarlega í huga fólks en alltof fá sveitarfélög nýta heimild í kjarasamningum til þess að veita launuð námsleyfi. Ályktun fundarins um þetta mál má sjá hér fyrir neðan. Þörf fyrir handleiðslu meðal stjórnenda var einnig mikið rædd sem og starfsþróun almennt. Hvar liggur þörfin og hvernig getur FSL stuðlað að því félagsmenn fái svigrúm og tíma til þess að sinna sinni eigin starfsþróun?

Staða leikskólastjórnenda gagnvart pólitíkinni og ráðamönnum getur oft verið flókin. Stundum verða leikskólastjórnendur að hlíta ákvörðunum sem ganga gegn fagvitund þeirra og oft getur verið erfitt að leika tveimur skjöldum þegar verja þarf ákvarðanir sem viðkomandi er ekki sjálfur sáttur við. Fundurinn ályktaði um það eins og sjá má hér fyrir neðan.

Nú hefur heldur betur hvesst í Reykjavík. Skólastjórnendum í leik- og grunnskólum er gert að skera niður jafnframt því að færa rekstrarhalla á milli ára. Allir vita að rekstarhalli í skólum myndast ekki vegna óráðsíu í rekstri heldur vegna ófyrirsjánlegra aðstæðna eða atvika sem fjárveiting dugar ekki til að mæta. Því getur verið óyfirstíganlegt að jafna hallann án þess að það komi niður á gæðum innra starfs og þjónustu. Leikskólastjórnendur í Reykjavík hafa nú fengið nóg og með samstöðu og málefnalegum málflutningi hafa þeir komið því á framfæri að við þetta sé ekki unandi.

Það sem kemur FSL í opna skjöldu er krafa um niðurskurð vegna kjarasamninga. Í svari við fyrirspurn frá félaginu til ráðamanna í Reykjavík kemur fram að hluti af kostnaði vegna kjarasamninga við FSL og FG skuli vera tekinn innan úr rekstri skólanna. Þetta er ólíðandi og aumkunarverð aðferð að semja um launahækkanir og ætlast til þess að fólk borgi sér þær sjálft með því að taka á sig aukið álag og hvað þá heldur að minnka gæði með niðurskurði. Það er aldrei of oft tekið fram að EKKERT hefur komið fram við samningaborð FSL og SNS sem mætti túlka sem svo að kostnaður vegna kjarasamninga skuli étast inn úr viðkvæmum rekstri leikskólanna. EKKERT. 

Ingibjörg Kristleifsdóttir

Stjórnendur leikskóla í Reykjavík afhentu Degi B. Eggertssyni borgarstjóra harðorða ályktun klukkan ellefu á þriðjudagsmorgun. Í ályktuninni mótmæla leikskólastjórnendur niðurskurði í leikskólum borgarinnar og kveðast ekki sjá neina leið fyrir leikskólanna til að taka á sig halla frá síðasta ári, eins og ætlast er til. Skorað er á borgaryfirvöld að endurskoða fjárveitingar til leikskólanna. 

Ályktunin í heild. Frétt MBL.is og Vísis

Rekstaraðilar hvattir til að nýta ákvæði um námsleyfi 

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á Samráðsfundi FSL sem fram fór á Bifröst 24. ágúst 2016: 
„Samráðsfundur Félags stjórnenda leikskóla hvetur rekstraraðila leikskóla til þess að nýta heimildarákvæði kjarasamninga um launað námsleyfi.
Starfsþróun leikskólastjórnenda er mikilvæg í skólastarfi .
Gæði leikskólastarfs aukast við að hafa sterka fagmenn við stjórnvölinn og starfsgleði og góð menntun stjórnenda hefur áhrif á frammistöðu og líðan nemanda þegar til lengri tíma litið.
Á samráðsfundi stjórnenda leikskóla kom fram að undanfarin ár hafa alltof fáir rekstraraðilar nýtt ákvæði í kjarasamningi SNS og FSL um launuð námsleyfi leikskólastjórnenda. Því hvetjum við rekstraraðila til að hlúa að þessum þætti og hvetja leikskólastjórnendur til þess að efla sig í starfi í launuðu námsleyfi.“

Leikskólastjórnendur séu hafðir með í ráðum

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á Samráðsfundi FSL sem fram fór á Bifröst 24. ágúst 2016:
„Samráðsfundur Félags stjórnenda leikskóla hvetur sveitarstjórnarfólk og ráðamenn í leikskólamálum til þess að nýta sér sérfræðiþekkingu leikskólastjórnenda við ákvarðanatökur um leikskólamál. 
Leikskólastjórnendur eru í daglegum tengslum við þá sem nýta leikskóla landsins, og þekkja því vel hvernig leikskólastarfi er best háttað í þágu barna, foreldra og samfélagsins alls. 
Leikskólastjórnendur stýra og bera ábyrgð á innra starfi leikskóla. Því er mikilvægt að þeir finni fyrir trausti rekstraraðila. Þetta verður best gert með því að stjórnendur leikskólanna séu með í ráðum þegar teknar eru ákvarðanir um ytri ramma leikskólanna. Þetta á ekki síst við um það er varðar þjónustustig og fyrirkomulag leikskóla, Með þessu ætti að sparast bæði tími og fyrirhöfn þegar til lengri tíma er litið.“

Umræðuhefti um stefnu hvítbókar

Skólamálaráð hefur tekið saman vönduð umræðuhefti þar sem fjallað er um stefnu Hvítbókar menntamálaráðherra á ýmsum sviðum. Umræðuheftin sem hafa litið dagsins ljós fjalla um menntamál, læsi, starfsmenntun, námstíma, kennsluhætti og námsmat
Leikskólastjórnendur eru hvattir til að kynna sér umræðuheftin og stuðla að umfjöllun um þau. Skólamálaráð fagnar ábendingum og þönkum um efni umræðuheftanna. 

 






Höldum upp á Alþjóðadag kennara

Minnum á Alþjóðadag kennara sem haldinn er hátíðlegur hér á landi sem um veröld alla 5. október. Við hvetjum skólafólk til þess að halda upp á daginn. Kennarasambandið efnir til Smásagnasamkeppni KÍ í tilefni dagsins og er keppt í fimm flokkum; á leikskólastigi, á þremur aldursstigum í grunnskólanum og svo í framhaldsskólanum. Smásagnakeppnin var haldin í fyrsta skipti í fyrra og þótti takast svo vel að ákveðið var að endurtaka leikinn. 
Dr. David Frost fjallar um margvísleg svið menntafræðilegrar forystu á Skólamálaþingi KÍ. 

Frábær fyrirlesari á Skólamálaþingi KÍ

Skólamálaráð Kennarasambands Íslands efnir til Skólamálaþings á Alþjóðadegi kennara, miðvikudaginn 5. október 2016. Þingið, sem verður haldið á Hótel Nordica og stendur frá 13 til 16, er ætlað félagsfólki KÍ, aðilum sem tengjast skólastarfi og þeim sem mennta kennara.
Á þinginu verður forysta kennara í skóla- og menntamálum í brennidepli.

Aðalfyrirlesari er dr. David Frost, prófessor við Menntavísindastofnun Háskólans í Cambridge, Englandi. Rannsóknir dr. Frost fjalla um margvísleg svið menntafræðilegrar forystu og kennslufræði en að undanförnu hefur hann lagt sérstaka áherslu á faglega forystu kennara. Á síðustu 30 árum hefur hann þróað aðferðir til að styðja við kennara sem breytingaafl í skóla- og menntamálum og þátttakendur í því að skapa og miðla faglegri þekkingu.
Félag stjórnenda leikskóla
Kennarahúsinu, Laufásvegi 81
101 Reykjavík
Sími 595 1111.

© |2016 |Kennarasamband Íslands. Allur réttur áskilinn.
Þú ert skráður á póstlista Kennarasambands Íslands.

Ábyrgðarmaður. Ingibjörg Kristleifsdóttir, inga@ki.is