Copy
Fréttir og upplýsingar frá Álftanesskóla.
23. árgangur 7. tbl - október 2016

Kæru foreldrar

Ágætu foreldrar/forráðamenn nemenda í Álftanesskóla.

 
Nú er skólaárið farið vel af stað og allt gengur sinn vanagang hér í skólanum. Á þessu skólaári eru nemendur Álftanesskóla 438 talsins og kennarar og starfsmenn skólans rétt rúmlega 80.

Haustið er komið vel á leið með sínum litríku laufum og viljum við minna á mikilvægi þess að huga að réttum klæðnaði nú þegar veður fer kólnandi. Jafnframt viljum við minna alla á að nota endurskinsmerki í skammdeginu.

Mánudaginn 24. október er skipulagsdagur kennara og eru nemendur í fríi frá skólasókn þann dag. Sama dag eru starfsmenn Frístundar á námskeiðum og hún verður því einnig lokuð á skipulagsdaginn. Þriðjudaginn 25. október eru svo námsviðtöl haustannar en þá mæta nemendur með foreldrum/forráðamönnum í viðtal hjá kennara. Skráning í námsviðtöl fer fram á fjölskylduvef Mentor en hún hefst mánudaginn 17. október og lýkur fimmtudaginn 20. október.

 


Útivistarreglurnar



Útivistartími barna breyttist í byrjun september en á skólatíma 1. sept til 1. maí mega börn yngri en 12 ára lengst vera úti til kl. 20 og börn 13 til 16 ára lengst vera úti til kl. 22.

Hvetjum við foreldra/forráðamenn og börn til að virða settar útivistarreglur. 
 


Álftanesskóli á Facebook


Fyrir nýja foreldra/forráðamenn og nemendur þá er vert að benda á að skólinn er með fréttasíðu á Facebook en þar eru birtar helstu fréttir daglegs skólastarfs.
 
Helstu fréttir og ítarlegar upplýsingar um skólann og skólastarfið munu áfram birtast á heimasíðu skólans www.alftanesskoli.is og þar má einnig finna hlekk á Facebook síðu skólans.
 

Göngum í skólann
 

Nemendur og starfsmenn skólans tóku þátt í verkefninu „Göngum í skólann“ mánudaginn 26. sept í blíðskaparveðri. Nemendur höfðu val um að ganga eða hjóla þar sem Álftanesið er kjörið fyrir hvoru tveggja. Skólinn hefur ávallt hvatt bæði nemendur sem og fullorðna til að ganga eða hjóla í skólann en það er hluti af Grænfána- og sjálfbærniverkefnum skólans sem stuðla að heilbrigði og velferð. 

Markmið verkefnisins er meðal annars að hvetja alla til aukinnar hreyfingar, stuðla að heilbrigðum lífsstíl, draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum, auka samfélagsvitund um hversu gönguvænt umhverfið er og síðast en ekki síst til að kenna reglur um öryggi á göngu og hjóli.

 


Forvarnarvika í Garðabæ

Dagana 10. til 14. október verður í fyrsta skipti sérstök forvarnarvika í öllum grunnskólum Garðabæjar. Til hennar er efnt að frumkvæði Mannréttinda- og forvarnarnefndar Garðabæjar og Fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar og er hún hugsuð sem upphaf að góðu og öflugu forvarnar- og fræðslustarfi í Garðabæ.
Þema vikunnar er Notkun snjalltækja, svefnleysi og kvíði.
 
Tilurð forvarnarvikunnar eru m.a. niðurstöður kannana sem heita „Ungt fólk“ og lagðar eru fyrir nemendur grunnskóla í 5.-10. bekk á tveggja ára fresti. Í niðurstöðum þessara kannana kemur greinilega fram aukin og mikil tengsl þess að þau börn og unglingar sem nýta mikið/ofnota snjalltæki eru svefnlaus og meira kvíðin en þau börn sem nýta snjalltæki í hófi eða mjög lítið.

Við munum vinna ýmis verkefni í skólanum þessa viku sem falla undir þema vikunnar sem og önnur verkefni sem falla undir fjaðrir skólans um Vináttu og að allir eru einstakir. Unnið verður í anda „Uppeldis til ábyrgðar - uppbyggingar sjálfsaga sem er megin vinnuaðferð okkar í Álftanesskóla. Henni er ætlað að efla sjálfstæði og öryggi barna/unglinga, draga út togstreitu í samskiptum, byggja upp jákvæðan skólabrag og öflugan vinnustað sem hefur það að markmiði að ná sem bestum námsárangri.

Mannréttinda- og forvarnarnefnd Garðabæjar og Fræðslu- og menningarsvið Garðabæjar styrkja verkefni vikunnar m.a. með fyrirlestri á vegum þeirra og Grunnstoðar foreldrafélaga grunnskóla Garðabæjar fyrir foreldra þann 11. október næstkomandi. Jafnframt verða í boði fræðsluerindi fyrir nemendur og starfsmenn grunnskólanna í forvarnarvikunni.

Nánar um forvarnarvikuna í bréfi skólastjóra á heimasíðu skólans
www.alftanesskoli.is

 

Lesið í Nesið dagana 13. og 14. október

Þar sem hinir árlegu uppbrotsdagar „Lesið í Nesið“ lenda að þessu sinni í forvarnarviku Garðabæjar var ákveðið að tengja þema þeirra daga við þema forvarnarvikunnar: „Lesið í Nesið - snjallir dagar koma og fara“.
Nemendur vinna verkefni um samskipti með snjalltæki, ábyrgð og skyldur einstaklinga í umhverfinu og með umhverfsimál almennt. Um er að ræða skerta kennsludaga:
1. til 6. bekkur frá kl. 9:00 til 13:00 (mega mæta fyrr á bókasafn skólans)
7. til 10. bekkur frá kl. 8:15 til 12:00
 

Samræmd próf í 4. og 7. bekk

Í lok september tóku nemendur í 4. og 7. bekk í fyrsta skipti samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði á rafrænu formi. Framkvæmd prófanna tókst vel þrátt fyrir örlitla tæknilega hnökra og stóðu nemendur sig með mikilli prýði.
 

Þráðlaust net fyrir nemendur í 7. - 10. bekk

Í upphafi skólaárs fengu foreldrar/forráðamenn nemenda í 7. - 10. bekk bréf með upplýsingum og leiðbeiningum um hvernig börnin þeirra gætu fengið aðgang að þráðlausu neti á eigin tæki í skólanum. Sækja þarf um aðgang með umsókn í gegnum „Minn Garðabær“ en á heimasíðu skólans má finna frétt með nánari leiðbeiningum. 


Á döfinni


Dagana 10. til 14. okt Forvarnarvika
Dagana 13. og 14. okt Lesið í Nesið
Mánudaginn 24. okt Skipulagsdagur (ath. lokað í Frístund)
Þriðjudaginn 25. okt Námsviðtöl 

Þriðjudaginn 8. nóv Baráttudagur gegn einelti
Miðvikudaginn 16. nóv Dagur íslenskrar tungu
Dagana 17. og 18. nóv Skipulagsdagar (námsferð starfsmanna skólans til Brighton)
 
©2016 Álftanesskóli
Álftanesskóli, v/ Breiðumýri, 225 Garðabær

www.alftanesskoli.is
alftanesskoli@alftanesskoli.is






This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Álftanesskóli · Breiðumýri · Gardabaer 225 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp