Copy
5. tbl. 2016
Skoða fréttabréfið á netinu

Að gera gott betra og betra best

Svæðisþing tónlistarskóla haustið 2016

Nú hefur sannast enn einu sinni gildi þess að tónlistakennarar komi saman og ræði starfið, vonir og væntingar. Eftir síðustu hringferð með svæðisþingin hefur berlega komið fram mikilvægi þess að við berum saman bækur okkar.  

Kennarinn er uppspretta þekkingar og aldrei hægt að ofmeta framlag hans og áhrif á framtíð tónlistar í landinu. Þetta er ekki klisja. Þetta er staðreynd. Kennarar renna stoðum undir þekkingu og með því að tala saman og deila reynslu sinni vex þekkingin. Með samtalinu sjálfu skapast hvatningin sem þeir þurfa, stuðningurinn sem þeir eiga rétt á og síðast en ekki síst veitir samtalið innblástur inn í starfið. Við skiptumst á upplýsingum, gefum ráð, hugsum upp leiðir og lausnir, segjum sögur og lærum hvert af öðru. Vírusinn okkar er að gera gott betra og betra best. 

Það hefur sýnt sig að næðið sem við þurfum til að tala um hin eiginlegu markmið okkar sem tónlistarkennarar er hin eiginlega orka sem þarf að leysa úr læðingi með samtalinu. Og mikilvægt ekki síður að greina hismið frá kjarnanum þegar við viljum að starfið okkar vaxi og fagmennskan verði framlagi misvitra ráðamanna yfirsterkari.

Við fengum þannig næði til að komast að því að stéttin er samfélagslega ómissandi og urðum eiginlega sammála um að þjóðin ætti að kalla sig tónlistarþjóð ekkert síður en bókaþjóð. Gildi tónlistarskólakerfisins hefur löngu sannað sig og getið af sér orðspor sem borist hefur langt út fyrir landsteinana. Það hefur sýnt sig til dæmis í samanburði við nágrannaþjóðir okkar í Skandinavíu að við höldum betur utan um tónlistarmenntun barna okkar og við höfum því verk að vinna að standa vörð um þau gæði. Hvernig væri veröldin ef listkennsla væri talin sjálfsögð þjónusta hjá hinu opinbera? Hvað ef það væri siðferðileg skylda samfélagsins að kenna börnum list? Eða eins og ungverska tónskáldið Zoltán Kodály orðaði það:
„Aðeins það besta er nógu gott fyrir börnin.“

Samtal tveggja kynslóða þar sem gagnkvæmur skilningur og virðing ríkir milli aðila.

Ljósmyndin hér er af Ástu Dóru Finnsdóttur píanónema og Marcellu Crudeli, ítölskum konsertpíanista, en þær hittust þegar EPTA píanókennararáðstefnan var haldin hér á landi í haust og er lýsandi fyrir þau einstöku gæði sem fólgin eru í tengslum kennara og nemanda að ekki sé talað um hvatninguna sem nemandinn fær í því að hitta eina af goðsögnum píanóheimsins.  Þetta er hið eiginlega verkefni tónlistarkennarans að gera gott betra og betra best.
 
Dagrún Hjartardóttir
Íhaldsemi í bland við sveigjanleika og víðsýni

Til þess að vekja upp gagnrýna umræðu um starf tónlistarskólakennarans og til að tala um það sem mestu máli skiptir var gripið til þess ráðs að nota greiningartækið S.V.Ó.T. Skráðir hafa verið niður styrkleikar og veikleikar stéttarinnar.  Þættir sem skoða stéttina innávið. En einnig ytri þættir eins og ógnanir og tækifæri sem hafa áhrif á þroska og framþróun hennar. Yfirskriftin á þessum stutta pistli er lýsandi fyrir þau orð sem hve oftast koma fram þegar tónlistarskólakennarar eru beðnir um að lista niður styrkleika stéttarinnar. Þetta eru orðin „íhaldssemi“, „sveigjanleiki“ og „víðsýni“.
Sannarlega er tónlistarkennarastarfið oft lifandi og skemmtilegt, síbreytilegt og krefjandi.  Við, rétt eins og aðrar vinnandi stéttir, þurfum og eigum að vera í sífelldri endurskoðun. Við þurfum að vera á tánum við að fylgjast með og halda, jafnvel ríghalda, í skottið á núinu án þess að missa sjónar á meginmarkmiðunum sem virka sannarlega íhaldssöm í sívaxandi lífshraða nútímafólks.
Því betri sem við erum í því að rifja reglulega upp kosti okkar og galla, laga það sem betur má fara og vera vakandi fyrir tækifærum og ógnunum í umhverfinu, því betri verðum við í því að vinna vinnuna okkar vel og sýna okkur út á við sem fagstétt.
Þegar öllum kennaraþingum er lokið verða öll gögn skráðí eitt skjal. Að því loknu verðum við í samtali og skoðum niðurstöðuna. Verum sammála og/eða ósammála um þættina, lögum, bætum og breytum. Þetta skjal verður ekki meitlað í stein. Það verður lifandi og í sífelldri mótun.
Sigríður Aðalsteinsdóttir

Aðlaðandi starfsumhverfi tónlistarskólakennara?

