Copy
View this email in your browser

Kjarasamningar við iðnaðarmenn


Samninganefndir Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samiðn, MATVÍS og VM, félag vélstjóra og málmtæknimanna, undirrituðu nýjan kjarasamning miðvikudaginn 13. nóvember sl.

Verði samningarnir samþykktir munu þeir gilda frá 1. nóvember 2019 til 31. mars 2023.

Árbók sveitarfélaga 2019

35. árgangur af Árbók sveitarfélaga er komin út. Árbókin hefur í gegnum tíðina verið afar vinsæl meðal sveitarstjórnarfólks sem og margra annarra er láta sig sveitarstjórnarmál varða. Bókin er þægileg til uppflettingar og samanburðarrannsókna enda má finna þar ýmiskonar tölfræði úr rekstri og starfsemi sveitarfélaga.

Hag- og upplýsingasvið sambandsins hefur að venju haft umsjón með útgáfu bókarinnar. Jóhannes Á. Jóhannesson annaðist alla vinnslu talnaefnis úr ársreikningum og uppsetningu á töflum en Sigurður Á. Snævarr fór með ritstjórn bókarinnar.

Árbókin kostar 4.000 krónur með virðisaukaskatti, sem er sama verð og síðustu 5 ár. Unnt er að panta hana með því að fylla út rafrænan pöntunarseðil á vef sambandsins.
 

Urðunarskattur settur á ís


Eins og kunnugt er mótmælti sambandið harðlega í byrjun hausts áformum um að leggja á sérstakan urðunarskatt. Í umsögn sambandsins um frumvarp til breytinga á ýmsum lögum vegna forsendna fjárlaga fyrir árið 2020 var þessari skattlagningu lýst sem ótímabærri, óútfærðri og án nauðsynlegrar tengingar við stefnumótun í úrgangsmálum og loftslagsmálum.

Alþingismenn virðast vera sama sinnis. Í áliti meirihluta fjárlaganefndar um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 kemur fram að „ekki gert ráð fyrir tekjum af urðunarskatti um sinn á meðan unnið er að útfærslu innheimtunnar“.

Sambandið væntir þess að samráð verði haft við sveitarfélögin og aðra haghafa áður en frekari skref verða stigin varðandi þessa umdeildu skattheimtu.

 


Reynsluverkefni um íbúasamráð í sveitarfélögum

Kjarni fulltrúalýðræðisins á sveitarstjórnarstigi er að íbúar kjósa fulltrúa til að taka ákvarðanir um málefni sveitarfélags fyrir þeirra hönd. Til að geta rækt umboðsskyldur sínar þurfa kjörnir fulltrúar að vera í nánu sambandi við íbúa á milli kosninga og taka ákvarðanir með hliðsjón af þörfum og viðhorfum þeirra, að gættum heildarhagsmunum sveitarfélagsins.

Slíkt stuðlar að vandaðri ákvörðunum, því íbúar eru sérfræðingar í nærumhverfinu sínu, og getur auk þess, þegar rétt er á haldið, leitt til að meiri sáttar um ákvarðanir og aukið áhuga íbúa á að taka virkari þátt í samfélaginu. Því er mikilvægt að byggja upp þekkingu í sveitarfélögum á samráði við íbúa í ákvarðanatöku.

Málþing um börn og samgöngur


Málþing um börn og samgöngur verður haldið mánudaginn 18. nóvember frá kl. 12:30 til 16:30 á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í samvinnu við Samgöngustofu, Vegagerðina og Samband íslenskra sveitarfélaga. 

Málþingið verður haldið í Sveinatungu á Garðatorgi (Ráðhúsi Garðabæjar). Á þinginu munu bæði ungir sem aldnir taka til máls og ræða stöðu barna í samgöngum í víðu samhengi. Í kjölfar fyrirlestra verða pallborðsumræður. Málþingið er öllum opið en nauðsynlegt er að skrá sig. Fundinum verður streymt í beinni útsendingu á vef sambandsins.

Hafnasamband Íslands 50 ára

Hafnasamband Íslands fagnaði 50 ára afmæli þriðjudaginn 12. nóvember sl. Hafnasambandið var stofnað þann dag árið 1969 að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga og hét þá Hafnasamband sveitarfélaga. Árið 2004 var nafni sambandsins breytt í Hafnasamband Íslands auk þess sem gerðar voru ákveðnar laga- og skipulagsbreytingar á starfseminni.

Margt hefur því breyst í skipulagi hafnasambandsins og ekki síður hafna frá þeim tíma, en fyrir hálfri öld gerðu menn sér samt sem áður grein fyrir sérstöðu hafna og mikilvægi þess að standa saman í því að verja hagsmuni hafna. Þau sjónarmið eiga svo sannarlega enn við í dag ekki síst þegar mikilvægt er að minna á mikilvægi hafnanna fyrir efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar.

Samband íslenskra sveitarfélaga sendir hafnasambandinu heillaóskir í tilefni dagsins og þakkar fyrir ánægjulegt samstarf á síðustu 50 árum.

Stefnumótun fyrir ferðaþjónustuna

Á næstunni eru fyrirhugaðar vinnustofur um allt land þar sem til umræðu verður „aðgerðarbundin stefnumótun ferðaþjónustunnar”  byggt á framtíðarsýn og leiðarljósum sem ráðherra hefur nýlega kynnt. Vinnustofurnar munu fást við að vinna nánar niðurstöður vinnuhópanna og eftir atvikum tryggja að svæðisbundnir hagsmunir fái sinn sess í hinni aðgerðarbundnu stefnumótun ferðaþjónustunnar sem á að marka helstu aðgerðir fram til ársins 2025
 
Á vef Stjórnstöðvar ferðamála munu á næstunni birtast upplýsingar um dag- og tímasetningu fundanna víðs vegar um landið. 

Twitter
FB síða sambandsins
Copyright © 5_maí_2019
Samband íslenskra sveitarfélaga
Allur réttur áskilinn


Sendu okkur póst ef þú ert með athugasemd eða ábendingu. 
Einnig geturðu skráð þig af útsendingarlista ef þú vilt ekki fá send fleiri Tíðindi.






This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Samband íslenskra sveitarfélaga · Borgartún 30 · Reykjavik 108 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp