Copy
Skoða póstinn í vafra

Samsköpun nýtur vaxandi vinsælda

Samsköpun hefur verið að ryðja sér til rúms á hinum Norðurlöndunum sem hagnýt aðferð til að bæta þjónustu sveitarfélaga með aukin lífsgæði íbúa fyrir augum. Hefur aðferðin reynst bæði kjörnum fulltrúum og stjórnendum gagnleg ekki hvað síst þegar leysa þarf úr flóknum eða vandmeðförnum viðfangsefnum svo sem í velferðarþjónustu. Anne Tortzen, einn af fremstu sérfræðingum Norðurlandanna í samsköpun, verður með vinnustofu þann 3. júní nk. í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur við Brynjólfsgötu Reykjavík, kl. 13:00 til 16:30. Vinnustofan nefnist How can life quality of citizens and communities be improved through co-creation? og verður megináhersla lögð á að veita þátttakendum innsýn í hvað hafi gefist vel í samsköpun og hvað beri að varast þegar stuðst er við samsköpun sem aðferðafræði í nýsköpun og þróun opinberrar þjónustu. Vinnustofan er einkum ætluð kjörnum fulltrúum og stjórnendum sveitarfélaga.

Nánar

Nýsköpunardagur hins opinbera 2019

Nýsköpunardegi hins opinbera verður fagnað 4. júní nk. með veglegri dagskrá í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, kl. 08:30-11:00. Dagskráin er einkum ætluð stjórnendum hjá ríki og sveitarfélögum. Aðalræðumaður er Anne Tortzen, sem fjallar um nýsköpun í samvinnu við almenning sem aðferð til að bæta opinbera þjónustu. Þá verða fjögur nýsköpunarverkefni á vegum opinberra vinnustaða kynnt og verkefnastofa um stafrænt Ísland kynnir aðferðafræði við mat á ávinningi af stafrænni þjónustu, svo að dæmi séu nefnd. Nýsköpunardagur hins opinbera er haldinn í samstarfi ríkis og sveitarfélaga.

Nánar

Samstarfsvettvangur sveitarfélaga fyrir heimsmarkmiðin og loftslagsmál

Boðað er til stofnfundar samstarfsvettvangs sveitarfélaganna fyrir heimsmarkmiðin og loftslagsmál. Stofnfundurinn verður 19. júní nk. kl. 13:00 til 14:30 í Reykjavík. Dagskrá fundarins verður ásamt fundarstað kynnt síðar. Fundarþátttaka á Skype verður í boði fyrir þá sem vilja.
 
Á meðal þeirra verkefna sem nýi samstarfsvettvangurinn gæti tekið til má nefna sameiginlega framtíðarsýn sveitarfélaganna vegna heimsmarkmiðanna og loftslagsmála, samstarf sveitarfélaga, sameiginleg stjórntæki og verkfærakistur, hagnýta þekkingaröflun og þekkingarmiðlun, aðgerðir vegna fyrirhugaðra orkuskipta og fjármögnun aðgerða, svo að fátt eitt sé nefnt.
 
Þau sveitarfélög sem vilja gerst aðilar tilnefna 1-2 tengiliði. Útbúið hefur verið rafrænt eyðublað fyrir skráningu tengiliðs(-liða) sveitarfélagsins sem fylla verður út og jafngildir sú skráning aðild að vettvangnum.  
 
Þess má svo geta að stofnfundur samráðsvettvangsins verður öllum opinn og eru þátttakendur beðnir um að skrá sig hér, bæði þeir sem ætla að mæta á fundinn og svo einnig þeir sem ætla að taka þátt með Skype.

Skráning á stofnfund samráðsvettvangsins
Skráning tengiliða fyrir samráðsvettvanginn

Góð rekstrarafkoma og miklar fjárfestingar

Samantekt hag- og upplýsingasviðs úr ársreikningum 10 stærstu sveitarfélaga landsins leiðir í ljós, að afkoma var á síðasta ári góð og fjárfestingar miklar. Fjárfestingar jukust í A-hluta um 36% frá árinu 2017 og rekstrarafgangur svaraði til 4,2% af heildartekjum, sem er jafnframt aðeins betri árangur en árið áður. Veltufé frá rekstri nam 11,2% af heildartekjum árið 2018, samanborið við 10,2% árið áður, 11,7% árið 2016 og 12,7% árið 2015.

