Copy
10. tbl. 2016

Betra vinnumat á nýju ári

Verkefnisstjórn hefur unnið að úrbótum á vinnumatinu, samkvæmt samkomulaginu sem gert var við ríkið 31. október, og var tekið mið af niðurstöðum skoðanakönnunar meðal félagsmanna frá í september.
Þær úrbætur sem náðust fram og taka gildi 1. janúar 2017 eru:

  • Þrepaskipting er afnumin, eitt þrep er fyrir alla áfanga, í samræmi við efra þrep í gömlu sýnidæmunum 
  • Dregið er úr vægi endurtekningar áfanga, þannig að annar og þriðji hópur fá 8% skerðingu í stað 10% áður. Þá tekur fjórði hópur ekki skerðingu en fimmti og sjötti taka sömu skerðingu og annar og þriðji o.s.frv.
  • Tími til yfirferðar hækkar í nánast öllum flokkum um 10 mínútur (úr 150 í 160 mínútur) en um 15 mínútur í verknámsáföngum
  • Viðmiðunarnemendafjöldi nemenda í jarðfræði verður 22 (var 25) og sýnidæmi fyrir raungreinar gilda fyrir hana
  • Í stærðfræði bætast 3 klst við, óháð nemendafjölda, af sama toga og eru í sýnidæmum fyrir aðra bóklega áfanga

Verkefnisstjórnin er hér með lögð niður þar sem umsaminn starfstími er á enda og eru henni þökkuð vel unnin störf í þágu félagsmanna. 

Fjárframlög
til félagsdeilda

Árleg fjárframlög til félagsdeilda FF hafa nú verið reiknuð út og skýrsla send formönnum og ætti féð að skila sér inn á reikninga félagsdeildanna á allra næstu dögum.

FF óskar öllum félagsmönnum sínum gleðilegra jóla
og farsæls
komandi árs

Styrkir til sumarnámskeiða 

Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara (SEF) hefur nú opnað fyrir umsóknir um styrki til að skipuleggja sumarnámskeið. Eins og áður er sótt um á heimasíðu Rannís. Athygli er vakin á því að laun fyrirlesara/kennara hafa verið hækkuð um 10% frá síðustu umsóknarlotu og að umsjónarlaun fagfélaga hafa verið hækkuð um 20%. Eins hefur þóknun til fagfélags sem heldur námskeið erlendis verið hækkuð í 200.000 krónur að hámarki og er þá ferðakostnaður skipuleggjanda innifalinn í styrknum.

Fulltrúar faggreinafélaga skipuleggja námskeiðin í í samstarfi við fræðslustofnanir. Umsækjendur um skipulagningu og framkvæmd sumarnámskeiða skulu vera bókhaldsskyldar fræðslustofnanir; svo sem háskólar, fræðslumiðstöðvar og símenntunar­stofnanir.
Frekari upplýsingar má nálgast hér.

Jólafrí

Kennarahúsið
er lokað á Þorláksmessu,
27. desember og 2. janúar.
 
Verkefnisstjórnin sem starfað hefur ötullega frá 1. febrúar 2016. Efri röð f.v.: Stefán Andrésson (FB), Ólafur Sigurðsson (MMR), Guðmundur H. Guðmundsson (SNR). Neðri röð f.v.: Ársæll Guðmundsson (BHS), Guðríður Arnardóttir (FF), Reynir Þór Eggertsson (MK). Í fyrri verkefnisstórn sat Elna Katrín Jónsdóttir (FF).
Myndin er tekin á 100.fundi verkefnisstjórnar.
Fjarnám eður ei?
Í vinnumati eru ekki miðlæg sýnidæmi um fjarkennslu eða dreifnám enda hafa mismunandi reglur gilt um greiðslur fyrir fjarnám í framhaldsskólum. Kennarar geta tekið að sér fjarnám í yfirvinnu eða hafnað því eftir atvikum.

Með nýju vinnumati hefur komið í ljós að í einhverjum skólum er fjarnámskennsla orðin hluti af reglulegri vinnuskyldu kennara. Um þetta þarf að gera samkomulag og tilefni skal vera málefnalegt, eins og segir í 7. grein kjarasamningsins. Formaður FF áréttar að:
•    þar til um annað er samið, geta kennarar hafnað því að taka að sér fjarnemendur
•    það að telja fjarnemendur í vinnumati með sama hætti og dagskólanemendur fellur ekki að 7. grein kjarasamningsins


Formaður hefur sent formlegt bréf til skólameistara og trúnaðarmanna um að greiðslur fyrir fjarnám og/eða vinnumat fjarnámskennslu eigi að byggja á málefnalegum forsendum og endurspegla vinnuframlag kennara.

Börn á flótta og einkavæðing skóla


Þing evrópskra kennarafélaga (ETUCE) var haldið í Belgrad í Serbíu, 4.-8. desember. ETUCE sameinar stéttarfélög kennara í Evrópu á öllum skólastigum og snýst um skóla- og kjaramál. Þar er rík hefð fyrir kröftugri skólamálaumræðu og á þessum sameiginlega vettvangi er fjallað um mannréttindi og málefni líðandi stundar frá sjónarhorni skólasamfélagsins. Málefni flóttamanna voru rædd og staða barna á flótta frá stríðshrjáðum löndum. Það er hryggileg staðreynd að 3,6 milljónir barna á skólaaldri eru á flótta í heiminum, mörg ein á báti. ETUCE sendi frá sér ítarlega ályktun um að félagsleg aðlögun barna frá framandi menningarheimum væri best tryggð í gegnum skólakerfið.
Til umfjöllunar á þessu þingi var líka vaxandi tilhneiging til einkavæðingar í menntakerfi Evrópu þar sem aðgengi að menntun er takmarkað og háð stétt eða stöðu. Velferð þjóða helst í hendur við hátt menntunarstig og aðgengi að gæðamenntun á að standa öllum jafnt til boða.
Til umræðu voru fjölmörg önnur brýn mál, svo sem jafnréttismál og launamál. Hægt þokast í rétta átt í sumum málaflokkum.
Þórður Hjaltested, formaður KÍ, og Guðríður Arnardóttir (í forföllum varaforkonu KÍ) sóttu þingið fyrir hönd KÍ.
Á heimasíðu ETUCE má finna gríðarlegt magn upplýsinga sem tengist menntun, starfsumhverfi og kjörum kennara, fróðleik um menntamál almennt og tölfræðileg gögn. Sérstaklega er bent á ályktun samtakanna í málefnum barna á flótta.



Félag framhaldsskólakennara
Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Netfang: ki@ki.is
Höfundarréttur © 2016 Félag framhaldsskólakennara.
Allur réttur áskilinn.


Uppfæra upplýsingar eða afskrá