Copy
6. tbl. 2016
Skoða fréttabréfið á vef

Félagar!

Það er eitthvað alveg magnað sem við leikskólakennarar á Íslandi eigum saman. Það fannst svo greinilega á hátíðarhöldum í tilefni af 70 ára afmæli menntunar leikskólakennara þann 4. nóvember síðastliðinn. Það komu saman nálægt fimm hundruð manns og það þarf ekkert að dulbúa þá staðreynd að það mátti sjá glitta í tár af stolti og samkennd í glimrandi ræðum og söng undir stjórn Sigríðar Pálmadóttur. FSL átti sinn þátt í hátíðarhöldunum og við þökkum Sigrúnu Sigurðardóttur, okkar fulltrúa, fyrir hennar vinnu. 

Vonandi ber okkur gæfa til þess áfram að nýta þessa góðu orku til framfara í starfsumhverfi leikskólasamfélagsins.

Ingibjörg Kristleifsdóttir

Göngutúr í rigningunni í Maastricht. Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður FSL, Björg Sigurvinsdóttir, Sigrún Hulda Jónsdóttir, Vigdís Guðmundsdóttir og Sigurður Sigurjónsson. 

Hlustum og verum óhrædd að
fara ótroðnar slóðir

– stjórn FSL sótti ráðstefnu evrópskra skólastjórnenda

Stjórn FSL brá undir sig betri fætinum og fór til Maastricht í Hollandi á ráðstefnu ESHA, sem eru samtök skólastjórnenda á öllum skólastigum í Evrópu. Samtökin halda ráðstefnu annað hvert ár og að þessu sinni var þemað „International Inspiration in Education; Leadership Matters“. Á vefsíðu ráðstefnunnar getið þið séð góðkunningja sem var einn fjögurra aðalfyrirlesara, eða hann Michael Fullan. Honum mæltist auðvitað vel en uppfinningamaðurinn og listamaðurinn, Daan Roosegaarde, sló rækilega í gegn og ekki síður Zachary Walker sem talaði um tækifærin sem felast í nútíma samskiptatækni. 

Íslenskir skólastjórnendur heilluðust svo mjög af þeim síðastnefnda að nú er verið að koma á sambandi við hann um að koma til Íslands næsta haust. Fyrirkomulag ráðstefnunnar var heillandi en miðbær Maastricht var undirlagður af henni. Spjall á kaffihúsum var skipulagt og litlar málstofur á mörgum hótelum. 

Við komum kannski ekki heim með nýjan sannleika en það var mjög gefandi og hvetjandi að sitja þessa ráðstefnu. Hvatningarorðin sem sátu eftir frá öllum sem undirrituð hlustaði á var að hlusta á nemendur og samkennara, leyfa hugmyndum að lifa og þróast og vera óhrædd við að fara ótroðnar slóðir.

Skólaheimsóknir voru í boði og afar áhugavert var að heimsækja skóla þar sem við 12 ára aldur er skipt eftir áhugasviðum í bóknám annars vegar og verknám hins vegar. Undirrituð fór í verknámsskóla þar sem tækifæri gefast til að kynnast öllum þáttum samfélagsins í náminu, svo sem landbúnaði, byggingariðnaði, umönnun, snyrtifræði og bara nefndu það – og allt með raunverulegum verkefnum. Ja, hann Dewey hefði nú verði kátur með að sjá „Learning by Doing“ af bestu sort.

Ingileif Ástvaldsdóttir, varaformaður SÍ, hefur skrifað tvö blogg um ráðstefnuna, annað hér og hitt hér. (Hverjir prýða forsíðuna?)

Vits er þörf þeim er víða ratar

– spennandi ráðstefna á vegum Áhugafólks um einingakubba og FSL

Minni ykkur á ráðstefnuna um einingakubba sem verður haldin í Iðnó 25. nóvember næstkomandi. Ráðstefnan er haldin í minningu Harriet K. Cuffaro, sem lést fyrr á þessu á ári, 86 ára gömul. Harriet kom í sína fyrstu ferð til Íslands árið 1991 og gegndi starfi gestakennara við Fóstruskólann. Hún starfaði alla tíð í anda heimspekingsins Jóhn Dewey og bók hennar, Experimenting with the World, er víðlesin um heim allan. Í bókinni er fjallað um hugmyndafræði Dewey í kennslu ungra barna. Harriet veitti ráðgjöf varðandi einingakubbana sem eru notaðir í námi í fjölmörgum leikskólum hérlendis. 
Harriet starfaði lengst af í leikskólunum Bank Street og City & Country School í New York. Það er gaman að segja frá því að leikskólastjóri og leikskólakennari í City and Country School munu halda fyrirlestra á ráðstefnunni. Aðrir sem stíga á stokk eru Elva Önundardóttir, Kristín Einarsdóttir, Aðalheiður Björk Matthíasdóttir, Lena Sólborg Valgarðsdóttir og Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir. Dagskráin er hér og einnig slóð á skráningarsíðu. 