Fjárfesting var umfram það sem reksturinn skilaði og var að hluta til fjármögnuð með lántökum. Þá luku flest sveitarfélög uppgjöri við Brú lífeyrissjóð með lántökum á árinu og hækkuðu skuldir því einnig um það sem þeim nemur. Í krónum talið jukust skuldir og skuldbindingar A-hluta um 8,4% og hækkuðu sem hlutfall af heildartekjum úr 109,6% í 112,4% á milli ára. 

Nánar

Fast skotið á fjármálaáætlun 2020-2024   

Farið er nokkuð ítarlega yfir einstök málefnasvið fjármálaáætlunar 2020-2024 í umsögn sambandsins til fjárlaganefndar um málið og fast er skotið þar sem efni standa til. Á meðal þess sem fjallað er um eru áhrif nýgerðra „lífskjarasamninga“ á almennum vinnumarkaði á fjárhag sveitarfélaga. Kemur skýrt fram að kjarasamningarnir og aðgerðir stjórnvalda sem af þeim leiða, munu valda sveitarfélögunum verulegu tekjutapi og auknum kostnaði, sem gæti numið allt að sextán ma.kr. á samningstímanum. Þar vega m.a. þungt tillögur um aðgerðir í húsnæðismálum. Einnig er áhersla lögð á að innheimtuþóknun sem sveitarfélögin greiða ríkinu fyrir innheimtu útsvars í staðgreiðslu verði lækkuð verulega og að fjármagn verði tryggt til sóknaráætlana landshluta og til almenningssamgangna, svo að dæmi séu nefnd. Þá er gerð skýlaus krafa um að Alþingi dragi til baka áform ríkisstjórnarinnar um frystingu framlaga til jöfnunarsjóðs.

Nánar

Vorfundur GRUNNS 2019

Grunnur, félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, hélt sinn árlega vorfund á Siglufirði dagana 6.-8. maí 2019. Á fundinum var meðal annars fjallað um menntun allra barna og var sérstök áhersla á málefni barna af erlendum uppruna. Kynnt var samstarfsverkefni þriggja sveitarfélaga um stöðumat fyrir börn af erlendum uppruna sem eru nýkomin til landsins og eru að hefja skólagöngu. Gert er ráð fyrir að öll sveitarfélög geti nýtt sér verkefnið frá og með haustinu vegna grunnskólans en unnið er að þýðingu sambærilegs efnis fyrir leikskólastigið. Af öðru sem rætt var á fundinum má nefna mikilvægi samvinnu og þverfaglegs samstarfs ólíkra fagstétta til dæmis félags-, fræðslu- og frístundaþjónustu, heilsugæslu og skóla. Kynntar voru tvær nálganir við að efla stuðning og þjónustu við börn í leik- og grunnskólum, Brúin í Hafnarfirði og Austurlandslíkanið. Þá var farið yfir útfærslu og fyrirkomulag aðgerða mennta- og menningarmálaráðherra sem kynntar voru nýverið og miða að því að auka nýliðun í kennarastétt, til dæmis með starfsnámsári og námsstyrkjum.  

Nánar

Fjölsótt málþing um skólasókn og skólaforðun

Fjölmennt var á málþingi sem Samband íslenskra sveitarfélaga gekkst nýlega fyrir í samstarfi við Velferðarvaktina og Umboðsmann barna um skólasókn og skólaforðun. Í forgrunni málþingsins var könnun sem Velferðarvaktin lét gera í byrjun þessa árs og leiddi í ljós að skólasókn ætti undir högg að sækja, aðallega vegna aukinna skólaleyfa hjá grunnskólabörnum. Einnig leiddi könnunin í ljós að skólaforðun á sér víða stað, en áætla má út frá niðurstöðum hennar að um 1.000 börn forðist að staðaldri að mæta í skólann. Nálgast má upptökur og glærur framsögumanna á vef sambandsins ásamt athyglisverðum myndböndum frá ráðgjafahópi Umboðsmanns barna þar sem ungt fólk segir frá sinni sýn á málin. Þess má svo geta að Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tilkynnti á málþinginu að stýrihópi stjórnarráðsins í málefnum barna hafi verið falið að gera tillögur til úrbóta vegna vanda grunnskólans í tengslum við skólasókn og skólaforðun.

Nánar
Copyright © 5_maí_2019
Samband íslenskra sveitarfélaga
Allur réttur áskilinn


Sendu okkur póst ef þú ert með athugasemd eða ábendingu. 
Einnig geturðu skráð þig af útsendingarlista ef þú vilt ekki fá send fleiri Tíðindi.






This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Samband íslenskra sveitarfélaga · Borgartún 30 · Reykjavik 108 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp