Copy
Skoða póstinn í vafra

Yfirlýsing Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna lífskjarasamninga 2019-2022

Aldís Hafsteinsdóttir formaður og Karl Björnsson framkvæmdastjóri undirrituðu í gær f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga yfirlýsingu vegna lífskjarasamninga 2019-2022. Í yfirlýsingunni mælist sambandið til þess við sveitarfélögin að þau hækki ekki gjaldskrár sínar á árinu 2019 umfram það sem þegar er komið til framkvæmda. Mun sambandið mælast til þessa til að stuðla að verðstöðugleika. Þá mun sambandið einnig mælast til þess að á árinu 2020 hækki gjaldskrár sveitarfélaga um 2,5% að hámarki, en minna ef verðbólga verður lægri. 

Nánar

XXXIII. landsþing

Stóru málin á XXXIII. landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, voru húsnæðismál, samgöngumál og kjaramál. Af einstökum málum báru fyrirhugaðar skerðingar á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og veggjöld einna hæst. 

Landsþingið hófst að venju með ávarpi formanns. Vék Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambandsins, m.a. að stöðu mála á vinnumarkaði, sameiginlegri kjarastefnu ríkis og sveitarfélaga og væntri útgjaldaaukningu vegna nýrra kjarasamninga. Þá sagði Aldís varðandi jöfnunarsjóðsmálið, að ráðgerðar skerðingar á framlögum til sjóðsins væru áfall, bæði fyrir einstök sveitarfélög og einnig samstarf ríkis og sveitarfélaga. Undirstrikaði formaðurinn jafnframt mikilvægi þess að ríki og sveitarfélög jafni sem fyrst þennan innbyrðis ágreining. Þá ályktaði landsþingið sérstaklega gegn þessum skerðingaráformum sem óásættanlegum með öllu.

Í ávarpi sínu vék Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, m.a. að veggjöldum. Slíka gjaldtöku sagði hann ekki markmið sem slíka heldur tæki til að byggja upp vegakerfið. Einnig sagði ráðherra æskilegt að nýta arðgreiðslur Landsvirkjunar og bankanna til að fjármagna samgöngubætur, enda væri sú leið hagkvæmari fyrir ríkið en aðrar leiðir sökum lægri fjármagnskostnaðar. 

Þá bar einnig svo til tíðinda, að sambandið tók veftæknina í þjónustu sína vegna fyrirspurna til framsögumanna. Voru, samkvæmt þessu nýja fyrirkomulagi, eingöngu leyfðar skriflegar fyrirspurnir á www.sli.do, sérhæfðu veftóli sem hannað er fyrir umræðustjórn á stórum fundum. Þá vöktu óformlegar skoðanakannanir sem gerðar voru á sli.do ekki síður verðskuldaða athygli, en ein slík leiddi í ljós jákvætt viðhorf til veggjalda á meðal landsþingsfulltrúa.

Landsþingið fór fram á Grand hóteli þann 29. mars sl. Nálgast má upptökur af fróðlegum framsögum þingsins á vef sambandsins.

Á yfirlitsmyndinni hér að ofan má sjá niðurstöður úr óformlegri sli.do skoðanakönnun vegna skerðinga til jöfnunarsjóðs. Voru landþingsfulltrúar beðnir um að lýsa skoðun sinni með einu orði. (Ljósm. IH)

Sjá ljósmyndir af XXXIII. landsþingi

Aðgerðaleysi er ekki valkostur

Fræðasamfélagið og stjórnmálin tóku höndum saman á málþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga um loftslagsmál. Á meðal framsögumanna var Jórunn Harðardóttir hjá Veðurstofu Íslands, en hún fjallaði um úrkomubreytingar sem hafa orðið og kunna að aukast enn frekar frá því sem nú er. Þurrkadögum kann að sama skapi að fara fjölgandi og ákefð í úrkomu gæti einnig aukist. Varðandi sveitarfélögin, þá knýr þessi þróun á um aukin viðbúnað vegna mögulega aukinnar skriðu- og flóðahættu annars vegar og gróður- og mýrarelda hins vegar svo að dæmi séu nefnd. Skipulag og uppbygging innviða, s.s. veitukerfa, þarf einnig að skoða með tilliti til þessa. 

Þetta eru aðeins örfá dæmi af mjög mörgum um afleiðingar loftslagsbreytinga og áhrif þeirra á sveitarfélögin, sem rædd voru á málþinginu. Í setningarræðu sinni brýndi Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambandsins, mikilvægi aðgerða og samstarfs sveitarfélaga í loftslagsmálum. Aðgerðaleysi er að sögn formannsins ekki valkostur.

Nálgast má upptökur af framsögum málþingsins á vef sambandsins.

Nánar

Nýtt rafrænt útboðskerfi Ríkiskaupa

Ríkiskaup hafa innleitt rafrænt útboðskerfi, sem ætlað er að einfalda aðgengi að opinberum útboðum og draga úr umsýslukostnaði kaupenda og seljenda. Má þar nálgast endurgjaldslaust útboðsauglýsingar og útboðsgögn. Sveitarfélögum er heimilt að nýta sér nýja rafræna útboðskerfið, sem mun eflaust í mörgum tilvikum koma sér vel, en þann 31. maí nk. taka sem kunnugt er gildi nýjar viðmiðunarfjárhæðir. Sveitarfélögin geta nýtt sér nýja útboðskerfið með þrenns konar hætti, eins og sagt er nánar frá á vef sambandsins.

Nánar

Byggðafesta og búferlaflutningar

Íbúum 56 bæja og þorpa vítt og breitt um landið býðst nú að taka þátt í könnuninni Byggðafesta og búferlaflutningar: Bæir og þorp á ÍslandiKönnunin er opin öllum íbúum 18 ára og eldri, sem eiga heima í byggðakjörnum með færri en tvö þúsund íbúa utan suðvesturhornsins. 

Könnunin er liður í viðamikilli rannsókn sem Byggðastofnun stendur að í samstarfi við innlenda og erlenda háskóla, en markmiðið er að byggja upp aukinn skilning á sérstöðu og áskorunum einstakra byggðarlaga ásamt því, að styðja við stefnumótun og aðgerðir í byggðamálum. Fleiri kannanir eru svo í undirbúningi vegna annarra byggðarlaga.

Nánar

Leyfisóskir og skólaforðun

Velferðarvaktin kynnti nýlega niðurstöður rannsóknar á skólasókn - leyfisóskir og skólaforðun. Beinist rannsóknin að áhrifum annars vegar leyfisveitinga og hins vegar skólaforðunar á almenna skólasókn hjá nemendum. Niðurstöðurnar eru um margt sláandi, ekki hvað síst umfang leyfisveitinga. 

Velferðarvaktin leggur til að leitast verði með öllum ráðum við, að fyrirbyggja skólaforðun með virkum stuðningsúrræðum við þau börn sem við hana glíma og að tekin verði upp samræmd fjarvistaskráning um allt land svo fylgjast megi með umfangi vandans hverju sinni. Þá er einnig lagt til að tekin verði upp opinber viðmið um skólasókn á Íslandi og/eða heimildir skólastjórnenda auknar til að hafna leyfisóskum vegna nemenda. Samhliða því verði stuðlað markvisst að almennri viðhorfsbreytingu á meðal foreldra/forsjáraðila gagnvart leyfisveitingum frá skólasókn.

 

Nánar

Barnahús opnar útibú á Norðurlandi

Barnahús opnaði í dag útibú á Akureyri, hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Í útibúinu verða tekin rannsóknarviðtöl við börn og boðið upp á áfallameðferð, en þar er aðstaða fyrir bæði dómstóla og barnaverndarnefndir til að kanna grun um ofbeldi gegn börnum. 

Hingað til hafa þeir sem annast meðferð ferðast um landið en nú er komin aðstaða til að veita börnum á Norðurlandi hana á staðnum. Það býður upp á að hægt sé að hafa ýmsan æskilegan búnað við höndina, sem ekki er hægt þegar starfsfólk er á ferð og flugi, og ætti það að leiða til betri þjónustu. Vonir standa til þess að sambærileg útibú geti starfað í öllum landsfjórðungum. (Ljósm. Akureyrarbær)

 

Nánar
Copyright © 3_mars_2019
Samband íslenskra sveitarfélaga
Allur réttur áskilinn


Sendu okkur póst ef þú ert með athugasemd eða ábendingu. 
Einnig geturðu skráð þig af útsendingarlista ef þú vilt ekki fá send fleiri Tíðindi.






This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Samband íslenskra sveitarfélaga · Borgartún 30 · Reykjavik 108 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp