Copy
9. tbl. 2016.
Skoða fréttabréf á vef

SKÓLAMOLINN

„Síðustu misseri hafa stjórnendur grunnskóla Akureyrar tekið þátt í starfsþróunarverkefni á vegum miðstöðvar skólaþróunar, sem starfrækt er við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri og skóladeildar Akureyrar með það að meginmarkmiði að innleiða starfshætti lærdómssamfélags í skólana ásamt því að stuðla að frekari framþróun í skólamálum í takt við nýja aðalnámskrá grunnskóla,“ skrifar Maríanna Ragnarsdóttir, deildarstjóri og staðgengill skólastjóra Lundarskóla á Akureyri. 
Samstarfsverkefni um innleiðingu á lærdómssamfélagi:

Ávinningur í tveimur grunnskólum

Nú í upphafi 21. aldarinnar er áhersla lögð á skólasamfélag sem er í sífelldri þróun þar sem þekking á sviði uppeldis og menntunar er ávallt að aukast. Í skólasamfélagi þar sem áhersla er lögð á skóla- og starfsþróun er oft  á tíðum stuðst við hugmyndafræði lærdómssamfélags og þróun á starfsháttum í því.

Í lærdómssamfélagi er áhersla lögð á faglega forystu og stuðning stjórnenda við víðtæka framþróun í skólastarfi með nemendur, uppeldi þeirra, líðan, nám og námsframvindu þeirra að leiðarljós. Þróun skólastarfs í átt að lærdómssamfélagi getur verið flókin og krefst þess að allir sem koma að verkefninu vinni saman, þrói starfshætti sína og sýni dugnað og þor í skólastarfi. Innleiðing á lærdómssamfélagi getur tekið langan tíma. Þegar innleiðingaferlinu er lokið þarf að viðhalda þeirri lærdóms- og starfsmenningu sem hefur myndast í skólasamfélaginu. Hlúa þarf vel að menningu og gildum skólasamfélagsins, fagmönnum, nemendum, foreldrum og öllum þeim sem að skólastarfinu koma.

Síðustu misseri hafa stjórnendur grunnskóla Akureyrar tekið þátt í starfsþróunarverkefni á vegum miðstöðvar skólaþróunar, sem starfrækt er við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri og skóladeildar Akureyrar með það að meginmarkmiði að innleiða starfshætti lærdómssamfélags í skólana ásamt því að stuðla að frekari framþróun í skólamálum í takt við nýja aðalnámskrá grunnskóla. Í kjölfarið vaknaði áhugi minn sérstaklega á innleiðingu á lærdómssamfélagi í grunnskóla og þróun á slíkum starfsháttum. Samstarfsverkefnið sem um er rætt hefur verið viðamikið verkefni og taldi ég því mikilvægt að kanna ávinning af slíku verkefni. Ég nýtti til þess meistaraprófsverkefni mitt til að rannsaka gagnsemi af þátttöku í samstarfsverkefni miðstöðvar skólaþróunar og skóladeildar Akureyrar og hverju verkefnið hefur skilað inn til skólanna.

Meginspurningar rannsóknarinnar voru:
  • Hvernig hafa stjórnendur í tveimur grunnskólum nýtt sér samstarfsverkefni miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og skóladeildar Akureyrar til eigin starfsþróunar við innleiðingu á lærdómssamfélagi?
  • Hvernig hefur samstarf innan stjórnendateyma sömu grunnskóla eflt stjórnendur sem forystumenn í skóla- og starfsþróun í sínum skólum til að færa skólasamfélagið í átt að lærdómssamfélagi?
  • Hvar eru skólarnir staddir í þróunarferlinu í átt til lærdómssamfélags?
Við rannsóknina var notuð eigindleg aðferð, tilviksrannsókn, þar sem skoðuð voru tvö tilvik sem voru tveir grunnskólar á Akureyri. Þátttakendur rannsóknarinnar voru skólastjórar úr tveimur grunnskólum á Akureyri, tveir deildarstjórar úr hvorum skóla og rýnihópur kennara. Úrtakið var tilgangsúrtak þar sem þátttakendur féllu vel að markmiðum, tilgangi rannsóknarinnar og höfðu þekkingu og reynslu sem sóst var eftir. Gagnaöflun var í formi viðtala, gerðar voru vettvangsathuganir, skjalagreiningar og einnig voru matslistar lagðir fyrir stjórnendur og kennarar í skólunum til að meta stöðu skólanna sem lærdómssamfélag. Aðalatriðin úr gögnunum voru tengd saman í eina þekkingarheild, heildin ígrunduð, sett fram lýsing á viðfangsefninu og niðurstöður kynnta.

Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu fimm efnisþætti sem eru samstarf og starfsþróun  sem byggist á þátttöku stjórnenda í samstarfsverkefni miðstöðvar skólaþróunar og skóladeildar Akureyrar. Forysta, sem einkennist af dreifðri foryst innan stjórnendateymis skólanna ásamt forystu kennara í þróunarverkefnum og stýrihópum. Starfsþróun, sem einkennist af áhuga en stýrist af takmörkuðum fjárveitingum til starfs- og skólaþróunar. Teymisvinna, sem byggir á dreifðri forystu, sameiginlegri ábyrgð og trausti með áherslu á nám, kennslu og skólamenningu sem einkennist af sameiginlegum gildum og sýn um nám og námsárangur. Einnig birtust niðurstöður um stöðu skólanna út frá matstæki um lærdómssamfélag.
Í niðurstöðum rannsóknarinnar kom fram að skólastjórnendurnir í rannsóknarskólunum leggja áherslu á gott samstarf milli skóla og skólastjórnenda á Akureyri og líta á samstarfið við miðstöð skólaþróunar og skóladeildina sem faglegan stuðning við framþróun skólastarfsins. Starfsþróun stjórnenda hefur einnig farið fram á öðrum vettvangi og má þar nefna fræðsluerindi á vegum Skólastjórafélags Íslands og Félags skólastjóra á Norðurlandi eystra. Skólastjórnendur grunnskólanna hafa einnig nýtt sér utanaðkomandi stuðning og fræðslu í gegnum samstarfsverkefnið, sótt markvissa ráðgjöf og sérþekkingu í gegnum samstarfið og fengið þar eftirfylgd.

Þar sem skólastjórarnir í báðum skólunum hafa verið virkir þátttakendur í samstarfsverkefni miðstöðvar skólaþróunar og skóladeildarinnar frá upphafi og sitja í stýrihópi verkefnisins telja þeir sig hafa forskot á aðra skóla í innleiðingarferli lærdómssamfélags þar sem þeir geta haft áhrif á skipulag og innihald fundanna. Þeir tala um að undirbúningsfundirnir og samræðan milli fagmanna auki þekkingu þeirra og áhuga á innleiðingu lærdómssamfélags. Þessi reynsla bendir til þess að skólastjórarnir nýti sér þverfaglegt samstarf, ígrundun og samræðu til eigin starfsþróunar og aukins áhuga á verkefninu. Í rannsóknarskólunum hefur áherslan verið lögð á starfsþróun innan skólans þar sem stuðlað er að óformlegu námi og starfsþróun fyrir starfsfólk skólans, kennara og stjórnendur. Einnig hafa stjórnendur fengið utanaðkomandi fræðsluerindi og fyrirlestra inn í skólann til að styðja við framþróun.

Með starfsþróun stjórnenda í samstarfsverkefninu og samstarfi þeirra er stutt við forystu stjórnenda við innleiðingu á lærdómssamfélagi með samræðum, samstarfi og jafningjastuðningi. Skólastjórarnir í báðum rannsóknarskólunum líta á sig sem faglega leiðtoga innan skólans, styðja við nám og kennslu, sjá um rekstur, stuðla að lýðræðislegum stjórnunarháttum og dreifðri forystu. Forystan dreifist nokkuð jafnt á milli stjórnenda og eru millistjórnendur einskonar tengiliðir við kennara skólans og veita kennslufræðilega forystu meðan skólastjórarnir veita forystu um rekstur, skipulag og áætlanagerð. Margt benti til að stjórnendur skólanna séu ávallt að þróa forystuhæfni sína um skóla- og starfsþróun til að færa skólann í átt að lærdómssamfélagi, stuðla að dreifðri forystu og hvetja kennara til að taka að sér forystu í starfs- og skólaþróunarverkefnum. Kennararnir virtust almennt hafa áhuga á að veita forystu í umbótaverkefnum. Viðmælendur sögðu að þróunarstarf sem kemur úr grasrótinni nái frekar fótfestu þar sem kennarar skuldbinda sig verkefnum og mynda eignarhald í þeim. Það var samt áhugavert að sjá að ef stjórnendur voru í starfs- og skólaþróunarteymum voru kennarar óvirkari og tóku síður að sér forystu. En ef stjórnendur voru ekki í teymum þ.e. á fundunum þá tóku kennarar ábyrgðina og forystu í verkefnum og á fundum.

