Copy
2. tbl. 2017

Framlag ríkisins til að efla mannauð í framhaldsskólum

Kjarasamningurinn frá 2014 lumar á bókun um framlag ríkisins til að auka þekkingu um mannauðsmál og styrkja stöðu þeirra sem sinna félagsstörfum fyrir KÍ.

Árið 2013 var samið á almennum vinnumarkaði um 0,1% iðgjald í fræðslusjóði. Það framlag var metið sjálfstætt af KÍ og okkar viðsemjendum og niðurstaðan varð að bókun 1 í kjarasamningi 2014 um að sambærilegt framlag skyldi renna til KÍ til að styrkja stöðu þeirra sem starfa í umboði Kennarasambands Íslands fyrir framhaldsskóla.

Bókuninni er ætlað að styrkja samningsstöðu félagsins og efla réttindagæslu. Á stjórnarfundi þann 18. janúar síðastliðinn, samþykkti stjórn FF að veita þessum fjármunum árið 2017 í námskeið á vegum kjara- og mannauðssýslu ríkisins fyrir samstarfsnefndir í framhaldsskólum. Þá var ákveðið að hefja aftur samstarf við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í HÍ um að halda fræðslunámskeið fyrir formenn félagsdeilda og trúnaðarmenn.

Áfram er gert ráð fyrir að framlagið verði nýtt til að kosta námskeið í samningatækni, stjórnsýslu og mannauðsfræðum fyrir samninganefnd félagsins. Eins var ákveðið á fundi stjórnarinnar að bjóða skólamálanefnd að sækja námskeið tengd viðfangsefnum nefndarinnar. Þá hefur félagsfólk kallað eftir fræðsluefni fyrir nýja kennara, samþykkt var að verða við því og halda kynningarfund um starfsemi KÍ, samningagerð, sjóði og fleira fyrir nýja kennara á haustdögum 2017.

Menntaskólinn að Laugarvatni
Menntaskólinn að Laugarvatni (mynd af vef ml.is)

Opinber heimsókn

Guðríður Arnardóttir, formaður FF, fór í fyrstu skólaheimsókn ársins í síðustu viku er hún heimsótti Menntaskólann að Laugarvatni. Þar átti hún góðan fund með kennurum skólans og fór yfir þau mál sem hæst ber. Þær félagsdeildir sem vilja fá formanninn í heimsókn eru beðnar að setja sig í samband við formann, í síma 595 1111 eða senda tölvupóst, gudridur@ki.is. Næsta heimsókn formanns er í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

Hillir undir sættir?

 

Úthlutun styrkja til félagsmanna er í fullum gangi í Vísindasjóði FF og FS. Á árinu 2016 var úthlutað rúmlega 172 milljónum úr sjóðnum til endurmenntunar, til dæmis vegna ferða á ráðstefnur og fagtengdar sýningar og til skólaheimsókna. Úthlutunarreglur eru óbreyttar, sjá hér.

Á fundi, miðvikudaginn 18. janúar, var tillaga stjórnar FF og formanns KÍ lögð fyrir stjórn sjóðsins um sáttagerð og fjárhagslegt uppgjör eftir áralangar deilur. Vegna þessa er haldinn sérstakur vinnufundur í stjórn Vísindasjóðs, miðvikudaginn 1. febrúar þar sem farið verður yfir stöðuna. 

Fundargerðir sjóðstjórnar má lesa hér, á heimasíðu KÍ. 
Netfang Vísindasjóðs FF og FS er visffogfs@ki.is, svarað er í síma 595 1111 alla virka daga, kl 9-16.

 

Rykið dustað af stofnanasamningum

Fjármálaráðuneytið hefur hleypt af stokkunum glænýjum vef um stofnanasamninga sem gerðir eru í ríkisstofnunum.  Vefurinn er samstarfsverkefni kjara- og mannauðssýslu ríkisins og stéttarfélaga.

Í apríl 2016 var settur á laggirnar starfshópur, skipaður fulltrúum stéttarfélaga og bandalaga og fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytis, auk fulltrúa Félags forstöðumanna ríkisins, til að vinna að undirbúningi fræðsluátaks um stofnanasaminga.

Á vefnum stofnanasamningar.is er að finna efni sem nýtist við gerð og framkvæmd stofnanasamninga.

Heilræði formanns FF
til nýrrar ríkisstjórnar

„Hækkið laun kennara, búið vel að skólakerfinu og sjá; vandamálið mun leysast.“
visir.is

Út vil ek...

Það er kominn ferðahugur í félagsfólk en allnokkrir skólar hafa lagt inn umsókn til Vísindasjóðs FF og FS um styrk til skólaheimsókna vorið 2017. Stefnan er tekin á Búdapest og Berlín, Varsjá og París svo dæmi séu tekin. Minnt er á að skipulag ferðar skal borið undir stjóðsstjórn til að fá staðfestingu á styrkhæfi.
Stjórn þarf að fá eftirfarandi upplýsingar, að minnsta kosti þremur mánuðum fyrir brottför:
1. Dagskrá ferðar með skólaheimsóknum sem ná yfir tvo heila daga. Að minnsta kosti tveir skólar skulu heimsóttir.
2. Staðfesting frá forsvarsmönnum viðtökuskóla og stofnana.
3. Listi yfir sjóðfélaga sem hyggjast fara.
Sjá nánar í fréttabréfi B-deildar, hér.

Aðalfundur FF 2011Ert þú í samstarfsnefnd á þínum vinnustað?


Fyrirhuguð eru námskeið á vegum kjara- og mannauðssýslu ríkisins fyrir félagsfólk opinberra stéttarfélaga sem situr í samstarfsnefndum. 

Í kjarasamningagerð 2015 urðu ríki og stéttarfélög sammála um að brýna nauðsyn bæri til að auka við þekkingu á gerð og inntaki stofnanasamninga. Með kjarasamningunum fylgir bókun um að aðilar standi sameiginlega að fræðsluátaki fyrir þá sem koma að gerð stofnanasamninga, meðal annars vegna þess að form launataflna margra félaga innan BSRB og ASÍ mun taka breytingum þann 1. júní 2017 en einnig vegna þeirrar áherslu sem lögð er á heildstæða mannauðsstjórnun innan stofnana. Aðildarfélög BHM, auk framhaldsskólakennara, hjúkrunarfræðinga og fleiri taka þátt í fræðsluátakinu.

Öllu félagsfólki FF sem situr í samstarfsnefnd er boðið á námskeið sem stendur yfir í einn dag. Stjórn félagsins telur mikilvægt að ráðist verði í endurskoðun allra stofnanasamninga sem félagsfólk á aðild að. Hingað til hafa verið greiddar um 2.000 kr fyrir hvern fund í samstarfsnefnd. Endurskoðun stofnanasamninga er flókið verkefni og mun taka talsverðan tíma. Lagt var til á síðasta stjórnarfundi að tveir fulltrúar FF taki þátt í endurskoðuninni á hverjum stað og fái eingreiðslu, 100.000 kr hver, þegar undirritaðir stofnanasamningar liggja fyrir og hafa borist félaginu. Ákveði félagsdeild að fleiri en tveir félagsmenn taki þessa vinnu að sér, skipta þeir hlutfallslega með sér 200.000 kr.



Félag framhaldsskólakennara
Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Netfang: ki@ki.is
Höfundarréttur © 2017 Félag framhaldsskólakennara.
Allur réttur áskilinn.


Uppfæra upplýsingar eða afskrá