Copy

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá síðasta fréttabréfi. Við tókum saman það helsta frá síðustu vikum, ásamt yfirferð yfir það sem er á döfinni.
 

Veiran og áhrif á starf samtakanna

Óhætt er að segja að starf Rafmyntaráðs hefur verið með öðru sniðu síðustu vikurnar. Vegna samkomubanns fórum við strax í að aflýsa viðburðum sem vorum á teikniborðinu út maí. Það verður þó seint sagt að við höfum setið aðgerðalaus þar sem við réðumst strax í að gefa út fimm hlaðvarpsþætti um ástandið og horfur heimsins. Samtökin hafa einnig kappkostað að efla rafræna miðlun efnis, og má sjá afrakstur þess á vefsíðu Rafmyntaráðs.

Nú stendur yfir vinna við að þrýsta á stofnanir að gefa út bindandi álit um meðferð og skattlagningu rafmynta og er öllum velkomið að senda á okkur fyrirspurnir því tengdu. Mikilvægt er að regluverkið sé umfram allt skýrt þannig að framtaksamt fólk geti beitt sér í nýsköpun í geiranum.
 

Aðalfundi frestað

Til stóð að halda aðalfund samtakanna í lok apríl en sökum tilmæla stjórnvalda ákvað stjórnin að fresta fundinum. Stefnt er að því að halda aðalfund strax eftir sumarið, en send verður út formleg tilkynning þegar nær dregur.
 

Bitcoin helmingunin eftir fjórar vikur

Helmingunaráhrif Bitcoin (e. halving) mun eiga sér stað þann 12. maí næstkomandi. Þessi viðburður hefur átt sér stað tvisvar í sögu Bitcoin, en þumalputtareglan er sú að hann gerist á fjögurra ára fresti. Við í Rafmyntaráði bíðum spennt og munum senda út meira efni í aðdraganda þessa stóra viðburðar og höldum enn í vonina að hægt verði að blása til fögnuðar.

Í heildina verða einungis til um 21 milljón bitcoin. Í dag hafa 18.3 milljón nú þegar verið framleidd með svokallaðri námuvinnslu. Helmingunaráhrifin birtast þannig að útgáfa á nýju bitcoin minnkar úr 656.250 niður í 328.125 á ársbasa og færir nýjan myntslátt í kerfinu undir tvö prósent.

Í síðustu viku fóru tvö afsprengi af rafmyntinni Bitcoin í helmingun, en það voru myntirnar Bitcoin Cash og Bitcoin SV. Fróðlegt verður að sjá hvað gerist þegar Bitcoin helmingast, en ljóst er að stemmingin í rafmyntaheimum er að aukast dag frá degi.
 

Hver verður verðþróun bitcoin?

Framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs fór heldur betur í saumana á verðþróun bitcoin í nýjum hlaðvarpsþætti. Einnig er vert að skoða innsenda grein sem Rafmyntaráð sendi í Viðskiptablaðið í ágúst í fyrra. Ljóst er að óvissan er mikil, en jarðvegurinn fyrir bitcoin hefur aldrei verið jafn frjór. Á meðan seðlabankar heimsins keppast við að prenta pening og auka þannig peningamagn í umferð dregur Bitcoin úr nýframboði með fyrirsjáanlegum hætti.
 

Öruggir markaðir til að eignast rafmynt

Áhugi einstaklinga og fyrirtækja á því að eignast rafmynt hefur aukist jafnt og þétt með komandi helmingun, ásamt óróleika í efnahagshorfum heimsins. Vert er því að benda á að hægt er að kaupa rafmyntir á öruggan hátt hjá íslensku skiptimörkuðunum isx.is og myntkaup.is, eða með erlendu mörkuðunum kraken.com og coinbase.com.


Við vonum að þið séuð örugg og hafið það gott á meðan veiran gengur yfir og hlökkum til að hefja starfið aftur af krafti.

Til fróðleiks er Bitcoin netið ritað með stórum staf, en rafmyntin bitcoin með litlum.

Copyright © 2020 Rafmyntaráð Íslands, All rights reserved.


Want to change how you receive these emails?
You can update your preferences or unsubscribe from this list.