Eins og fram hefur komið var matstæki fyrir lærdómssamfélag lagt fyrir þátttakendur. Matstækið tók á sex þáttum sem eru sameiginleg og styðjandi forysta, sameiginleg gildi og sýn, sameiginlegt nám og beiting, samvinna við faglegt starf á vettvangi, styðjandi aðstæður – samskipti/samband og styðjandi aðstæður – uppbygging. Niðurstöður úr matstækinu gáfu til kynna að skólarnir séu báðir komnir vel á veg við innleiðingu á lærdómssamfélagi undir forystu stjórnenda. Stjórnendur beggja skólanna stuðla að dreifðri  og lýðræðislegri forystu, skapa samstarfsvettvang fyrir kennara til að deila hugmyndum, þróa þær og taka sameiginlega ákvörðun um málefni skólans. Til staðra er sýnilegt skipulag og vinnuferli um samvinnu og þróunarstarf sem styður við sameiginleg gildi og sýn skólanna ásamt námi nemenda. Hvatt er til samvinnu, samræðna um faglega þróun sem beinist að námi og kennslu. Einnig kom fram að auka þurfi aðild foreldra og nemenda í menningu lærdómssamfélags ásamt því að útvíkka samstarfsmenninguna sem er innan skólanna og auka samstarf milli heimilis og skóla með markmið um sameiginlegt nám og menntunarsýn.

Í báðum skólunum upplifir starfsfólk teymisvinnu þar sem starfsfólk deilir hugmyndum og endurskoðar verkefni til að bæta kennsluna. Stuðlað er að jafningjafræðslu, endurgjöf og fólk fær tækifæri til að leiðbeina öðrum og kynna eigin hugmyndir. Samvinna og faglegt samstarf á vettvangi er til staðar sem gefur til kynna að teymisvinna eða  einhvers konar samstarf er viðhaft. Í skólunum er góður staðblær og menning  sem styður við félagslegt starf og hefur áhrif á líðan og starfsgleði starfsfólks sem í báðum skólunum er mjög ánægt með upplýsingaflæði um skólastarfið. Samkvæmt þessu virðist vera að skólarnir séu á réttri leið við innleiðingu á lærdómssamfélagi. Þó ber að geta þess að kennarar skólanna telja lítið fjármagn vera til staðar í skólunum til starfsþróunar og tækja og tæknibúnaður ekki viðunandi. Einnig komu nokkur einkenni fram um að skólarnir séu á ólíkum stað í þróunarferlinu í átt til lærdómssamfélags. Niðurstöður benda til þess að innri skilyrði skólanna séu ólík varðandi samstarf og samstarfsmenningu. Temisvinna er á ólíkum stað í þróunarferlinu og líkur benda til þess að það hefur áhrif á stöðu skólanna sem lærdómssamfélag. Annar skólinn hefur þróað teymisvinnu með markvissum stuðningi í nokkur misseri meðan hinn skólinn er í ferli með þróunina. Í rannsókninni kemur fram að síðari skólinn sem um er rætt virðist ekki vera komin jafn langt í ferlinu en er á góðri leið.

Þegar horft er til skóla sem lærdómssamfélag og þætti sem þurfa að vera til staðar í lærdómssamfélagi ásamt niðurstöðum rannsóknarinnar má draga þá ályktun að starfsþróun stjórnenda í samstarfsverkefni miðstöðvar skólaþróunar og skóladeildar Akureyrar ásamt því góða samstarfi sem hefur átt sér stað meðal stjórnenda í grunnskólum Akureyrar, sé vegvísir að þróun skóla í átt að lærdómssamfélagi. Stuðningur í starfi og jafningjafræðsla meðal skólastjórnenda á Akureyri, ásamt ígrundun og samvinnu að sameiginlegu skipulagi skólanna, eru þættir sem styðja við lærdómssamfélag og innleiðingu á því. Samstarf af þessu tagi er ekki sjálfgefið og krefst tíma og skipulags. Ávinningur sem hlýst af samstarfinu er fólginn í aukinni þekkingu og fagmennsku meðal stjórnenda til og styðja við faglega forystu í námi, kennslu og framþróun í skólastarfi. Með samræðum innan skóla myndast gjarna skemmtilegar umræður um nám nemenda, faglegt skólastarf og umbætur og leiðir sem styðja við þær. Sá mannauður sem býr í skólasamfélaginu er mikill og með góðri samvinnu, þekkingu og færni stuðlum við ávallt að betra skólastarfi, „skóla sem lærir“.
 
Maríanna Ragnarsdóttir,
deildarstjóri og staðgengill
skólastjóra Lundarskóla á Akureyri. 

Félag grunnskólakennara
Kennarahúsinu, Laufásvegi 81
101 Reykjavík
Sími 595 1111.

© |2016 |Kennarasamband Íslands. Allur réttur áskilinn.
Þú ert skráður á póstlista Kennarasambands Íslands.

Ábyrgðarmaður. Ólafur Loftsson, olafur@ki.is
Afskrá mig af þessum lista    Uppfæra upplýsingar