Copy

Hér kemur síúðrandi

 

S K R U D D A N


Helstu tíðindi úr FVA 25.02.2020


Verk og vit er glæsileg iðnsýning sem verður haldin í fimmta sinn dagana 12.-15. mars 2020 í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal. Meðal sýnenda eru byggingarverktakar, verkfræðistofur, menntastofnanir, fjármála- og ráðgjafafyrirtæki, tækjaleigur, hugbúnaðarfyrirtæki og sveitarfélög svo eitthvað sé nefnt.

Verk og vit er frábær vettvangur til að sjá allt það nýjasta í byggingariðnaði, mannvirkjagerð og skipulagsmálum og kynna sér spennandi vörur og þjónustu. FVA verður með bás á sýningunni ásamt FB, BHS, VMA og FSS. Við hvetjum alla til að mæta a.m.k. einhvern sýningardaganna en athugið að það kostar inn! FVA býður útskriftarnemum í verknámi á sýninguna. 
 
Undirbúningur hér á bæ er hafinn af fullum krafti en hér þurfa margir að koma að ef vel á að vera. Þetta er stórt verkefni sem við erum að vinna í fyrsta sinn. Tilgangurinn er að glæða aðsókn með að kynna verknámið myndarlega og vekja áhuga á þeim fjölbreyttu framtíðarmöguleikum sem felast í þessum iðngreinum. 

Miðannarmat

Lokað verður fyrir einkunnir í Innu frá því seinnipartinn á föstudaginn til kl. 16:00 næsta miðvikudag vegna skráningar kennara á miðannarmati.  Eftir opnun á miðvikudaginn geta nemendur og foreldrar skoðað miðannarmatið en það veitir mikilvægar upplýsingar um núverandi námsstöðu.
 
Opnað verður fyrir val áfanga fyrir næstu önn á mánudaginn og þann sama dag kl. 13:30 til 14:00 verður kynning á áföngum í boði á sal skólans.  Frekari upplýsingar og leiðbeiningar verða sendar nemendum í vikunni.


 

Tvímælis

Atli Harðarson, fyrrum skólameistari FVA,  leit inn í dag og færði skólanum nýútkomna bók sína Tvímælis, heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans. Kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Á saurblaðið skrifaði hann til okkar:

„Margt af því sem ég þurfti að læra  til að geta skrifað þessa bók lærði ég í Fjölbrautaskóla Vesturlands, þess vegna færi ég skólanum þetta eintak að gjöf. Atli.“

Á bókarkápunni er stílfræð mynd af útkrotaðri skólatöflu úr líffræðistofunni í FVA.



Hér er hægt að lesa bókina en prentgripurinn sjálfur bíður lesenda á bókasafni FVA.

Leyfisbréf gildir

Samkvæmt lögum nr. 95/2019 er gefið út eitt leyfisbréf kennara en ekki aðgreint á milli skólastiga eins og fyrri lög kváðu á um. Áður útgefin leyfisbréf leik-, grunn- og framhaldsskólakennara uppfylla skilyrði fyrir leyfisbréfi með sérhæfingu á því skólastigi sem fyrri kennsluréttindi tóku til.

Á vef Menntamálastofnunar kemur fram að ekki verða gefin út ný leyfisbréf til þeirra sem hafa fengið leyfisbréf leik-, grunn- og framhaldsskólakennara fyrir gildistöku laga nr. 95/2019. Kennarar með áður útgefin leyfisbréf hafa því kennsluréttindi á framhaldsskólastigi með sérhæfingu á því skólastigi sem fyrri kennsluréttindi tóku til.

Fræðsla, mikilvægir fundir

 


Á morgun, miðvikudag kl 15 í B207, er boðið upp á leiðsögn um TEAMS af endalausri þolinmæði. Einstakt tækifæri til að setja sig inn í helstu aðgerðir og möguleika í forriti sem sífellt fleiri brúka.

Á föstudaginn er deildarstjórafundur. 

Næsta miðvikudag er svigrúm til funda og teymisvinnu.

Margs konar vá

Viðbragðsáætlun FVA, en öllum framhaldsskólum er skylt að hafa slíka aðgengilega, hefur verið uppfærð og birt á vef skólans. Þar má m.a. finna ferla um viðbrögð við náttúruvá, smitsjúkdómi, ofbeldi, hópslysum o.fl. 

Smelltu á myndina til að skoða áætlunina.

Lífshlaupi lokið

Lífshlaupinu lauk í dag, þriðjudaginn 25. febrúar. Leikar fóru þannig að FVA er í 66. sæti af 280 og með 40% þátttöku sem okkur þykir bara nokkuð gott.

Starfsmenn FVA voru verðlaunaðir fyrir glæsilega frammistöðu í Lífshlaupinu. Sigurvegarinn spriklaði í rúmar 2000 mínútur þann tíma sem keppnin stóð og fékk gjafabréf í Matarbúri Kaju í verðlaun. Haldin var plankakeppni á kaffistofu kennara þar sem nýtt Akranesmet var sett: Sjö mínútur! Sigurvegarinn hreppti tvo bíómiða - á sýningu að eigin vali.

Hér á sjá úrslit í okkar flokki í vinnustaðakeppninni en lítið fór fyrir i þátttöku nemenda að þessu sinni.
 

Sigurvegararnir glaðbeittir ásamt stoltum skólameistara
https://www.facebook.com/FVA-Fj%C3%B6lbrautask%C3%B3li-Vesturlands-Akranesi-242968919124182/
https://www.instagram.com/fjolbraut/
https://www.fva.is/e

©FVA 2020
Ábm: Skólameistari FVA







This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi · Vogabraut 5 · Akranes 300 · Iceland