Copy
View this email in your browser

Sveitarfélagaskólinn opnar

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur um langt skeið staðið fyrir fræðslu í upphafi kjörtímabils fyrir nýkjörið sveitarstjórnarfólk með staðnámskeiðum.

Þar var farið yfir helstu atriði er sveitarstjórnarfólk þarf að þekkja; m.a. starfsumhverfi, skyldur og hlutverk sveitarstjórna, fjármál sveitarfélaga og margt fleira. Ákveðið hefur verið að flytja námskeiðin yfir á rafrænt form undir heitinu Sveitarfélagaskólinn. Þegar hafa verið framleidd níu stafræn námskeið sem standa munu sveitarstjórnarfólki til boða gegn vægu gjaldi.

Sveitarfélagaskólinn opnar strax eftir kosningar þann 16. maí og verða flest námskeiðin aðgengileg þá þegar og hin fylgja fljótlega í kjölfarið. Við hvetjum stjórnendur sveitarfélaga til að kaupa aðgang að námskeiðunum fyrir nýkjörið, sem og endurkjörið sveitarstjórnarfólk strax að loknum kosningum.

Nánar á vef sambandsins

Græn nýsköpun í brennidepli á Nýsköpunardegi hins opinbera

Nýsköpunardagur hins opinbera verður haldinn 17. maí næstkomandi. Viðburðurinn fer fram árlega og er markmiðið að hvetja til aukinnar nýsköpunar hjá hinu opinbera.

Þemað í ár er græn nýsköpun og er dagskráin afar fjölbreytt. Erindi sem flutt verða snúa jafnt að nýjum tækifærum í nýsköpun, sem og reynslusögum af vel heppnuðum verkefnum.

Nýsköpunardagurinn er fer fram í Grósku á milli klukkan 9:00 og 15:30. Einnig verður hægt að skrá sig til þess að fylgjast með í streymi.

Nánar á vef sambandsins

Skipar starfshóp sem á að móta tillögur varðandi kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk

Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 6. maí sl. var tillaga félags- og vinnumarkaðsráðherra um að skipa starfshóp sem á að móta tillögur varðandi kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk samþykkt.

Í starfshópnum verða fulltrúar frá forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, innviðaráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga auk félags- og vinnumarkaðsráðuneyti. Í vinnu hópsins verður einnig horft til þeirra niðurstaða sem fram koma í skýrslu starfshóps um greiningu á kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk.

Nánar á vef sambandsins

Allir eru samtaka um hringrásarhagkerfið

Undanfarnar vikur hefur verkefnið Samtaka um hringrásarhagkerfi gert víðreist um landið og hitt fyrir sveitarstjórnarfólk og lykilstarfsmenn í úrgangsmálum.

Vinnusmiðjur, fundir, samtal og fræðsla um stóru dagsetninguna 1. janúar 2023 hafa farið fram. Þá taka gildi lög um hringrásarhagkerfi og fram undan er ein allsherjar breyting á öllu er varðar flokkun og endurvinnslu og lágmörkun urðunar. Auk þess er í nýju lögunum kveðið á um að framleiðendaábyrgðarkerfið, sem Úrvinnslusjóður og Endurvinnslan bera ábyrgð á, eigi að koma sterkar inn með hagræna hvata til að drífa úrgangsstjórnun í átt að markmiðum  hringrásarhagkerfisins. Þátttaka og viðbrögð hafa verið afar góð og ljóst er að þessi mál eru sveitarstjórnarfólki hugleikin, enda stórt og mikilvægt verkefni og skammur tími til stefnu.

Nánar á vef sambandsins

Cities4Cities

Á vegum Sveitarstjórnarþingsins Evrópuráðsins í Strasbourg hefur verið opnuð rafræn gátt, Cities4Cities, til að koma á tengslum á milli úkraínskra sveitarfélaga og sveitarfélaga sem eiga aðild að Sveitarstjórnarþinginu og vilja veita sveitarfélögum í Úkraínu stuðning.

Sambandið tilnefnir þrjá fulltrúa til setu á Sveitarstjórnarþinginu. Meginhlutverk þess er að hafa eftirlit með framkvæmd Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga og sveitarstjórnarkosninga í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Þingið fjallar auk þess um áskoranir sveitarfélaga á hverjum tíma í lýðræðis og mannréttindamálum. Það kemur saman tvisvar á ári í Strasbourg, Frakklandi.

Nánar á vef sambandsins

Stuðningur við sveitarfélög vegna móttöku barna á flótta frá Úkraínu

Mennta- og barnamálaráðherra hefur ákveðið að veita tímabundinn fjárhagslegan stuðning til sveitarfélaga þar sem börn á flótta frá Úkraínu og fjölskyldur þeirra verða með búsetu..

Stuðningnum er ætlað að styðja við móttöku undirbúning á skólastarfi og virkja þátttöku barnanna. Þá er stuðningnum ætlað að styðja við náms- og félagsleg úrræði sveitarfélaga fram að skólabyrjun haustið 2022. Við ráðstöfun fjármagnsins verður leitast við að styðja við fjölbreytt úrræði sem mæta þörfum ólíkra aldurshópa barna og ungmenna 18 ára og yngri. Huga skal sérstaklega að ungmennum á aldrinum 16-18 ára og yngstu börnunum.

Nánar á vef sambandsins
Afkoman slök en betri en reiknað var með
Hag- og upplýsingasvið sambandsins hefur tekið saman ársreikninga tíu stærstu sveitarfélaga landsins fyrir árið 2021. Um er að ræða A-hluta en þar er um að ræða verkefni sem eru að stærstum hluta fjármögnuð með sköttum.
Sjá nánar á vef sambandsins

Leikskólakennarar samþykktu kjarasamning

Félagar í Félagi leikskólakennara hafa samþykkt kjarasamning sem gerður var við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Samninganefndir FL og Sambands íslenskra sveitarfélaga skrifuðu undir samninginn 27. apríl síðastliðinn. Gildistími samningsins er 1. janúar 2022 til 31. mars 2023. 

Atkvæðagreiðsla um samninginn hófst að morgni fimmtudagsins 5. maí og lauk klukkan tólf í dag, miðvikudaginn 11. maí. 

Benedikt Þór Valsson er látinn
Samstarfsfélagi okkar og vinur, Benedikt Þór Valsson hagfræðingur, lést á heimili sinu fimmtudaginn 28. apríl sl.

Benedikt hafði starfað sem hagfræðingur á kjarasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2009. Hann kom að gerð kjarasamninga og sá um útreikninga á áhrifum launahækkana á fjárhag sveitarfélaga. Benedikt var ákaflega vel liðinn meðal samferðafólks síns, hafði hæga lund en var hnyttinn þegar það átti við og var sögumaður góður.

Benedikt, sem var á sjötugasta aldursári, var farinn að huga að starfslokum um mitt sumar, en ætlaði að koma með okkur í starfsmannaferð til Króatíu sama dag og hann lést.

Stjórn og starfsfólk Sambands íslenskra sveitarfélaga og Lánasjóðs sveitarfélaga senda eiginkonu Benedikts, börnum þeirra og öðrum afkomendum dýpstu samúðarkveðjur.

Útför Benedikts Þórs Valssonar fer fram frá Grafarvogskirkju, fimmtudaginn 12. maí kl. 13:00. Verða skrifstofur Sambands íslenskra sveitarfélaga og Lánasjóðs sveitarfélaga lokaðar frá hádegi á fimmtudag vegna útfararinnar. 

Twitter
Facebook
Website
Tíðindi 16. tbl. 11. maí 2022
© Samband íslenskra sveitarfélaga 2022, Allur réttur áskilinn.
Netfang: samband@samband.is

Viltu breyta eða segja upp áskrift? Afskrá af póstlista.

„Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls. Afturámóti klífa þeir þrítugan hamarinn til að verða við bænarstað vina og frænda, enda mundi landsbygð á Íslandi hafa lagst niður fyrir mörgum öldum ef eigi væri svo. Þó er enn ein röksemd sem íslendíngar eru fúsir að hlíta þegar alt um þrýtur, en það er fyndni; má vera aulafyndni. Við hlægilega lygisögu mýkist þjóðfélagið og fer að ljóma upp; jarðvegur sálarinnar verður jákvæður.“

- Halldór Kiljan Laxness: Innansveitarkrónika
 
   






This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Samband íslenskra sveitarfélaga · Borgartún 30 · Reykjavik 108 · Iceland