Kjarasamningar tónlistarskólakennara hafa nú verið lausir í tæpt ár eða frá 1. nóvember á síðasta ári. Viðhorf sveitarstjórnarmanna til tónlistarskólakennara sem endurspeglast í launahugmyndum SNS er reiðarslag fyrir stéttina.

Í byrjun árs 2019, þegar flestir kjarasamningar sem undirritaðir hafa verið á þessu ári renna út, verður staðan þessi samkvæmt tilboði SNS: Dagvinnulaun tónlistarskólakennara fyrir fullt starf verða þá kr. 470.000 á mánuði á sama tíma og aðrir kennarar verða komnir með kr. tæp 539.000. Aðlaðandi? Sanngjarnt?
Eins og sést á myndinni hér að ofan (ath. að hægt er að smella á myndina til að sjá hana í betri upplausn) voru laun tónlistarskólakennara og umsjónarkennara svipuð á árunum fyrir hrun. Ef launahugmyndir sem boðnar hafa verið verða að veruleika má ætla að launamunur umsjónarkennara og tónlistarkennara verði nálægt 15%. Tónlistarskólakennarar telja þetta ekki ásættanlega niðrstöðu.  Þetta launabil er að mestu leyti til komið vegna þess að FT missti úr eina samningalotu hrunárið 2008 og ekki hefur tekist að leiðrétta þetta ósamræmi síðan þá. Stefna sveitarfélaga um að greiða sambærileg laun fyrir sambærileg störf virðist hafa tekið u-beygju. Skilaboð sveitarfélaga til tónlistarkennara sem birtast í þessum hugmyndum eru skýr, störfin ykkar eru ekki jafn verðmæt og störf annarra kennara.

Nótan og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna

Sinfóníuhljómsveit áhugamanna er nýr samstarfsaðili Nótunnar og bauð hún þremur atriðum frá Nótunni 2016 að koma fram á tónleikum hljómsveitarinnar á næsta starfsári í viðurkenningarskyni.
 
Tónleikarnir verða haldnir 4. desember n.k. kl. 17:00 í Seltjarnarneskirkju.
Jóhann Örn Thorarensen og Jóhanna Brynja Ruminy frá Tónskóla Sigursveins flytja konsert fyrir tvær fiðlur og strengi eftir J. S. Bach.
Klara Margrét Ívarsdóttir frá Tónlistarskóla Kópavogs flytur
píanókonsert í D-dúr eftir J. Haydn og
Anna Katrín Hálfdánardóttir frá Tónlistarskóla Garðabæjar (stundar nú nám við Tónlistarskólann í Reykjavík)  flytur
Czárdás eftir V. Monti.

Nótan 2017

Undirbúningur fyrir Nótuna 2017 er hafinn. Verið er að skipa í nefndir og ráð og verður tilkynnt um þá skipan þegar það liggur fyrir.
Eins og áður hefur komið fram verða svæðitónleikar haldnir helgina
17. - 19. mars og Lokahátíð sunnudaginn 2. apríl.
(1. apríl enn í athugun vegna óska þar um af landsbyggðinni)

Nýtt námsefni

Formaður FT í veikindaleyfi
 

Eins og fram kom á kjaramálafundinum í Gerðubergi fyrr í haust er formaður FT, Sigrún Grendal, komin í ótímabundið veikindaleyfi. Stjórn FT óskar henni góðs bata og hlakkar til að fá hana fullfríska aftur til starfa sem fyrst. Vegna sérstakra aðstæðna hjá varaformanni félagsins, Ingunni Ósk Sturludóttur, sá hún sér ekki fært á að taka við keflinu eins og lög gera ráð fyrir og því gegnir Dagrún Hjartardóttir, gjaldkeri félagsins og sérfræðingur á skrifstofu FT, stöðu starfandi formanns.
Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum
Kennarahúsinu, Laufásvegi 81
101 Reykjavík
Sími 595 1111

© |2016 |Kennarasamband Íslands. Allur réttur áskilinn.

Þú ert skráður á póstlista Kennarasambands Íslands.


Ábyrgð og umsjón:  Dagrún Hjartardóttir, dagrun@ki.is og Sigrún Grendal, sigrun@ki.is

Afskrá    Uppfæra