Copy
Kjarafréttir til sjúkraliða
Sérðu ekki myndirnar?
Skoðaðu fréttabréfið í vafra

 

Fréttir frá Sjúkraliðafélagi Íslands



 
Mynd tekin á ferðalagi lífeyrisdeildar SLFÍ árið 2011 

 

Lífeyrismál 

S A M K O M U L A G
Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands, annars vegar,  og fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. ríkissjóðs, og Sambands íslenskra sveitarfélaga, hins vegar, um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna
 
Viðræður hafa staðið milli Bandalags háskólamanna (BHM), BSRB og Kennarasambands Íslands (KÍ), annars vegar, og fulltrúa ríkisins og sveitarfélaga, hins vegar, um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Þessar breytingar miða að samræmingu lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði, að aldurstenging réttinda verði grundvallarregla kerfisins og að lífeyristökualdur verði hækkaður í áföngum til að stuðla að sjálfbærni þess. Breytingarnar miða að því að koma á samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn.
Undirrituð, f.h. ríkis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og heildarsamtaka opinberra starfsmanna lýsa sig samþykk eftirfarandi forsendum, markmiðum og ráðstöfunum um skipan málefna  A-deilda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Brúar lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga (Brú):

Hér er hægt að nálgast samkomulagið í heild sinni 
 
 

 

Breyting á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna 

Á fundi Félagsstjórnar Sjúkraliðafélags Íslands var farið var yfir lífeyrismál og þá stöðu sem þau mál eru í nú og hvers vegna forystumenn bandalaga opinberra starfsmanna hafi fórnað ákveðnum réttindum komandi starfsmanna/líferyrisþega.
Fram kom að BSRB, KÍ og BHM hefðu komist að samkomulagi um að skerða lífeyrisréttindi þeirra sem byrja að greiða í LSR 1. janúar 2017. Fram kom að formenn Sjúkraliðafélags Íslands, Landsambands lögrelumanna, Landsambands slökkviliðs og sjúkraflutningamanna og Tollvarðafélags Íslands hefðu verið ósammála þessum samningi og bókað gegn því að samið væri um skerðingar á lífeyrisréttindum væntanlegra félagsmanna án þess að skýrt væri hverjar kjarabætur/launaleiðréttingar yrðu.
Í bókun SLFÍ kom einnig fram að ekki væri fylgt eftir ákveðnum bókunum frá 44. þingi BSRB sem vörðuðu lífeyrismál.
Stjórnarmenn óskuðu eftir að breytingarnar verði kynntar í kjarafréttum og er það gert hér með. Einnig verður umfjöllun um málið í næsta  blaði félagsins. Unnið var í ályktun frá stjórninni um málið og hún samþykkt.
Ályktunin er hægt að lesa í heild sinni hér neðar í blaðinu. 
 

 

Ályktun félagsstjórnarfundar Sjúkraliðafélags Íslands,                      13. september 2016.

Félagsstjórn Sjúkraliðafélags Íslands lýsir yfir verulegum vonbrigðum með þá aðila í forystu BSRB sem sömdu um og samþykktu gríðarlegar skerðingar á framtíðar lífeyrisréttindum A-deilda LSR og Brúar. Opinberir starfsmenn hafa í áraraðir sætt sig við lægri laun en eru á almennum vinnumarkaði í þeirri trú að verið væri að greiða fyrir betri lífeyrisréttindi til framtíðar.

Nú liggur fyrir að framtíðar lífeyrisréttindi verða skert, starfsæfin lengd og ábyrgð vinnuveitanda á sjóðnum verði afnumin, án þess að niðurstaða hafi fengist í það hvað komi í staðinn og á hvern hátt laun milli opinbera og almenna markaða verið jöfnuð.

Minnt er á samþykktir/ ályktanir 44. þings BSRB, sem formaður bandalagsins bar upp og vörðuðu lífeyrisréttindi.

  • Þingið krafðist þess að bakábyrgð launagreiðanda af lífeyrisskuldbindingum félli ekki niður af A-deild LSR og LSS.

  • Komi til þess að lífeyrisréttindi á milli markaða verði samræmd verður jafnframt að fara fram vinna við að greina launamun á milli markaða og jafna þann mun í launum.

  • Þingið fól bandalaginu að leggja áherslu á sérstöðu einstakra starfsstétta vegna álags í starfi, þannig  að þeir væru undanþegnar lengingu starfsæfinnar ef til hækkunar lífeyristökualdurs kæmi.

Fulltrúar BSRB hafa ekki fylgt þessu eftir utan tryggingu núverandi sjóðsfélaga og er slíkum vinnubrögðum og gerræði mótmælt harðlega.

Gera verður þá lágmarkskröfu til þeirra aðila sem kjörnir eru í stjórn BSRB að þeir starfi samkvæmt samþykktum / ályktunum bandalagsins og setji sig inn í þau málefni sem til umfjöllunar eru, áður en til fundarsamþykktar kemur.

Þess er krafist að öllum opinberum starfsmönnum verði kynnt staðan  og  samkomulagið verði ekki undirritað fyrr en um það hefur verði kosið í almennum kosningum opinberra starfsmanna.

 

 

Fréttatilkynning frá lífeyrissjóði sveitarfélaga  

Brú til nýrra tíma ­- Fréttatilkynning
Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga hefur fengið nýtt nafn og nýja ásýnd. Sjóðurinn heitir nú Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga og fylgir nýju nafni bæði nýtt útlit
fyrir sjóðinn og heimasíða.
Ákveðið var í kjölfar stefnumótunarvinnu stjórnar og starfsmanna sjóðsins að finna nýtt og þjálla heiti fyrir sjóðinn, nýja ásýnd og að uppfæra heimasíðu sjóðsins. Brú er lýsandi heiti fyrir lífeyrissjóð og rímar vel við hlutverk lífeyrissjóðs, að tryggja örugga afkomu sjóðfélaga sinna og létta þannig leiðina á milli æviskeiða. Brúin í merkinu endurspeglar þessa tengingu æviskeiðanna, en litirnir lýsa lífsgleði og hinum fjölbreyttu verkefnum sem sjóðfélagar sinna í samfélaginu. Þá er Brú gott heiti á sjóði, sem ávaxtar lífeyri starfsmanna sveitarfélaga um allt land og minnir á þær fjölmörgu brýr sem tengja sveitarfélögin hvort sem átt er við samgöngur eða samstarf þeirra á milli.
Ný heimasíða – www.lifbru.is og umsóknargátt
Markmið sjóðsins er að nýja heimasíðan www.lifbru.is verði upplýsandi, skilvirk og þægileg í notkun.
Brú lífeyrissjóður er 10. stærsti lífeyrissjóðurinn á landinu en hann hefur jafnframt umsjón með rekstri Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar, en heimasíður þeirra sjóða voru einnig uppfærðar af þessu tilefni.  Brú lífeyrissjóður varðveitir réttindi fyrir um 80 þúsund sjóðfélaga, en þar af eru að meðaltali 16 þúsund sjóðfélagar sem greiða mánaðarlega til sjóðsins og fjöldi lífeyrisþega er um 5 þúsund.  Hrein eign til greiðslu lífeyris í árslok 2015 var um 114 milljarðar króna.   Í árslok 2015 nam hrein eign allra þriggja framangreindra sjóða 191 milljarði króna  og fjöldi sjóðfélaga með réttindi í sjóðnum er um 97 þúsund. 
 
Frekari fyrirspurnir:
Gerður Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Brúar lífeyrissjóðs: gerdur@lifbru.is
 
Nýtt merki Brúar lífeyrissjóðs:
 


 

 



 

 

Sjúkraliðafélag Íslands
Grensásvegi 16
108 Reykjavik
© 2016, Allur réttur áskilinn.



Afskrá mig af póstlista    uppfæra mína skráningu 
 
Facebook
Vefur
Póstur