Vorar í nýliðunarmálum

Frá því að Katrín Jakobsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, setti saman starfshóp til að efla leikskólastigið hefur margur dropinn holað steininn. Fram að því  höfðu forsvarsmenn leikskólakennara ítrekað það við hvern þann ráðamann sem náðist í kallfæri að það yrði að gera átak í því að fjölga leikskólakennurum. Skýrsla hópsins frá 2012 er hér

Í framhaldinu sem öllum er líklega kunnugt var farið í átakið Framtíðarstarfið og auglýsingaherferð á samfélagsmiðlum og strætóskýlum svo eitthvað sé nefnt. Samband sveitarfélaga, sem á fulltrúa í hópnum, sendi hvatningarbréf til allra sveitarfélaga um að styrkja starfsfólk leikskóla til náms með starfi og Orðsporið 2015, verðlaun leikskólakennara til þeirra sem skara fram úr við að kynna leikskólastarf í landinu, var veitt til tveggja sveitarfélaga sem stóðu vel að átakinu.

Félag leikskólakennara auglýsti styrki til háskólamenntaðra starfsmanna sem lykju meistaranámi til réttinda og hafa nú um 80 leikskólakennarar sprottið upp úr þeirri leið.

Nú eru 253 í námi sem veitir réttindi til leikskólakennslu. Nú voruð þið hissa ekki satt því að orðræðan er sterk um að allt sé að fara til fj.... og stéttin að deyja út. Aldeilis ekki gott fólk. Botninum hefur verið náð og spyrnan frá honum er að skila árangri. Enda frábært að geta menntað sig til meistaragráðu og fá öruggt starf sem tryggir starfsævilanga menntun. Allt að gerast!

Fræðslufundir FSL vekja bjartsýni

Önnur ástæða til bjartsýni fyrir okkar hönd er stemmingin á fræðslufundum FSL. Nú erum við búin að fara á sjö staði á landinu; það er undirrituð, Guðrún Snorradóttir ráðgjafi og Anna Rós Sigmundsdóttir, lögfræðingur KÍ.

Aðalmenn FSL í samráðsnefndinni hafa haft veg og vanda af umgjörðinni og móttökurnar hafa verið höfðinglegar og mæting félagsmanna afar góð. Nú er aðeins Reykjavíkurfundurinn eftir en því miður urðum við að fresta honum til 23. nóvember. Þið skuluð skrá ykkur hjá Þórunni Gyðu og Gyðu Guðmunds sem fyrst og við eigum von á uppfræðandi og ánægjulegri samverustund.

Okkur til gagns og gleði slógust í för með okkur austur á Egilsstaði tveir lögfræðingar; Kristrún frá Reykjavíkurborg og Sólveig frá Sambandi sveitarfélaga. Við væntum þess að eiga gott samstarf við þær eins og aðra fulltrúa frá rekstraraðilum um fræðslu til félagsmanna. 
Til hamingju Nichole!
Leikskólastjórinn í Ösp í Breiðholti, Nichole Leigh Mosty, hefur verið kjörin á þing fyrir Bjarta framtíð. Nichole lauk leikskólakennaraprófi frá KHÍ árið 2007 og M.ed prófi frá Menntavísindasviði HÍ 2013. 
FSL óskar Nichole velfarnaðar í störfum sínum á Alþingi Íslendinga. 

Starfsþróunarsjóður FSL veitir tækifæri 
 

Árið 2014 kom í kjarasamning okkar 0.1% viðbótarframlag frá vinnuveitendum til samræmis við framlag á almennum markaði til að styrkja fræðslu innan félagsins. Þessi sjóður er hreint framlag frá vinnuveitendum til félagsins og er ekki partur af félagsgjöldum og er óskyldur vísindasjóðnum. Í þennan sjóð safnaðist aur þar til 2016 þegar stjórn ákvað hvernig ætti að nýta hann til starfsþróunar á félagsvísu.

FSL og FL hafa borgað hærra hlutfall en önnur KÍ félög í Orlofssjóð KÍ án þess að hafa umfram réttindi. Ákveðið var að jafna þann hlut og í Orlofssjóð færi 0.25% eins og hjá öðrum félögum en 0.25%  yndu bætast í starfsþróunarsjóðinn. Vegna þessa er sjóðurinn vel settur í ár og var ákveðið að nýta hann vel og vandlega í fræðslu, þ.e. starfsþróun.
  1. Styrkja samstarf við önnur stjórnendafélög innan KÍ og jafnframt á Evrópuvísu. Fimm manns fóru á vegum stjórnar á ráðstefnu ESHA eins og sagt er frá hér í Eplinu.
  2. Fara með fræðslu út á svæðin. Haldnir eru fræðslufundir á 8 stöðum á landinu um vinnurétt annars vegar og þrautseigju og vellíðan hins vegar.
  3. Í þriðja lagi var samþykkt að nýta sjóðinn til þess að halda námstefnu með myndarbrag og greiða félagsmönnum fyrir að kynna rannsóknir og þróunarverkefni. Með þessari nýtingu ættu allir félagsmenn kost á starfsþróun á vegum FSL. 
Teknar eru ákvarðanir árlega um nýtingu sjóðsins á fyrsta samráðsfundi FSL.
Félag stjórnenda leikskóla
Kennarahúsinu, Laufásvegi 81
101 Reykjavík
Sími 595 1111.

© |2016 |Kennarasamband Íslands. Allur réttur áskilinn.
Þú ert skráður á póstlista Kennarasambands Íslands.

Ábyrgðarmaður. Ingibjörg Kristleifsdóttir, inga@ki.is