Copy
Fréttir og upplýsingar frá Álftanesskóla.
24. árgangur 1. tbl - janúar 2017

Kæru foreldrar

Ágætu foreldrar/forráðamenn nemenda í Álftanesskóla.

 
Nú líður á vorönn skólaársins 2016 - 2017 en framundan eru venjubundin vorverk s.s. dvöl 7. bekkja í skólabúðum að Reykjum, ferð 9. bekkja í ungmennabúðir að Laugum, námsviðtöl, árshátíðir árganga og Ung-listaleikar svo eitthvað sé nefnt.

Vetrarleyfi grunnskóla Garðabæjar verður vikuna 20. til 24. febrúar.

 

Nemendur styrkja Rauða krossinn

Stjórn nemendafélagsins þau Eva Maren, Ásta Glódís, Guðný Kristín, Sindri Þór og Heba Sól komu færandi hendi í höfuðstöðvar Rauða krossins í byrjun janúar með 100.000 krónur sem safnast höfðu hjá nemendum og starfsfólki skólans í Kærleiksverkefninu.

Rauði krossinn þakkaði  þeim kærlega fyrir hlýhuginn og stuðninginn.
 

Söngkeppni Kragans

 
Föstudaginn 10. febrúar mun félagsmiðstöðin Elítan halda Söngkeppni Kragans í íþróttahúsinu á Álftanesi og er þetta í fyrsta sinn sem þessi keppni er haldin hér á Álftanesi. Tíu félagsmiðstöðvar úr Garðabæ, af Reykjanesinu, úr Mosfellsbæ og frá Seltjarnarnesi keppa um hvaða fjögur atriði komast í Söngkeppni Samfés.

Búast má við miklu fjöri þar sem hér á nesinu verða saman komnir rúmlega 300 unglingar fyrst á söngkeppninni og svo á balli þar sem DJ Þura Stína og Frikki Dór munu halda uppi stuðinu. Forseti vor Guðni Th. Jóhannesson mun afhenda verðlaunin.


Fyrirlestur í 5. bekk fyrir nemendur og foreldra

 
Þriðjudaginn 31. janúar kl. 8:15 er nemendum í 5. bekk og foreldrum þeirra boðið á Forvarnarfræðslu Magga Stef. Þar verður umræða með nemendum og foreldrum meðal annars um hvort allir eigi að vera eins, rætt um heilbrigðan lífsstíl, mikilvægi markmiðasetningar og notkun tölva og snjalltækja.
Að því loknum fara nemendur með kennurum í heimastofur og foreldrar sitja áfram og fá fræðslu um uppeldistengd málefni, gildi, hefðir og venjur, hvernig við styrkjum tilfinningagreind barna og hvernig við styrkjum sjálfstraust barna. Jafnframt verður fræðsla um netið, tölvunotkun, hina ýmsu samfélagsmiðla, tónlistarmyndbönd o.fl.
 


Forritunarverkefnið Kóðinn 1.0 mibro:bit

Forritunarverkefni KrakkaRÚV með svokallaðar micro:bit tölvur var hleypt af stokkunum í haust. Álftanesskóli sótti um að fá slíkar tölvur fyrir nemendur sína í 6. og 7. bekk. Mánudaginn 9. janúar voru þær afhentar þeim og verkefnið Kodinn 1.0 kynnt.

Í framhaldi af kynningunni stendur nemendum til boða að koma í skólann einu sinni í viku í 6 skipti, fá þar aðgang að tölvu og aðstoð við að leysa verkefni sem finna má á http://krakkaruv.is/heimar/kodinn. Aðstoðin er ekki í höndum sérfræðinga heldur er þetta fyrst og fremst hugsað sem staður og stund til þess að hjálpast að við að leysa þrautirnar. Við verðum á fimmtudögum frá kl. 14:30 til 15:30 og byrjum fimmtudaginn 26. janúar. Gert er ráð fyrir að við tökum fjögur skipti fram að vetrarfríi og síðustu tvö skiptin eftir vetrarfrí. Von okkar er sú að þetta kveiki áhuga á forritun hjá einhverjum nemendum, sé jafnvel fyrsta skrefið á lengri vegferð.
Á vef RÚV, http://krakkaruv.is/heimar/kodinn  má lesa nánar um verkefnið.


Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynning 2017

Stefnt er að því að nemendur í 10. bekk fari ásamt kennurum sínum föstudaginn 17. mars á Íslandsmót iðn- og verkgreina í Laugardalshöll sem haldið er dagana 16. til 18. mars. Framhaldsskólar munu kynna námsframboð sitt, bæði verklegt og bóklegt og mun starfsfólk þeirra veita svör við spurningum um námsframboð og inntökuskilyrði.

Íslandsmót iðn- og verkgreina er viðburður sem haldinn er reglulega og stendur keppnin yfir í þrjá daga. Keppendur takast á við krefjandi og raunveruleg verkefni í samkeppni sem reynir á hæfni, fagmennsku og skipulagshæfileika. Dómarar fara yfir verkefnin að keppni lokinni, meta gæðin og velja þá sem skara fram úr í hverri grein. Tilgangur keppninnar er meðal annars að kynna og vekja áhuga grunnskólanema á iðn- og verknámi og þeim fjölmörgu tækifærum sem nám í greinunum hefur upp á að bjóða. Gestir fá að snerta á og prófa hluti undir handleiðslu fagfólks í ýmsum greinum.


Námsmat

Sú nýbreytni hefur verið tekin upp að nemendur fá ekki útprentaðan vitnisburð á miðjum vetri heldur verður allt námsmat aðgengilegt á fjölskylduvef Mentors. Nemendur á yngsta- og miðstigi fá sendar heim námsmatsmöppur dagana 23. – 24. janúar.
Sjá nánar um lokamat á heimasíðu skólans: 
http://alftanesskoli.is/namid/namsmat/lokamat/

Foreldrakönnun Skólapúlsins


Skólinn notar kannanakerfið Skólapúlsinn til að fylgjast með og bæta innra starf skólans. Liður í því er að spyrja foreldra í
skólanum um gæði skólans,
samskipti við skólann, virkni
í skólastarfi og námið heima fyrir.

Könnunin er lögð fyrir foreldra barna
á öllum aldursstigum grunnskólans í byrjun febrúar. Búið er til 120 foreldra líkindaúrtak úr lista sem skólinn sendir inn í kerfið í janúar. Niðurstöður á yngsta, mið- og unglingastigi eru birtar með samanburði við landsmeðaltal í byrjun mars svo lengi sem 80% svarhlutfalli hafi verið náð. Niðurstöðurnar eru jafnframt notaðar af starfsfólki Skólapúlsins í tölfræðigreiningar m.a. fyrir fræðsluskrifstofur, ráðuneyti og fræðimenn til að auka skilning á þroska og námsaðstæðum nemenda á landsvísu.
 
Nánari upplýsingar um sjálfsmatskerfið eru á www.skolapulsinn.is/um.


Á döfinni


Vikuna 20. til 24. feb Vetrarleyfi
Fimmtudaginn 2. mars Nemendaþing
Vikuna 6. til 10. mars 7.bekkur dvelur á Reykjum
Dagana 7. til 9. mars Samræmd próf í 9. og 10. bekk
Mánudaginn 13. mars Námsviðtöl
Vikuna 13. til 17. mars 9. bekkur dvelur á Laugum
Dagana 10. til 17. apríl Páskaleyfi
 
©2017 Álftanesskóli
Álftanesskóli, v/ Breiðumýri, 225 Garðabær

www.alftanesskoli.is
alftanesskoli@alftanesskoli.is






This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Álftanesskóli · Breiðumýri · Gardabaer 225 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp